26.02.1948
Neðri deild: 64. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2477)

93. mál, útrýming villiminka

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég má til með að svara nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Borgf. Ég ætla samt ekki að fara ýtarlega út í hans löngu ræðu um þetta mál. En ég vil byrja á að minnast á atriði, sem hann talaði sérstaklega um, þ. e. hvað starf landbn. snertir. Hv. þm. ávítaði hana mjög fyrir það, hvernig hún hefði starfað í málinu, m. a. til hvaða aðila hún hafði leitað, og þó einkum vegna þess, að hún leitaði ekki til fleiri aðila. Nú höfum við í landbn. fengið allmiklar ávítur frá báðum flm. frv. fyrir að hafa legið lengi á málinu. Þó virðist mér hv. þm. Borgf. ávíta okkur fyrir að leita ekki umsagnar allra búnaðarsambanda landsins um þetta mál og að nokkuð lengi hafi verið beðið eftir afgreiðslu málsins. Þetta með öðru sýnir glöggt að flm. hafa allt illt á hornum sér í garð n. Hv. þm. Borgf. fann að því, að við skyldum hafa sent Loðdýraræktarfélagi Íslands þetta mál til meðferðar. Hv. þm. Borgf. er einkennilegur, ef hann vill að mál, sem mjög snertir starfssvið landbúnaðarins í landinu, um að útrýma búfjártegund, sé framkvæmt án þess að leita álits Búnaðarfélags Íslands um slíkt atriði. Ég er hissa á jafngreindum þm. eins og hv. þm. Borgf., að hann skuli fjargviðrast út af hlutum eins og þessum. Hv. þm. sagði, að þeir menn, sem leitað hefði verið álits til, væru allir búsettir í Rvík að undanskildum tveimur. Þetta sýnir m. a. þær rakaleysur, sem hann leyfir sér að halda fram í hlutum eins og þessum, þegar því er haldið fram og margtekið upp, að allir mennirnir að undanteknum þessum tveimur séu búsettir í Rvík. Þannig er landbn. ávítuð fyrir hluti eins og þessa, að hún hafi ekki leitað til annarra en Reykvíkinga í þessu máli. Þó hefur n. hagað sér þannig, að mikill meiri hl. þeirra manna, sem leitað er til, er einmitt búsettur hingað og þangað úti um land. Þetta er stórt atriði, sem ég viðurkenni, en það er sjálfsagt að svara því, þegar farið er að ásaka n. fyrir hluti eins og þessa, sem hægt er að reka sæmilega ofan í hv. þm. og ekki hefur við hin minnstu rök að styðjast.

Hv. þm. Borgf. talar á þann hátt, sem sá kafli frv., sem fjallar um útrýmingu minka, væri einskis virði. Hann segir, að landbrh. hafi getað framkvæmt allt, sem í þessu frv. er ætlazt til. Það kemur mér einkennilega fyrir. að svona skoðanir skuli koma fram á löggjafarsamkomu þjóðarinnar frá þm., sem búinn er að starfa þar í meira en 30 ár. Ég varð undrandi, þegar hv. þm. Borgf. talaði í þessum tón.

Það hygg ég, þótt flm. vilji gera lítið úr því, sem landbn. hefur lagfært frv., að þá séu allir sammála um það, sem athugað hafa, að frv. er öruggara nú og meiri líkur til þess, að hægt sé að verja flutning þess eins og því er skilað frá n. heldur en upphaflega. Það er í sjálfu sér að leggja til, að landbrn. annist um þetta verk í samráði við þann mann, sem þingið telur, að hafa eigi útrýmingarstarfið með höndum. Að vísu talaði hv. þm. Borgf. fagurlega um það í niðurlagi á sinni ræðu, að hann vildi gjarnan hafa samvinnu við landbn. um frv., en mér virðist, að hann kæri sig ekki um neina samvinnu á öðrum grundvelli en þeim, sem 1. gr. frv. segir til um, að banna minkaeldi. Það kemur í ljós hjá báðum flm., að þeir eru mjög hlynntir því að útrýma villiminkum. En landbn. lítur svo á þetta mál, að aðalatriði málsins sé ekki útrýming á skaðlausum minkum, heldur að eyðileggja þá minka, sem af sjálfu sér hafa sloppið af slælegu eftirliti út úr búrunum.

Kemur þá að því atriði í ræðu hv. þm. Borgf., þar sem ekkert verður úr þeim röksemdum, að það hafi komið í ljós, að þeir sem sloppið hafa, væru af fyrsta innflutta stofninum. Hv. þm. taldi, að það væri engin sönnun fyrir því, þó að búið væri að veiða nokkur hundruð villiminka og rannsaka þá og komið hefði í ljós, að þeir hafi verið af þessum stofni, og það væri erfitt að segja um það fyrir víst. Ég er nú alveg undrandi, að hv. þm. Borgf. skuli algerlega neita staðreyndum, en það er staðreynd, eins og málið stendur nú. Því betur sem hert er á eftirlitinu með minkum, því meiri von er á, að það geti tekizt að tryggja það, að þeir sleppi ekki úr haldi og þeir hafa ekki sloppið síðustu árin, eins og þessi staðreynd bendir til. Þetta er geysilega stórt atriði, og það var einmitt í sambandi við þetta, sem ég kallaði fram í fyrir honum, sem ég bið hann að afsaka, en ég hygg að hann hafi ekki að öllu leyti farið rétt með ummæli hæstv. atvmrh. um þetta mál. En það er víst, að þessi rannsókn, sem hér hefur farið fram, er auðveld í framkvæmd. Það er ekki meiri vandi fyrir mann, sem þekkir mink og einkenni hans að þekkja hann heldur en hv. þm. Borgf. að greina sundur hvíta rollu frá svartri. (PO: Það er þá ekki vandasamt.) En málið breytist allmjög, ef við færum að verða varir við villiminka, sem sloppið hefðu af þeim stofni, sem síðast var innfluttur. Þá þyrfti að taka málið til alvarlegrar athugunar.

Vitanlega er það ekki mikið, þótt borgaðar yrðu skaðabætur til þeirra einstaklinga, sem nú eiga eða reka þennan atvinnuveg. Á það hefur verið bent. En að mínum dómi er það ekki rétt að leyfa einhvern atvinnuveg og stuðla á ýmsan hátt að því að efla hann og svo banna hann með öllu. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði um nágrannaþjóðir okkar, sem minkana rækta og að Ísland er tilvalið land til loðdýraræktar og ég er sannfærður um, að það eru miklir möguleikar í framtíðinni í okkar landi fyrir slíka ræktun, vegna þess að okkar aðstaða er sérstaklega góð til þess að fóðra dýrin. Í Noregi er ekki ætlunin að útrýma minkum, heldur eru þar gerðar ráðstafanir til þess að auka minkaræktina og gera hana arðsama atvinnugrein í landinu. Og er ekki hægt að ganga þannig frá þessum málum að hafa þessi dýr í haldi á öruggan hátt, svo að þau sleppi ekki út — eða erum við það aumari en Norðurlandabúar, að slíkt sé ofraun fyrir okkur? Það er ástæðulaust, þótt misgrip hafi átt sér stað, að gera ráð fyrir, að ekki sé hægt að bæta um í þessum efnum svo að öruggt sé. Ég er sammála hv. þm. Borgf. um, að það er fyrst og fremst Alþ. og þeim mönnum, sem hafa látið þetta koma fyrir hjá sér, að kenna, sem er sennilegt að stafi af vankunnáttu. Þessi mistök eru svo gömul, að það er áður en þær ráðstafanir komu til greina. sem lögfestar voru síðar. Þess vegna eru allar ásakanir í garð loðdýraræktarráðunautar og þeirra, sem með þau mál fara nú, óréttlát. En ef minkur sleppur úr haldi nú, þá er hægt að ásaka þau völd, sem fara með þessi mál nú. Hv. þm. Borgf. færði þessi misgrip mjög fram sem rök fyrir því, hve nauðsynlegt væri að banna minkaeldi strax.

Það er þetta, sem skilur á milli mín eða landbn. og hv. flm. Það er þetta, að landbn. telur það ekki aðalatriði að drepa niður alla minka, sem nú eru í búrum, heldur hitt atriðið. Þegar ég bauð hv. flm. upp á samstarf í minni fyrri ræðu, þá var það um að útrýma villiminkunum. Við erum reiðubúnir til samstarfs um það við flm., og við getum jafnvel fallizt á að hækka verðlaunin fyrir hvert unnið dýr, þótt við höfum álitið verðlaunin nægilega há til að gera mönnum fýsilegt að veiða villiminka.

Að lokum vildi ég segja þetta: Þegar hv. þm. ræða þessi mál, eiga þeir ekki að fara út í aðrar eins öfgar og vitleysu og gert hefur verið. Það er t. d. hrein og bein fjarstæða, að minkurinn eyðileggi veiði í ám og vötnum. Þvert á móti má leiða rök að því, að hann verndi fiskistofninn. Ég sé að hv. 1. þm. Árn. kímir. og skal ég því tilfæra þau rök, sem ég sagði, að væru þessu til sönnunar. Það er vitað, að sumar andategundir taka sílin og hrognin, þegar t. d. er búið að klekja út, og gera þannig mikinn skaða, en þessum öndum eyðir minkurinn. Það er því ekki hægt að segja, að minkurinn drepi alla fugla og segja svo, að hann eyðileggi fiskistofninn í ám og vötnum. Þótt minkurinn grípi einn og einn silung eða lax, þá er það ekki stórkostlegt, og það er vitað, að hann ræður alls ekki við stóra laxa eða silunga. Það eru aðeins miðlungsfiskar, sem hann ræður við. (PO: En sílin og hrognin?). Þau leggur hann sér alls ekki til munns, eins og endurnar. Allt tal um að minkurinn eyði fiskistofninum í ám og vötnum, er því út í loftið. Enda væri það þá einkennilegt, að ekki minnkaði veiðin í Elliðaánum, þar sem minkurinn á að hafa aðalheimkynni sín. En veiðin þar hefur einmitt vaxið síðustu árin. Það er auðvitað að villiminkurinn veldur einhverju tjóni, en við eigum ekki að mikla þetta svona fyrir okkur, eins og t. d. þegar hv. 1. þm. Árn. sagði, að hann ferðaðist um 100 mílur á sólarhring, þegar vitað er, að meðalmaður getur hlaupið mink uppi á bersvæði.

Ég veit það og vil geta þess að lokum, að allir fulltrúar í landbn. eru ekki sammála um allt, er snertir minkaeldi, og þegar ég tala hér um, að ég hafi trú á loðdýrarækt í fleiri en einni grein, þá tala ég fyrir mig sjálfan, en ekki alla n. En við höfum ekki efni á að varpa frá okkur möguleikum á sviði landbúnaðarins eða jöðrum landbúnaðar, eins og segja má að minkarækt sé. Það er því fljótfærni, þegar búið er á annað borð að leyfa innflutning þessara dýra, að ætla að drepa niður þann vandaða og vel ræktaða stofn, sem við höfum eignazt og vænta má arðs af í framtíðinni. Læt ég svo máli mínu lokið.