02.12.1947
Neðri deild: 25. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti Það eru aðeins örfá orð af minni hálfu á þessu stigi málsins. Þó að hv. 1. flm. þessa frv., hv. 2. þm. Reykv., hafi nú talað um tvær klst. til stuðnings því frv., sem hann ásamt tveim öðrum flokksbræðrum sínum flytur hér, virðist mér samt ekki ástæða til þess að fara að rekja atriði þess hér með mörgum orðum. — Hv. 2. þm. Reykv. sagðist vera undrandi yfir því, að ríkisstj. hefði ekki nú fyrir nokkru lagt fram a. m. k. málamyndafrv. um lausn dýrtíðarmálanna. Það hefði verið ákaflega auðvelt fyrir ríkisstj. að leggja fram málamyndafrv. um lausn þessara miklu vandamála. Þann kost valdi ríkisstj. ekki. Hins vegar hafa hv. flm. þessa frv. einmitt valið þennan kost, að leggja fram málamyndafrv. til lausnar þessum vandamálum. Það má segja það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé einkennileg naglasúpa og í því felist engar þær ráðstafanir, sem gætu orðið til þess að stöðva og hindra verðbólguna á Íslandi, heldur frekar til þess — eins og orðað hefur verið í einu blaði hér í höfuðstaðnum — að lögbinda áframhald hennar. Og margar till. í frv., sem ég fer ekki mjög langt inn á, eru líka einkennilegar, eins og t. d. í VII. kafla frv., þar sem lagt er til, að það séu felld niður aðflutningsgjöld af tilteknum vörutegundum. Og með því á að halda áfram að vinna gegn dýrtíðinni og gera hagfelldar ráðstafanir fyrir ríkisstj. til þess að gera það. Eftir athugun á því, hvað þessi tollalækkun eða tollaafnám mundi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð mikinn tekjumissi, miðað við það, þó að ekki yrði mjög mikill innflutningur, heldur takmarkaður innflutningur, eins og við verðum að gera ráð fyrir á næstu árum, má gera ráð fyrir, að tekjumissir vegna þessa mundi á einu ári nema um 25 millj. kr. Hins vegar eru litlar líkur til þess, að þetta tollaafnám orkaði á þann veg á vísitöluna, að hún lækkaði um meira en 15 til 17 stig. Niðurborgunin, sem þetta átti að gera á vísitölunni eftir röksemdaleiðslu hv. 2. þm. Reykv., yrði því sízt af öllu, eins og hann vildi vera láta, hagkvæm fyrir ríkissjóð. 15 til 17 stiga niðurfærsla á henni mundi þá kosta ríkissjóð um 25 millj. kr. Auk þess kæmi fram, sem ég veit ekki, hversu hollt væri fyrir þjóðarbúskapinn, í sambandi við innflutning útlendra vara, að enn þá breikkaði bilið milli verðlags á innfluttum vörum og verðsins á framleiðsluvörum Íslendinga. Ég veit ekki, hvort það hefði nokkuð holl áhrif á þjóðarbúskapinn yfirleitt. Ég nefni þetta dæmi sem eitt af mörgum dæmum, sem nefna mætti um það, hve ákvæði þessa frv. eru lítið athuguð og lítið undirbyggð. Og það er áreiðanlega rétt — eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði að það er mjög auðvelt að leggja fram frv. til að sýnast, þó að talað sé um ráðstafanir til leiðréttingar á þessu mikla vandamáli.

Út af ráðstöfunum til þess að hindra, að verðbólgan og dýrtíðin í landinu leiði til framleiðslustöðvunar og atvinnuleysis í landinu, hefur ríkisstj. talið skyldu sína gagnvart þjóðinni og Alþ. að láta fara fram sem ýtarlegastar og nákvæmastar athuganir á atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar og álykta síðan út frá því, hverjar ráðstafanir á að gera til þess að gera allt í senn, að tryggja áframhaldandi atvinnurekstur og framleiðslu á sem allra mestu magni af framleiðsluvörum og tryggja sölu þeirra á erlendum mörkuðum, samtímis því að þær ráðstafanir hefðu í för með sér svo góð kjör og örugga atvinnu sem unnt er að skapa fyrir allan almenning í landinu. Rannsóknir og athuganir þessar, sem framkvæmdar hafa verið mjög ýtarlega, hafa tekið langan tíma. Síðan þarf ríkisstj. sem skipuð er af þremur þingflokkum með ólíkum skoðunum, að samhæfa sjónarmiðin. Og allt þetta tekur að sjálfsögðu sinn tíma. Þess vegna hefur orðið alllangur dráttur á því, að ríkisstj. legði fyrir Alþ. till. sínar til úrlausnar þessa vandasama og margbrotna máls. En nú er sá tími að nálgast.