03.12.1947
Neðri deild: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af þessari ræðu hjá hv. 4. þm. Reykv., sem mér fannst alleinkennileg ræða. Fyrst vék hv. 4. þm. Reykv. að því, að ég hefði gert hér að umtalsefni upplýsingar, sem hann ásamt öðrum hagfræðingum hefði afhent sem trúnaðarmál, og virtist mér hann vildi láta þess getið, að ég færi með trúnaðarmál á þing. En sjálfur upplýsir þessi þm. það, að hann hafi hlustað á það í ræðu hjá hæstv. forsrh. í gær, er hann gaf upplýsingar um það, hvernig þessir útreikningar hafi verið gerðir, og skýrði rangt frá. Og þegar forsrh. hefur gert þetta að umræðuefni og skýrt rangt frá, þá taldi ég mér ekki óleyfilegt að leiðrétta það. Ég hef ekki farið með trúnaðarmál í umræður, sem ekki megi ræða. En svo einkennilega vill til, að þegar hann fer að gefa skýringu á því. hvernig megi túlka þessa yfirlýsingu forsrh. til samræmis við þá útreikninga. sem hann sjálfur hafði unnið að, þá stendur þar, að vísitalan skuli með þessum aðgerðum lækka um 21 stig, en ekki 15–17 stig. Skýring þm. er á þá lund. að í frv. séu ekki felldir niður alveg allir tollar á þeim vörum, sem komu inn í vísitöluna. En þó að sleppt verði einstaka vöru, þá skiptir það ekki máli, þar sem þarna er um sáralitlar upphæðir að ræða, sem ekki hreyfa útreikninginn um eitt stig. Sá liður, sem mestu máli skiptir og getið er um í grg. frv., er um tolla á búsáhöldum, og samkvæmt þeim gögnum, sem liggja fyrir, nemur sú upphæð 80–90 kr. inn í vísitöluna. Sjá allir menn, að sú upphæð verkar ekki á neinn hátt til áhrifa á vísitöluna. Er ekki á þann hátt hægt að skýra það, sem hæstv. forsrh. segir um þá tolla, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur reiknað út með öðrum hagfræðingum, að séu 21 stig, í frv. er gert ráð fyrir að afnema tolla, en ekki er aðeins að ræða um afnám þeirra tolla, sem áttu að verka 21 vísitölustig, heldur einnig þá verzlunarálagningu, sem fellur ofan á tollana og þeir hafa skýrt, að væri samtals 6 stig. Ég segi það, að mig brast ímyndunarafl til að reikna með því, að svona væri á málunum haldið, að þegar búið væri að lækka tolla einnar vöru um 100 kr., þá fái verzlanirnar eftir sem áður að leggja jafnmikið á vöruna. Það verður að hækka prósentuálagninguna á þeim vörum, svo að þeir geti haldið uppi vöruverði og bjargað vísitölustigunum, þegar hv. þm. vill leiðrétta það, sem forsrh. hefur rangt með farið. Það er ekki hægt að snúa sig svona út úr þessu. Vitanlega er ekki um að ræða, nema rekin sé skemmdarstarfsemi af þeim, sem fara með verðlagsmálin í landinu, að ef tollar eru afnumdir af innfluttum vörum, þá lækkar prósentuálagningin að sama skapi, um leið og tollar hverfa. Það má alveg eins skylda verðlagsyfirvöldin í landinu til að banna, að álagning hækki. (GÞG: Það var gert í fyrra.) Já, þá er til einhvers hafandi verðlagsráð. ef Alþ. þarf hverju sinni að binda með l., hvað þeir eigi að ákveða í þessum efnum. Hið rétta er, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur reiknað út, að ef þessir tollar væru afnumdir, þá væri hægt að lækka vísitöluna á þann hátt um 21 stig.

Þá reyndi hv. þm. að verja það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að afnám tolla mundi nú þýða 25 millj. kr. tekjumissi fyrir ríkissjóð. Hv. þm. sagði, að það lægju nú fyrir nákvæmir útreikningar yfir 9 fyrstu mánuði þessa árs um, að tollar af þessari vöru mundu vera 18–19 millj. kr., og því megi, ef hinir 3 eru reiknaðir í réttu hlutfalli, gera ráð fyrir að tolltekjurnar verði 24–25 millj. kr. Veit ekki þessi hv. þm., að síðustu 3 mánuðirnir halda ekki réttu hlutfalli við hina? Eins og ég hef bent á, þá hefur ríkisstj. gert ráð fyrir að flytja inn helmingi minna á næsta ári en í fyrra, þ. e. a. s. úr 440 millj. kr. niður í 220 millj. kr. Við það er áætlunin miðuð. Þótt þessar 24–25 millj. kr. væru réttar, þá yrði þetta samkvæmt þeirri áætlun, sem ríkisstj. hefur hér lagt fram, helmingur af þessari upphæð. Og svo segir hv. þm., að ríkisstj. mundi spara sín útgjöld um 12–13 millj. kr. Ef maður heldur sig við hans útreikning og reiknar með því, sem hann segir, að ríkið mundi spara, 650 þús. kr. á hverju vísitölustigi, og vísitölustigin væru 21, þá sjáum við það, að beinlínis þannig með þeim innflutningi, sem áætlaður er á næsta ári, hefði ríkið heldur hagnað af þessu en hitt. Þegar búið er að reikna þetta út svona, þá er vent við blaðinu og sagt, að hér sé verið að fara inn á fölsun á vísitölunni. Mér er ekki grunlaust, að þessi hv. þm. eigi líka hlut að máli ásamt stjórninni að því, sem nú er í undirbúningi, að falsa vísitöluna. Svo koma þessir sömu menn, sem eru að undirbúa slík plögg, og segja: „Við erum ekki með því að falsa vísitöluna.“ Það er ekki enn sannur vilji fyrir höndum til þess að lækka vísitöluna á þann hátt, sem við getum. Og þeir biðja sig undan því, að aðrir menn hafi áhyggjur af því, að þessi leið sé farin. En verkamenn hafa áhyggjur af hinu, að þessir menn ætli að fara inn á þá leið að fara að rýra kjör verkamanna með því að reyna að svíkja af vísitölunni. — Alþfl. hefur alltaf haft þá stefnu að vilja afnema tolla á nauðsynjavörum og vera á móti tollum á nauðsynjavörum. Og þess vegna er það líklega, að hann getur ekki verið með því að fella niður þessa tolla á nauðsynjavörum, sem hér í þessu frv. er farið fram á að fella niður (!). Af þeim ástæðum skildist mér, að það stæði flest á höfði í þessu. Er það kannske vegna þess, sem hv. 4. þm. Reykv. tekur þessu frv., sem hér liggur fyrir, kuldalega, að hann hefur sjálfur flutt till. á Alþ., sem var að efni til um sömu skipun á verzlunarmálunum? Er það þess vegna, sem hann treystir sér ekki til að vera með þessu frv. ? Er það til þess að vera á móti því, sem maður hefur verið með áður? — Og allir flokkar stóðu saman í fyrra um ríkisábyrgð á fiskverði. Er það kannske af þeirri ástæðu, sem enginn flokkur, sem stendur að hæstv. ríkisstj. nú, má nefna þetta nú? Þeir, sem styðja hæstv. ríkisstj., geta sagt, að till. um ábyrgð á fiskverðinu sé ekki ný uppfinning hjá Sósfl. nú. En vilja þessir menn ekki ræða það nú, af því að þeir hafa verið með því áður?

Nei, það skýrist vitanlega þeim mun betur, sem meira er rætt um þessi mál, að sá kjarni, sem á bak við liggur, er þessi, að það er verið að leita að því af hálfu núverandi stjórnarflokka að lækka vísitöluna. Það er ekki meining þessara manna, þó að þeir hafi strítt í 7 til 8 ár við verðbólguna, að gera ærlegt handtak til þess að minnka verðbólgu og dýrtíð í landinu, heldur er aðeins meining þeirra sú að koma fram hinni margþráðu kauplækkun í landinu. En þessa baráttu sína kalla þeir baráttu gegn dýrtíð og verðbólgu. Og þegar till. eru hér bornar fram, sem hægt væri að fá höfuðstéttirnar í landinu til að semja um dýrtíðarvandamálin í samræmi við, þá vilja þeir ekki semja. Nei, þeir vilja allt annað. Og þeir eru að reyna að búa til skrautklæði utan um þær till., sem þeir ætla að leggja fram til þess að koma fram þessari kauplækkun sinni, sem þeir fyrst og fremst vilja koma fram.