03.12.1947
Neðri deild: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2536)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. hefur einu sinni enn tekizt að flæma alla hv. þm. af fundi, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu nú og tel, að það sé ekki þýðingarmikið, eins og á stendur. Og mér fannst ræða hv. þm. Siglf. og ádeila hans á mig næsta óskiljanleg. Hann segir, að ég sé hér sendur fram fyrir skjöldu til þess að verja eitthvert kauplækkunarfrv. ríkisstj. Mér er ekki kunnugt um, að hér hafi verið til umr. neitt kauplækkunarfrv. ríkisstj. Hér liggur fyrir á þskj. nr. 130 frv. sósíalista um ráðstafanir gegn dýrtíðinni og um rekstur útvegsins og það hafa verið haldnar þrjár ræður af Sósfl.-þm. um þetta frv. Og að gefnu tilefni af hv. 2. þm. S-M. var það, sem ég kvaddi mér hljóðs og talaði um málið, en tók hins vegar fram, að á þessu stigi mundi ég ekki ræða málið í heild. Ég skal gera það síðar, þegar það verður rætt almennt. Það er fjarri því, að ég skorist undan því að ræða þetta mál. En ég sé ekki ástæðu til að ræða það nú hér í hv. þd., þar sem nú eru hér ekki nema 6–7 þm. viðstaddir.

Viðkomandi því, að hv. 2. þm. S-M. hefði tætt fyrri ræðu mína um þetta efni sundur lið fyrir lið og að þess vegna væri vansæmandi af mér að segja ekkert við því, þá vil ég taka fram, að mér þótti svo fjarri því, að hv. 2. þm. S-M gerði það, að mér datt ekki í hug að segja neitt þess vegna. En ég sá, að hv. þm. Siglf. var ekki viðstaddur hér í hv. d., er hv. 2. þm. S-M. flutti sína ræðu. Og þess vegna skal ég skýra hv. þm. Siglf. frá því, að hv. 2. þm. S-M. hefur engu haggað í minni ræðu, enda ekki þægilegir að hrekja það, sem ég sagði. Það eina, sem ég vildi nú andmæla í ræðu hv. 2. þm. S-M., er sú staðhæfing hans, að það mundi ekki kosta ríkissjóð svo sem neitt að fella niður tollana af þessum vörum, sem nefndar eru í VI. kafla þessa frv. Sú skoðun, sem ég hélt fram í þessu sambandi, kemur líka fram í grg. frv., þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Að vísu mundi þetta hafa í för með sér nokkurn tekjumissi fyrir ríkissjóð. Sá tekjumissir mundi þó að nokkru leyti vinnast upp með því, að allar launagreiðslur ríkissjóðs lækkuðu til verulegra muna.“ Þetta er í raun og veru eina atriðið, sem ég hef gert hér að umtalsefni. Og í því, sem ég sagði í ræðu minni, var ekki vörn fyrir nein áform, sem hæstv. ríkisstj. hefði með höndum. Þetta er eina atriðið, sem ég taldi mér skylt að skipta mér af að svo komnu í sambandi við þetta frv., af því að í þessu sambandi var vitnað í útreikninga, sem ég hef unnið að ásamt fleirum. Við í þessari n. höfðum reiknað út, að áhrif allra þessara tolla á vísitöluna. þ. e. verðtollsins og vörumagnstollsins. að við bættri álagningu á þessa tolla, mundu nema 21 stigi. Hér í þessu frv. er hins vegar lagt til að fella niður tolla á flestum vörum, sem koma inn í vísitöluna og hafa áhrif á hana, en að vísu ekki öllum þeim vörum. Og í frv. eru ekki ráðstafanir gerðar til þess að tryggja, að verzlunarálagning lækki í réttum hlutföllum við niðurfellingu tollanna vegna þeirrar niðurfellingar. Það er þegar reynsla fyrir því, að það er ekki víst, að verzlunarálagning minnki sem því svarar, er tollar breytast til lækkunar, þó að frv. þetta yrði gert að l. Það hefur komið fyrir, að ákveðið hafi verið, að hundraðshluta-álagning á innkaupsverð vara að tolli meðtöldum hækkaði til að vega upp á móti breyt. til lækkunar á grunntolli af innfluttum vörum. Það er því ekki hægt að ganga út frá því sem alveg sjálfsögðum hlut, að álagning lækkaði á vörum, sem tollur væri felldur niður af, sem svaraði núverandi álagningu á þá tolla, sem felldir væru niður, ef frv. þetta væri samþ. Hæstv. Alþ. þótti ástæða til þess í fyrra að lögbinda það, þegar til þess var gripið, að tollar voru hækkaðir, að raunveruleg álagning skyldi ekki hækka á innkaupsverði varanna að viðbættum tolli. — En þetta tvennt, að það er ekki gert ráð fyrir, að afnám tollanna gildi um allar vörur, sem tollar eru nú greiddir af, og svo hitt að ekki er tryggt í þessu frv., að raunveruleg álagning vörunnar hækki ekki, þetta tvennt veldur, að það má ekki reikna með að vísitalan mundi lækka um 21 stig, þó að þetta frv. væri samþ. Þetta er það eina, sem ég hef sagt um þetta. Og það er óvefengjanlega rétt.

Hitt er svo ekki rétt, að það hafi í för með sér aðeins lítils háttar tekjumissi fyrir ríkissjóð að framkvæma ákvæði frv. um niðurfellingu tolla. Með þeim innflutningi, sem gert er nú ráð fyrir, mundi þetta nema 10 til 12 millj. kr. Það er ekki mjög óverulegur tekjumissir fyrir ríkissjóð. Það er léttúðarfullt að kalla 10 til 12 millj. kr. tekjumissi mjög lítilfjörlegan fyrir ríkissjóð. Og það er léttúðarfullt að ætla að svipta ríkissjóð 10 til 12 millj. kr. tekjum án þess að koma með till. um tekjuöflun á móti.

Af því að mér var blandað inn í þessar umr., sá ég ástæðu til að leiðrétta tölur, sem ég álít rangar og farið var með af formælendum þessa frv. Ég álít það rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér í gær um þessi efni, og tel ég því vefengingar hv. 2. þm. S-M. á réttmæti orða hæstv. forsrh. ósanngjarnar og rangar.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Siglf. um tollana og andstöðu gegn álagningu tolla, þá endurtek ég aðeins það, sem ég sagði áðan — og því var af hvorugum þeim hv. þm. haggað, sem töluðu hér fyrir hönd Sósfl. — , að till. þessa frv. eru ekki um „prinsipialar“ niðurfellingar á tollum af nauðsynjavörum. Verði þessi staðhæfing vefengd, skal ég með litlum fyrirvara þylja upp langan lista um nauðsynjavörur, sem tollaðar eru áfram, þó að þetta ákvæði sé samþ. Það, sem hér er verið að gera, er að lækka vísitöluna með tilteknum aðgerðum, og þess vegna á að dæma ákvæðin út frá því, hvort þetta takmark næst eða ekki. Það eina, sem ég segi er, að það er út frá þessu sjónarmiði, sem ég tel aðra aðferð auðfarnari og ódýrari en þessa. En það er rétt, að ef maður lítur á þetta sem tollaniðurfellingu, þá er öðru máli að gegna, og það getur verið réttlætismál með slíkt, þó að það sé það ekki sem niðurfærsla á vísitölunni, og um það er enginn ágreiningur milli okkar. Hitt er annað mál, hvort menn treysta sér til þess að reka ríkisbúskapinn án þess. Meðan þessi flokkur studdi ríkisstj., þá var þetta ekki gert, svo að hann viðurkenndi eins og Alþfl., að undir vissum kringumstæðum getur verið nauðsynlegt að innheimta tolla af nauðsynjavörum. Hitt er annað mál að óska þess, að meiri hluti fáist fyrir því að fella niður tolla af nauðsynjavörum, og það skal ekki standa á mér að greiða því atkv. Ef um það næðist samkomulag, þá stæði ekki á Alþfl. En flokkurinn er í stjórnarsamvinnu við flokk, sem hefur „prinsipialt“ ekkert við það að athuga, að nauðsynjavörur séu tollaðar. Sósfl. hefur líka undanfarið orðið að láta sér það lynda, að stjórn, sem hann studdi, aflaði sér tekna af nauðsynjavörum eins og Alþfl. nú.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að svara hv. þm. Það er misskilningur, að ég sé að hlaupa hér fram fyrir skjöldu fyrir einn eða neinn. Ég er aðeins að andmæla tilteknum, röngum ummælum. Ég mun leiða hjá mér á þessu stigi málsins að ræða frv. í heild. Ég hef ástæðu til að halda, að tækifæri gefist til þess á öðrum vettvangi, og mun ég þá gera grein fyrir minni afstöðu til málsins, en tel ástæðulaust að segja fyrir fram, hver hún muni verða.