03.12.1947
Neðri deild: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla að þessu sinni ekki að ræða þetta frv. í heild, en það eru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. S-M., sem ég hef tilefni til að segja nokkur orð um. Það er viðvíkjandi nokkrum útreikningum, sem ég hef annazt ásamt fleirum. Þótt þeir útreikningar hafi verið í höndum þeirra manna einna, sem fengu þá sem trúnaðarmál, þá víkur hv. þm. nokkuð að þeim og á þann veg, að ég sé mér ekki annað fært en að leiðrétta það.

Forsrh. gat þess í gær, að ef ákvæðin í frv. um að fella niður tolla á nauðsynjavörum kæmu til framkvæmda, þá mundu tolltekjur ríkissjóðs minnka um 25 millj. kr., en ekki lækka vísitöluna nema um 15–17 stig. Þessi ummæli forsrh. kallar hv. þm. úr lausu lofti gripin, en þau eru rétt. Þessu til sönnunar segir hv. þm., að nokkrir hagfræðingar, og ég mun vera einn af þeim, hafi reiknað út, að áhrif allra tolla á vísitöluna væru 21 stig. Ef allir tollar, sem áhrif hafa á vísitöluna, eru felldir niður og verzlunarálagning líka lækkuð sem þessu svarar, þannig að hún lækki í því hlutfalli, þá mundi vísitalan lækka um 21 stig. Þessi útreikningur er nákvæmur og réttur. En í 7. kafla frv. er ekki gert ráð fyrir að fella niður alla tolla á hinum ýmsu vörutegundum, þótt ef til vill hafi það verið ætlun þeirra, sem sömdu frv. Það er ekki talað um að fella niður tolla af búsáhöldum og ýmsum flokkum vefnaðarvöru í frv. og áhrifin af þessu því ekki eins mikil og ef allir tollar yrðu felldir niður. Auk þess er hér ekki gert ráð fyrir neinni lækkun verzlunarálagningar, en slík lækkun mundi nema um 5 stigum. Þetta hvort tveggja, að tollar eru ekki felldir niður á öllum vörum, sem hafa áhrif á vísítöluna, og hins vegar ekki trygging fyrir því, að álagning lækki vegna þessarar niðurfellingar tolla, veldur, að ekki kemur fram öll sú vísitölulækkun, sem kæmi fram, ef tollar væru felldir niður af öllum vörum. Hitt er rétt hjá hæstv. forsrh., að framkvæmd þessara ákvæða mundi ekki þýða meira en 15–17 stiga lækkun. Sökum þess, hvernig vísitalan er reiknuð, mundu þessi ákvæði að ýmsu leyti verka skringilega og hafa í för með sér mikla verðlækkun á vissum vörum, sem eru skyldar öðrum vörum, sem ekki lækka. Í vísitöluútreikningum eru teknar tilteknar „representativar“ vörur, þ. e. vörur, sem taldar eru sýna verðbreytingar heilla vöruflokka. Í frv. eru tollar felldir niður á slíkum vörum, en ekki hinum, sem þær eiga að „representera.“ Þetta veldur ósamræmi í verðlagi á skyldum vörum, auk þess sem þetta nálgast fölsun á vísitölunni. Með slíkum ákvæðum er gengið verulega á hlut launþega, sem þiggja laun samkvæmt vísitölu. Vísitalan er ekki annað en meðaltal, miðað við slíkar „representatívar“ vörur. Það hefur nokkuð verið gert að því að líta sérstökum augum á þessar vörur og leggja áherzlu á að halda þeim í lágu verði. Og það hefur einnig verið talin ástæða að lækka þær útlendu vörur, sem reiknað er með í vísitölunni, en aðrar vörur ekki taldar skipta eins miklu máli. Ef haldið er áfram á slíkri braut, getur það leitt til beinnar fölsunar á vísitölunni.

Það er allt annað mál, að Alþfl. er og hefur verið andvígur því að leggja tolla á nauðsynjavörur. Það var upphaflega stefnumál Alþfl., að ekki yrðu lagðir tollar á nauðsynjavörur. Hins vegar hefur hann, eins og aðrir flokkar, orðið að sætta sig við að ríkisstj. aflaði sér tekna með því að innheimta tolla af nauðsynjavörum. Fjárhagur ríkissjóðs ræður því og samningar milli flokka á hverjum tíma, hve mikið af tekjum ríkisins er innheimt með tollum.

Sá kafli frv., sem ræðir um niðurfellingu tolla, á ekki stoð í „prinsipialli“ andstöðu gegn tollum, heldur er þessi tollalækkun gerð til þess að lækka vísitöluna. Ef hér væri um „prinsip“ að ræða, þá ætti að lækka tolla af öllum nauðsynjavörum. Það er augljóst mál, að hér vakir ekki fyrir flm. að afnema tolla, heldur að lækka vísitöluna. Ef litið er á þessa ráðstöfun frá því sjónarmiði, þá er rétt að athuga, hve mikið tolltekjur ríkissjóðs mundu minnka, og hins vegar, hve vísitalan mundi lækka mikið vegna þessara tollalækkana. Það hefur verið athugað nákvæmlega, hve miklu tolltekjur af þessum vöruflokkum hafa numið fyrstu 9 mánuði ársins. Það er milli 18 og 19 millj. kr. Þetta eru alveg óvefengjanlegar tölur, sem eru opinberlega staðfestar. Það er augljóst mál. miðað við sama innflutning 3 síðustu mánuði ársins, að þá mundu tolltekjur minnka um 24–25 millj. kr.

Ég held, að þessi leið sé ekki heppileg til niðurgreiðslu á vísitölunni. Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, að hvert stig, sem vísitalan lækkar, sparar ríkissjóði um 650 þús. kr. svo að heildarsparnaður hjá ríkissjóði við lækkun vísitölunnar mundi verða 12–14 millj. kr. Tekjumissir vegna þessarar aðferðar mundi þá verða 10–11 millj. kr. Allir alþýðuflokksmenn o. fl. eru vafalaust sammála um, að ef til þess væri nokkur leið vegna fjárhags ríkissjóðs, þá væri æskilegt að lækka tollana. En eins og fjárhag ríkisins er nú háttað, þá er það hæpið, þó að eitthvað mætti líklega gera í þá átt. Það er algerlega rangt, sem hv. þm. sagði, að afnám tolla mundi kosta ríkissjóð litið. Það mundi kosta um 10–11 millj. kr. Hitt er annað, hvort hægt væri að afla ríkissjóði tekna á annan hátt, en um það er ekkert í þessu frv. Sósfl. Ég tel, að ef bent væri á nýjar tekjuöflunarleiðir um 10–12 millj. kr., þá gæti þessi kafli talizt forsvaranlegur. En á meðan á slíkt er ekki bent, þá verður ekki sagt annað — og það með vægum orðum — en að þessi kafli og ákvæði hans séu borin fram af nokkurri léttúð og án mikillar fyrirhyggju og án þess að gá að því, hvaða þýðingu þessi ákvæði hefðu, er þau kæmu til framkvæmda.

Um frv. að öðru leyti skal ég ekki ræða á þessu stigi málsins. Ég tel fjarri því, að frv. í heild sé lausn á þeim viðfangsefnum, sem hér er um að ræða. Og því fer fjarri, að í því felist nægilega skynsamleg ráðstöfun gegn dýrtíðinni og vandamálunum í heild. Það eru að vísu einstök atriði í frv., sem eru athyglisverð, svo sem um ráðstafanir í verzlunarmálum, þau eru ekki ný og ekki mál, sem Sósfl. hefur átt frumkvæðið að. Þau hafa áður verið borin fram, ekki af Sósfl., heldur í frv., sem ég flutti í fyrra. Þar var m. a. bent á þá leið til nýskipunar á verzlunarmálunum, að samtök framleiðenda og smákaupmanna tækju verzlunina í sínar hendur. Enn fremur er ríkisábyrgð ekki nýtt atriði, því að það var samþ. í fyrra hér á þingi.

Sé frv. skoðað í heild, verður ekki annað sagt en að útilokað sé, að framkvæmd þess komi að því gagni, sem nauðsynlegt er til þess að koma sjávarútveginum af stað og til þess að skipta réttlátlega þeim byrðum, sem þjóðin væntanlega því miður verður öll að taka á sínar herðar, milli einstakra stétta þjóðfélagsins. Ég mun þó ekki ræða málið almennt að þessu sinni.