24.02.1948
Neðri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

93. mál, útrýming villiminka

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég býst við, að það sé ekki mikill ágreiningur innan hv. þd. um þau atriði, sem komu fram í ræðu hv. 1. þm. Árn. (JörB) um það, sem hann sagði um villiminkapláguna. Ég held, að menn séu yfirleitt sammála um það, að hún er bæði skaðleg og leið. Og mér finnst, bæði af ræðu hv. frsm. landbn. og einnig af þeim brtt., sem landbn. flytur, að hv. landbn. sé alveg þeirrar skoðunar líka. Ég tel ekki, að það þurfi langar ræður til að sannfæra menn um, að það væri æskilegast að losna alveg við villiminkana. En mér skilst, að um það sé aðalágreiningurinn, hvort rétta leiðin til þess að útrýma villiminkunum sé að byrja á því að farga þeim minkum, sem eru í búrum, og hvort við séum feti nær því marki að vernda landið fyrir villiminkaplágunni, þó að það sé gert. Þegar svipað mál lá fyrir Alþ. fyrir nokkrum árum, var ég þeirrar skoðunar, að þetta væri ekki rétta leiðin. Og ég er það enn. Þetta mál var lagt fyrir stjórn Búnaðarfélags Íslands. Tveir af nm. mæltu með því að samþykkja frv. óbreytt. En ég taldi mig samþykkan útrýmingarákvæðum þeim um villiminka, sem frv. hefur að geyma, en var enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að það ætti að stíga það skref alvarlega um útrýmingu villiminkanna, áður en horfið yrði að hinu öðru, sem frv. er um, útrýmingu þeirra úr búrum líka, m. a. með þeim rökum, sem færð eru fram af frsm. landbn.

Ég get fyllilega tekið undir þau rök hv. 1. þm. Árn., hversu hvimleiður villiminkurinn er. Ég hef nú um nokkuð langt skeið haft á leigu eyju hér í Kollafirði, og ég tók þá eyju á leigu kannske aðallega vegna þess, að ég er alinn upp við varpland, og ég hef mikla ánægju af að stunda varp, og þarna í þessari eyju var æðarvarp, sem ég vildi stunda. En ég rak mig fljótlega á það, eftir að minkur var orðinn villtur hér á landi, að villiminkur komst í eyjuna. Og varpið er þar eyðilagt. Ég get því sagt nákvæmlega það sama og hv. 1. þm. Árn., að mér er þetta sárasta kvöl að vita af villiminknum í varplöndunum og annars staðar á landinu. En þrátt fyrir það er ég alveg sannfærður um það, að þó að ráðizt væri á öll minkabú á landinu og hvert kvikindi, sem þar er undir lás, væri drepið, þá værum við ekki feti nær t. d. að friða þessa eyju, sem ég gat um. fyrir því. Og þó að ég hafi orðið fyrir þessari plágu, þá dettur mér ekki í hug að leggja til, að byrjað verði á því að eyðileggja minkana í búunum. Hitt tel ég sjálfsagt, að hafizt verði alvarlega handa um að útrýma sjálfum villiminkunum. Ég veit, að hér hefur á orðið mjög mikil handvömm, þegar minkar voru fluttir inn, um að gæta þess öryggis, sem þurfti og unnt hefði verið viðkomandi umbúnaði minkabúranna og gæzlu þessara dýra. Og fyrir þá handvömm er komið eins og komið er í þessum efnum, að villiminkurinn er nú kominn víða um landið. Hitt er ég líka sannfærður um, að þetta voru barnasjúkdómar hjá okkur í alveg nýrri og óþekktri atvinnugrein. Og ég er sannfærður um, að það er allur annar hugsunarháttur uppi nú, bæði um strangari löggjafarákvæði viðkomandi eftirliti búranna og um að gæta þess, að minkar sleppi ekki, heldur en þá var. Og ég er sannfærður um, að eftir því sem við stundum þessa ræktun lengur, eftir því kemst það meir og meir inn í blóðið hjá þeim, sem stunda þessa ræktun, að gæta þessa dýrs og hafa meiri þekkingu á því að gæta minkanna. Og ég geri ráð fyrir, að með frekari tilraunum komi fram hjá okkur betri tök á því að útrýma villiminkum en við höfum haft til þessa. Nú á undanförnum nokkuð mörgum árum hefur sú aðferð verið viðhöfð um útrýmingu villiminka, að það hefur verið heitið ákveðnum verðlaunum fyrir útrýmingu hvers dýrs. Og þau verðlaun hafa menn, með sönnunargögn í höndum, getað sótt til loðdýraræktarráðunautarins í Rvík. En ég held, að litið hafi kveðið að þessari útrýmingu og á árinu 1946 haft verið komizt hæst í þessu og drepnir um 100 minkar það ár. Síðasta vor langaði mig til að gera tilraun um það, hvort ekki væri hægt að koma meiri hreyfingu á veiði villiminka. Og það var ákveðið í landbrn. að skrifa til allra oddvita á þeim svæðum, þar sem vitað var, að villiminkurinn væri, og þeir voru beðnir að gangast fyrir því, að menn væru fengnir til að leita upp greni villiminka og eyða villiminkum. Heitið var 50 kr. verðlaunum fyrir hvern fullorðinn villimink. sem útrýmt væri og sönnunargögn afhent til oddvita um að hefði verið útrýmt, og 30 kr. fyrir hvern minkahvolp, þegar greni væru unnin. Nú hefur það sýnt sig, að þessi tilraun hefur verkað þannig, að nú í ár er búið að drepa 801 villimink, 554 fullorðna minka og 247 yrðlinga. Og þessi breyt. hefur orðið aðeins á þessu eina ári fyrir þessa tilraun, sem gerð var af hálfu ráðuneytisins. Ég hef því ástæðu til að ætla, að ef þessu væri haldið áfram, eins og hv. landbn. einnig stingur upp á, og fleiri leiðir fundnar og aðferðir, sem ég efast ekki um og reyndar veit, að til eru til útrýmingar villiminkum, þá kæmumst við fljótt á rekspöl með að halda minkunum í skefjum, hvort sem það lánaðist eða ekki að útrýma alveg þessum skemmdarvargi. Ég efast um, að það lánist alveg. Og þetta tel ég, að liggi fyrir, eins og kemur fram í brtt. hv. landbn., að þá herferð verði sem fyrst að hefja gegn villiminkaplágunni. Ef okkur tekst að útrýma villiminkunum, sem eru í landinu, þá getum við alltaf talað um það á eftir, hvort við eigum að stíga sporið fullt og drepa einnig niður það af minkum, sem er í búrum. En takist okkur ekki að útrýma villiminkunum á þann hátt, þá sé ég ekki, að við séum neitt betur settir, þó að við bönnum mönnum að ala upp minka í búrum og gefa sjálfum sér og þjóðfélaginu þann arð af þeirri atvinnugrein, sem af þessari ræktun má hafa. Því að ekki veitir okkur af því, ef við gætum aukið atvinnurekstur okkar, sérstaklega útflutning okkar. Ég geri ráð fyrir að t. d. Norðmenn, sem þekkja villiminkana, eins og hv. 1. þm. Árn. talaði um, séu nú svipaðrar skoðunar og ég og meiri hl. hv. landbn. virðist vera í þessu efni. Því að eftir því sem hann skýrði frá, leggja þeir mikla áherzlu á að veita verðlaun fyrir útrýmingu villiminka. En mér er kunnugt um, að þeir gera sérstakar ráðstafanir til þess að flytja inn í landið nýja og eftirsótta minkategund til skinnaframleiðslu í landinu, vegna þess að þeir trúa því, að það geti verið mikilsverð atvinnugrein fyrir Norðmenn að stunda þennan atvinnurekstur.

Ég verð því fyrir mitt leyti að segja, að ég er sammála hv. landbn. um, að það beri nú fyrst um sinn að leggja höfuðáherzlu á útrýmingu villiminka. Og ég er alveg sammála hv. 1. þm. Árn. um. að hann er skaðræðisdýr, sem þurfi helzt að útrýma, eða a. m. k. halda í skefjum. En ég tel, að við eigum fyrst um sinn að halda áfram með það að tryggja umbúnað búranna og eftirlitið með eldisminkunum. Og þegar við erum búnir að útrýma villiminkunum, ef það verður einhvern tíma, þá getum við athugað og ákveðið á eftir, hvort við eigum að halda áfram og útrýma líka eldisminkunum. Ég sé ekki ástæðu til að byrja á því að útrýma minkunum úr búrunum, án þess að vita, hvernig það muni ganga að útrýma þeim minkum, sem ganga lausum hala í landinu.