24.02.1948
Neðri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

93. mál, útrýming villiminka

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Frv. þetta um bann gegn minkaeldi. sem prentað er á þskj. 129, hefur legið nokkuð lengi til athugunar í landbn., og er ekki nema eðlilegt, að hv. flm. frv. finnist sá dráttur, sem orðinn er á afgreiðslu málsins frá n., vera nokkuð langur orðinn. En þó að frv. sé nú ekki mikið fyrirferðar, þá er málið ekki alveg eins einfalt og í fljótu bragði mætti ætla. Landbn. hefur athugað málið á mörgum fundum, en hún taldi sig ekki geta tekið ákvörðun um málið fyrr en leitað væri álits ýmissa aðila, sem þetta mál snertir. Hún leitaði því umsagna nokkurra aðila í þessu efni, en þeir voru: Loðdýraræktarfélag Íslands. loðdýraræktarráðunautur, tilraunaráð búfjárræktar og Búnaðarfélag Íslands. Gerð er grein fyrir svörum þessara aðila á þskj. 373. Þrír hinna fyrrnefndu aðila mæltu gegn frv., en meiri hluti Búnaðarfélags Íslands mælti með, að frv. yrði samþ. Nú er það mjög greinilegt, að ekki er hægt að afgreiða mál sem þetta með tilliti til hagsmuna einstakra stétta, og hafði landbn. það í huga, er hún athugaði frv. Er málið var athugað frekar, kom í ljós, að töluverð brögð hafa verið að því, að minkar hafi sloppið úr minkagirðingum, og mun mest hafa að þessu kveðið fyrsta árið eftir að minkurinn var fluttur til landsins. Þá var lítil þekking meðal manna um hirðingu, meðferð og gæzlu þessara dýra, en þetta hefur tekið miklum breytingum hin síðari ár. Það er og vitað, að á fjöldamörgum stöðum, þar sem minkaeldi hefur verið, hefur ekkert dýr sloppið út úr búrunum. Það er greinilegt, að það eru aðeins einstök tilfelli, að minkar hafi sloppið út, og er vitað um það. Við höfum drepið á þetta í nál. og vitum að það er rétt. Þegar brögð voru að þessu, að minkur slapp lifandi út úr búri, þá var það sérstök tegund, sem fluttist hingað fyrst, en nú er búið að útrýma þeirri tegund, og ekki er vitað um aðra tegund, sem veiðzt hafi. Loðdýraræktarráðunautur telur, að þeir 6–7 hundruð villiminkar, sem veiðzt hafa og hafa verið rannsakaðir undanfarin ár, séu allir af þeirri tegund minka, — að e. t. v. einum undanskildum. — sem fyrst var flutt inn, en hinna síðar innfluttu tegunda hafi ekki orðið vart sem villiminka. Þessi rök eru allþung á metunum og gefa tilefni til þess, að ekki sé rétt að fallast á algera útrýmingu minka og bann minkaeldis. Auðvitað þarf að ganga svo vel frá búrunum, að engin hætta sé á því, að minkur sleppi lifandi út úr þeim. Breytingar þær, sem gerðar hafa verið á l. um loðdýrarækt, hafa miðað að því að auka þetta öryggi, en þau l. eru enn svo nýleg, að ekki er enn nein reynsla fengin um það, hvernig sú löggjöf reynist. Landbúnaðarnefnd hefur því ekki getað fallizt á, að minkaeldi yrði algerlega bannað í landinu með lögum. Alþ. hefur með samþykkt l. um loðdýrarækt stuðlað að því, að loðdýrarækt verði aukin í landinu, og telur n. því ekki hægt að banna minkaeldi, nema beinar sannanir liggi fyrir um, að beinn voði sé á ferðum. M. ö. o., n. lítur svo á, að hægt sé að gera tryggar ráðstafanir til þess að tryggja, að minkar sleppi ekki úr haldi. Slíkt er þó aldrei hægt að forsvara 100%. t. d. ef skemmdarvargar ráðast að búunum og hleypa minkum út, en þá erum við komnir inn á glæpi, en erfitt er að banna minkaeldi á þeim grundvelli. Hins vegar erum við í landbn. á sama máli og hv. flm. frv. um það, að minkaplágan sé hættuleg og hafi valdið tjóni, þótt of mikið hafi nú kannske verið gert úr því af hv. flm. Ég skal ekki deila um það. En af þessum ástæðum hefur landbn. fallizt á þann hluta frv., sem lýtur að útrýmingu villiminka. Brtt. n. stefna að því að gera þau ákvæði frv., sem stefna að útrýmingu villiminka, skýrari og ákveðnari. Er svo til ætlazt, að loðdýraræktarráðunauturinn hafi yfirstjórn útrýmingar villiminka með höndum fyrir hönd landbrn. og að hann starfi að þessu með hreppsnefndum. Ég geri ráð fyrir, að hv. flm. frv. geti sætt sig við þessa leið, og auk þess höfum við gert ráð fyrir, að hærri upphæð verði veitt til útrýmingar minkum en flm. gerði ráð fyrir í frv. Nefndin breytti frv. svo, að með þessum breyt. er frv. gert að frv. til l. um útrýmingu villiminka, í stað frv. til l. um bann gegn minkaeldi. Brtt. þessar eru prentaðar á þskj. 374. 1. gr. gerir ráð fyrir, að landbrn. hafi umsjón og eftirlit með útrýmingu villiminka hvarvetna þar, sem þeirra verður vart. Ráðuneytið getur falið ráðunaut í loðdýrarækt að hafa með höndum yfirstjórn útrýmingarinnar, eftir því sem fyrir er mælt í l. Nefndin taldi einnig eðlilegt, að hreppsnefndum yrði gert skylt, hverri í sínu umdæmi, að sjá um útrýmingu villiminka og að þær gerðu skýrslur um það, hvar villiminka yrði vart og um helztu dvalarstaði þeirra. Hreppsn. skulu og tilkynna loðdýraræktarráðunaut strax og villiminks hefur orðið vart og leita álits hans, hvernig útrýmingarstarfinu skuli hagað. Hv. flm. gerðu ráð fyrir 50 kr. verðlaunum fyrir dráp hvers villiminks, en n. hefur lagt til, að verðlaunin verði hækkuð í kr. 60.00:

Með því yrði það girnilegra fyrir þá, sem fást vildu við að eyða minkum og mundi það örva menn frekar til þessa starfs. Að öðru leyti yrði eyðingin ákveðin með reglugerð. T. d. gæti komið til mála að nota hunda við að ná villiminkum, og gæti það orðið eins konar sport á þann hátt, en vitað er, að venja má hunda til þessa.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta nú. Brtt. n. gera ákvæðin um útrýmingu villiminka gleggri en þau voru áður í frv. Við teljum, að hér sé byrjað á réttum enda að útrýma villiminkunum, en að ekki sé verið að sakfella dýrin, sem liggja saklaus inni í búrum sínum. Það væri sama og að bakarinn yrði hengdur fyrir smiðinn. Það er engin ástæða til þess að banna minkaeldi á Íslandi, en hins vegar er sjálfsagt að styrkja varnirnar til þess. að öruggt sé, að minkar sleppi ekki úr búrum sínum.