09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

93. mál, útrýming villiminka

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég vil leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann sjái sér fært að ljúka ekki þessari umr. strax, svo að landbn. geti fengið tækifæri til þess að athuga brtt. Að vísu sýnist mér nú, að ómögulegt sé að samþykkja brtt. eins og hún er. En ég ætla ekki að fara frekar nú út í einstök atriði hennar og ætla ekki að ræða málið hér frekar. En hv. 1. þm. Árn. (JörB) talaði hér með svo miklum myndugleika, eins og hann sæti einn með alla vizku, og var með aðdróttanir í garð landbn. vegna hennar aðgerða í málinu, sem ég tel alveg ómaklegt. Landbn. hefur tekið þá afstöðu til málsins, sem hún telur rétta, og hv. 1. þm. Árn. situr ekki með neina þekkingu á þessu máli fram yfir þá, sem eiga sæti í landbn., því að hann virðist vera fráhverfur því að taka skynsamlegum bendingum um þetta mál. Það er t. d. vitað, að þessir villiminkar eru afkomendur fyrstu minkanna, sem fluttir voru til landsins. Og það er meginröksemd í þessu máli, sem ekki er ástæða til að loka augunum fyrir, þó að hv. flm. geri það, að það hefur enginn villiminkur fundizt, sem skoðaður hefur verið af mönnum, sem vit hafa á þeim málum, sem getur verið kominn út af minkum, sem fluttir hafa verið inn síðar. Útrýmingin á villiminkunum virðist vera algert aukaatriði fyrir hv. flm., og þeir gera yfirleitt lítið úr till. landbn., sem hefur þó stórbætt það atriðið. sem ætti að vera aðalatriði þessa máls.

Hv. 1. þm. Árn. gerir grín að því, að verið sé að leggja það á hreppsn. að hafa eftirlit með þessu. En þó vill hv. flm. leita álits þeirra sömu aðila, sveitarstjórna, um það hvort banna skuli minkaeldi eða ekki.

Hv. 1. þm. Árn. talar með miklum rembingi um þetta mál á nýjan leik um leið og hann flytur brtt., sem hann óskar að landbn. ræði um. En tónninn í ræðu hv. flm. var ekki þannig, að hann óskaði eftir að landbn. athugaði brtt. í samráði við flm.

Þó að þau sorglegu slys hafi átt sér stað í nágrenni Rvíkur og í Árnessýslu, að minkar hafi sloppið út úr búri fyrir mörgum árum, þá er ekki hægt að byrja á því að banna þeim mönnum að rækta þessi dýr, sem hafa heimild til þess samkvæmt lögum frá Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til þess nú að fara fleiri orðum um þetta, og mun ég ekki skipta mér frekar af þessum umr., en mér fannst ræða hv. 1. þm. Árn. óheppileg, ef hann hefur hugsað sér að ná góðum árangri með þessari brtt. sinni, ef hún á ekki að vera bara til þess að flagga með hana einhvers staðar.