16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

93. mál, útrýming villiminka

Pétur Ottesen:

Það var aðallega um atkvgr., sem ég ætlaði að tala. Ég þarf ekki miklu að bæta við það, sem hv. þm. Árn. hefur sagt. Ég ætla heldur ekki að ræða við hv. 1. þm. Skagf. um þröngsýnt, ég held að klögumálin gangi á víxl. Það er víst það eina, sem við getum sætzt á. Ástæðuna til þess, að við höfum orðað brtt. svo, hefur hv. þm. Árn. skýrt, að þeir sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum dýrum, geta hér bezt um dæmt. Hér er um svo stórt svæði að ræða, að það sæmir Alþ. að taka álit þess til greina, auk þess sem allt minkaeldi er innan þeirra takmarka, sem við höfum sett.

Ég vil aðeins minnast í það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að það væri fordæmalaust, að löggjöf væri sett á þennan hátt. Við þekkjum ekki svo fá dæmi þess, að lög séu sett, sem taka til liðins tíma, t. d. ýmsar skattaálögur. Hér er bara um það að ræða, að lögin verkuðu nokkuð fyrr en fordæmið er fyrir hendi.

Í sambandi við atkvgr. vil ég fara fram á það við forseta, hvort ekki sé hægt að fá samkomulag við landbn. um það, að brtt. sé borin upp sem brtt. við 1. málsl. brtt. okkar. en svo verði sérstök atkvgr. um síðari málsl. Ég vildi mælast til þessa við forseta, því að þá kæmi fram réttari afstaða en ef atkvgr. er látin ná til málsins alls. Ég vildi taka þetta fram, ef hægt væri að hafa þennan hátt á.