09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

93. mál, útrýming villiminka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég get nú ekki að því gert, að mér finnst hv. frsm. landbn. hafi verið óþarflega hörundssár út af því, sem ég sagði í garð landbn. Og ég ætla að það hafi ekki komið beint fram í ræðu minni, að enginn hefði þekkingu á þessum málum nema ég. Ég held, að það hafi ekki fallið eitt einasta orð frá minni hálfu, sem bent geti til þess. Hins vegar tel ég mig ekki upp úr því vaxinn að taka tillit til þeirrar fræðslu, sem hægt er að fá frá öðrum, en það virðist svo sem hv. landbnm. leggi ekki mikið upp úr því eða taki nokkurt tillit til þess, sem fróðir menn segja um þessi mál, sem hafa lagt sig eftir því að kynnast þeim og hafa mikla þekkingu á þeim hlutum. Það er ekki sagt alveg út í loftið, að fyrir fram leggur maður ekki mikið upp úr því, þótt einhver maður úr þeirra hópi, sem er með minkaeldi og trúir ekki, að villiminkurinn geri svo mikið tjón, verði fenginn eða ráðinn til þess að stjórna útrýmingu hans.

Hv. frsm. n. hefur fundið það að frv., að þar væri ekki nógu vel tekið fram, hvernig framkvæma ætti útrýmingu villiminkanna sjálfra. Það má vera, að svo sé. En það var tekið fram af okkur flm., að ef tiltaka ætti nánar um einstök atriði, þá værum við til viðtals um það.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að sett skuli reglugerð um þessar ráðstafanir, sem gera þarf til útrýmingar villiminknum, og það er ætlazt til þess einmitt eftir frv., að sett verði reglugerð um þau atriði, eftir því sem nauðsynlegt þykir, til þess að útrýmingin verði framkvæmd. Og ég ætla, að það hefði verið hægt að koma í reglugerð eins kraftmiklum ákvæðum og þarna eru í frv. Og því fremur værum við hv. þm. Borgf. og ég tilbúnir til að gera slíka ráðstöfun, ef alveg væri öruggt um, að það endurtæki sig ekki, að dýr af þessum stofni, sem í haldi eru, sleppi svo að það verði ekki vinna fyrir gýg að vinna að útrýmingu villiminka. Það er það atriði, sem við höfum hamrað á, að hættan sé svo mikil, ef nokkurt dýr er haft í haldi, að þau sleppi að það mundi draga mjög úr áhuga manna um að útrýma villiminkum, þannig að menn mundu draga sig í hlé í þessu efni. Þessa hættu óttumst við flm. frv., og það er ekki nema eðlilegt, að við séum einmitt hræddir við það, og getum við þar skírskot að til reynslunnar. Þar er reynslan hjá okkur, en ekki hjá hv. landbn. Því að þótt það komi nú fram, að það af þeim dýrum, sem drepin hafa verið af villiminkum og rannsökuð hafa verið, séu af fyrri tegundinni, sem inn var flutt, og þó að fullyrt sé, að þessi dýr hafi aðeins sloppið fyrst eftir að farið var að rækta þau hér, en það hafi ekki komið fyrir í seinni tíð, sem ég fullyrði ekkert um, þá er það ekki sönnun fyrir því, að það geti ekki komið fyrir enn, að þessi dýr sleppi úr haldi. En það má bara ekki koma fyrir, að þessi dýr sleppi úr haldi. Og það mun ekki vera rétt, að þessi dýr hafi ekki sloppið nema hér í nágrenni Rvíkur og í Árnessýslu. Það er minkabú á Snæfellsnesi, og ætla má, að villiminkur, sem þar er sé úr því búi. Mér er sagt, að það hafi sloppið dýr þar. Bendir allt til þess, að þó nokkur villt dýr, sem þar eru af þessum stofni, séu úr búinu, sem þar er, þó að þetta dýr sé fljótt að breiðast út. Ég veit til þess, að sloppið hefur út af þessum dýrum í Þingeyjarsýslu. Menn halda, að það hafi ekki komið að sök og villtir minkar séu ekki til þar. Ég veit líka til þess, að minkar hafa sloppið út í Skagafirði, þó að þeim hafi verið náð aftur, eftir því sem ég bezt veit.

Það hafa af rúmum 800 af þessum dýrum, sem veiðzt hafa, verið rannsökuð rúm 500, og þau hafa reynzt að vera af fyrra afbrigðinu, sem flutt var inn. Við vitum ekkert um hin, sem veiddust, af hvoru afbrigðinu þau voru. Þetta er því ekki fullgild sönnun fyrir því, að þeir minkar, sem sloppið hafa úr haldi, séu allir af fyrra afbrigðinu.

Og við viljum ekki vitna eingöngu til þess, sem í þessum efnum hefur gerzt hér hjá okkur. heldur vil ég einnig vitna til nágrannalandanna. Í Svíþjóð hefur villiminkurinn orðið hrein landplága. Í Noregi hafa menn líka misst þessi dýr úr haldi, og villiminkurinn er orðinn plága þar. Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, greiða Norðmenn á annað hundrað króna fyrir hvern villimink, sem drepinn er. Svo að eitthvað álíta þeir liggja við, ef hann gengur frjáls og honum verður ekki útrýmt.

Það skyldi ekki standa á mér — og ég býst við að svo sé einnig ástatt um meðflm. minn — um að setja ýtarleg ákvæði um útrýmingu villiminka. ef maður á ekki á hættu, að það endurtaki sig, að þessi dýr sleppi úr haldi. En sé sú hætta fyrir hendi, þá kann ég ekki við að leggja þungar kvaðir á þá menn eingöngu, sem verða fyrir tjóni af þessari plágu. — að þeir skuli berjast við villiminkinn áfram, en láta hina, sem ekki verða fyrir tjóni af völdum villiminka, fá að hafa þá frjálst og óhindrað, og það án þess að borga neitt til útrýmingar villiminkanna.

Ég hef ekkert á móti því, að málið verði tekið af dagskrá nú, ef við á einhvern hátt gætum átt samleið, flm. frv. og hv. landbn. Og þá skyldi það mjög gleðja mig, því að þetta mál er af okkar hálfu flutt af alvöru og nauðsyn.