02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

93. mál, útrýming villiminka

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það hafa nú orðið hér allmiklar umr. um mál þetta og kennir þar margra grasa. Mér virðist, að þær hafi farið alllangt út fyrir efnið, eða það sem upphaflega var um að ræða.

Mér heyrðist á ræðu hv. 1. þm. Árn., að hann byggist við því, að hér í d. væru margir þm., sem ekki viðurkenndu, að minkurinn væri skaðlegt dýr. Hann eyddi löngum tíma til þess að lesa úr skýrslum skaða þann, sem bændur höfðu orðið fyrir af völdum minksins á alifuglum og fiski í ám og vötnum og viðbúið vært, að þessar landnytjar yrðu upprættar með öllu, ef ekki væri skjótlega gripið í taumana og eldi þessara dýra bannað með öllu. Ég hygg að hv. 1. þm. Árn. geti verið alveg rólegur út af því, að við þm. hér í d. erum honum sjálfsagt allir sammála um það, að minkurinn sé skaðsemdarskepna, ef hann nær að sleppa úr vörzlu. Deilan í þessu máli ætti því aðallega að standa um það, hvort banna eigi eldi minka eða ekki, en ekki um það, hvort þeir séu skaðræðisdýr. Um það erum við allir sammála, svo að það er óþarfi að halda langa ræðu um það. Hitt er annað mál, hvort við erum allir sammála um að banna eldi minka hér á landi.

Ég hygg að það sé fyrir handvömm eina saman, að minkar sleppi út úr búrum. Það átti sér líka stað aðallega fyrstu árin eftir að ræktun þeirra var hafin hér á landi, og hefur stafað af vanþekkingu og reynsluleysi þeirra manna, sem með búrin höfðu að gera. Það hefur og komið í ljós, að þeir villiminkar, sem veiddir hafa verið, eru af þeim stofni, sem fyrst var fluttur hingað til lands, en ekki af þeim stofnum, sem síðar hafa verið fluttir inn. — Ég verð að segja það, að ég er hissa á að hv. 1. þm. Árn., sá ágæti bóndi, skuli ekki gera þá kröfu til bændastéttarinnar, að bændur séu þess umkomnir að gæta minkanna það vel, að þeir sleppi ekki úr haldi. Eigum við að vera eftirbátar nágrannaþjóða okkar hvað þennan atvinnuveg snertir? Hefur nokkur heyrt, að nokkur þm. í Stórþinginu norska hafi leyft sér að koma með till. um að banna minkaeldi, þó að það kæmi fyrir í Noregi, fyrstu árin eftir að minkarækt hófst þar, að þeir slyppu út og gerðu nokkurt tjón? Nei, fjarri fór því. Þeir lærðu af reynslunni og tryggðu búrin það vel, að nú eru minkarnir alveg hættir að sleppa hjá þeim. Ég hygg, að við gætum lært mikið af þessari reynslu frænda okkar.

Það er álit mitt, að við eigum að stuðla að loðdýrarækt í stað þess að skerða hana, því að skilyrði til hennar hér eru á margan hátt betri en víða annars staðar, þar sem góður árangur hefur náðst af henni. Loftslag er þannig, að skinnin verða fallegri, og fóðurskilyrði þarf og ekki að fjölyrða um, því að það er viðurkennt. að þau séu hin ákjósanlegustu. Þótt ekki blási byrlega um skinnasölu nú í bili, þá er hér um atvinnuveg að ræða, sem á rétt á sér og ekki ólíklegt, að við með tímanum gætum flutt út skinn fyrir milljónir króna, og ég hygg, að allir geti verið mér sammála um, að þörf fyrir gjaldeyri er alltaf brýn.

Mér virðist því, að frv. þetta sé flutt algerlega að ófyrirsynju, og flm. hefðu heldur átt að flytja frv. um útrýmingu villiminka, en hvað segja þeir í frv. um það atriði? Í 3. gr. þess segir svo: „Ráðh. setur reglugerð um framkvæmd laga þessara, svo sem um eftirlit með eyðingu aliminka skv. 1. gr. og um það, hverra sannana beri að krefjast fyrir drápi villiminka, án þess að verðlaun megi veita. Í reglugerð skulu sett ákvæði um viðurlög fyrir brot gegn 1. gr., þar á meðal um upptöku dýrastofns og búra, og skulu mál út af brotum sæta meðferð opinberra mála.“

Hv. 1. þm. Árn. sagði, að landbn. hefði lagt til, að ekkert væri aðhafzt í þessum málum. Landbn. leggur áherzlu á, að útrýmt verði villiminkum, og kveður þar fastara á um en hv. flm. frv. N. leggur í fyrsta lagi til, að hreppsn. skuli skylt, hverri í sínu umdæmi, að sjá um útrýmingu villiminka og hlutast til um, að gerðar séu árlega skýrslur um útbreiðslu þeirra og helztu dvalarstaði. Í öðru lagi, að veitt verði verðlaun úr ríkissjóði fyrir dráp villiminka, allt að 60 kr. fyrir hvert dýr, sem unnið er. Í þriðja lagi, að landbrh. leiti álits loðdýraræktarráðunauts um samningu reglugerðar um framkvæmd l., svo sem um, á hvern hátt villiminkum skuli útrýmt og hverra sannana beri að krefjast fyrir drápi þeirra. Það, sem því hv. landbn. leggur til á þskj. 374 um útrýmingu villiminka, er miklu víðtækara en hv. flm. leggja til í 3. gr. frv. Mér virðist því, að hv. 1. þm. Árn. ætti að vera hv. landbn. þakklátur fyrir till. hennar í þessu.

Eins og ég hef áður sagt, finnst mér það algerlega óþarfi að halda langa ræðu um skaðsemi villiminka gagnvart alifuglum og fiskum í ám og vötnum. Við erum allir sammála þar, og sömuleiðis um það, að eyða beri villiminkum, og við ættum einnig að vera sammála um að gera þá kröfu til minkaeigenda, að þeir útbúi búr sín það vel, að ekki sé hætta á, að minkarnir sleppi út.

Ég hygg, að við getum allir verið sammála um það, að atvinnuvegir okkar eru ekki of margþættir, þó við förum nú ekki að leggja loðdýrarækt alveg á hilluna. Ég vænti því þess, að hv. 1. þm. Árn., Jörundur Brynjólfsson. bóndi í Skálholti, geri þá kröfu til stéttarbræðra sinna, að þeir séu ekki eftirbátar stéttarbræðra sinna í öðrum löndum í þessu efni.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en lýsi yfir því, að ég er samþykkur till. n. á þskj. 374, því að ég tek, að hægt sé að búa þannig um búrin, að engin hætta sé á því, að dýrin sleppt út og verði þannig að villiminkum, sem valda miklum skaða.