04.12.1947
Neðri deild: 27. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

94. mál, dýrtíðarráðstafanir

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég man ekki eftir því þann tíma, sem ég hef setið á þingi, að nokkur ríkisstj. hafi í því máli, sem hún sjálf hefur gert að sínu aðalmáli, staðið sig eins herfilega eins og hæstv. ríkisstj. hefur gert í þessu máli. Hæstv. forsrh. hefur gert eina lélega tilraun til að bera ofurlítið blak af sinni ríkisstj. og gefið þá einhverjar þær hlægilegustu upplýsingar, sem gefnar hafa verið af nokkurri ríkisstj. á Alþ. Hann tilkynnti sem sé það, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að sitja 10 mánuði að völdum og hafði ætlað sér að vinna eitt einasta verk, að nú væri loks svo komið, að farið væri að sjást, að stundin sé að nálgast. Ég býst við, að aldrei hafi íslenzk ríkisstj. staðið sig eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur gert. Fyrst tekur það 23 daga að koma þessari ríkisstj. saman. Núverandi hæstv. forsrh. fær frá forseta lýðveldisins hvorki meira né minna en 23 daga til að bauka við að setja saman ríkisstj., sem meiri hl. hv. þm. var nauða illa við, en átti þó ekki annars kostar að fá nokkra aðra ríkisstj. Eini tilgangur þessarar ríkisstj. átti að vera sá, samkvæmt yfirlýsingu hennar sjálfrar, að lækka dýrtíðina og nú skyldi maður ætla, að þessir 23 dagar hefðu verið notaðir til þess, að þeir 3 flokkar, sem ríkisstj. mynduðu, hefðu komið sér saman um einhverja stefnu í þessum málum. Það var raunar ekki mikið, sem hægt var að festa hendur á í yfirlýsingum, sem gefnar voru, þegar stjórnin var mynduð, en það var eitt, sem virtist eiga að vera hennar stefnumál og það eina, sem náðst hafði samkomulag um, og það var að stöðva dýrtíðina og tryggja landsmönnum næga atvinnu, enda er sannleikurinn sá, að hefði ekki náðst samkomulag um þetta eina mál, þá hefði það verið frekja að bjóða þinginu upp á nýja ríkisstj. Það var vitanlegt hvað nýsköpunina snerti, að hún ætlaði að stöðva hana, og á flestum sviðum hafa aðgerðir hennar orðið til að stöðva framkvæmdir og gera tilraun til að skapa atvinnuleysi, sem henni hefur ekki tekizt, vegna þess að Faxaflóasíldin gerði hæstv. ríkisstj. þann grikk að koma hér í svo ríkum mæli og fylla öll sund, og nú veit hún ekkert, hvað hún á að gera við hana. — Eins og ég sagði áðan, skyldi maður hafa ætlað, að þessir 23 dagar hefðu verið notaðir til þess, að stjórnarflokkarnir kæmu sér saman um stefnu 3 dýrtíðarmálunum, og þeir, sem höfðu einhverja tiltrú til ríkisstj., gengu út frá því, að í yfirlýsingum hennar fælist það, að hún væri búin að koma sér saman um einhverja stefnu og hvað gera ætti í dýrtíðarmálunum. Það var eitt af því fáa, sem menn hugðu sig vita um ríkisstj., að í dýrtíðarmálunum stæði þó ríkisstj. saman, — hana kynni að deila á um ýmis önnur mál, t. d. að halda áfram nýsköpuninni, eða hún hefði mismunandi áhuga á að koma á atvinnuleysi og vinna skemmdarverk í markaðsmálunum, aðeins um þetta mál, dýrtíðarmálið, bjuggust menn við, að hún hefði komið sér saman, enda hafði hún þessa 23 daga til þess að semja um þessi mál, og áður voru liðnir 3 mánuðir, sem flokkarnir voru búnir að ræða þau. En hvað kemur svo á daginn? Það kemur á daginn, að á því þingi, þegar ríkisstj. tekur við völdum, hefur hún engin ráð til að leggja fram um stöðvun dýrtíðarinnar. Einu till., sem hún ber fram á því þingi, ganga í þá átt að auka dýrtíðina, sem sé með því að leggja á nýja tolla og þeir sem hafa verið velviljaðir hæstv. ríkisstj., hafa hugsað sem svo: Aumingja veslings ríkisstj., hún er áreiðanlega öll af vilja gerð og hefur ýmislegt í undirbúningi um þessi mál, en hún hefur ekki enn fengið neitt næði til að vinna að þessu. — Svo kemur sumarið og eftir því sem Framsfl. upplýsir, hafði hann að vísu lagt til, að stéttaráðstefna yrði kölluð saman um vorið, en hinum flokkunum mun hafa þótt vissara, til þess að fyrir lægju gögn í málinu, að hún yrði ekki kölluð saman fyrr en um haustið, til þess að ríkisstj. hefði allt sumarið til undirbúnings málsins. Stéttaráðstefnan er svo kölluð saman um haustið, en þá upplýsir eitt stjórnarblaðið, Tíminn, að það hafi orðið að fresta henni, vegna þess að hún hafi ekki fengið nein gögn frá ríkisstj. um málið. Síðan kemur Alþ. saman og er nú búið að sitja í 2 mánuði. Þá gerist það, að stjórnarandstaðan leggur fram frv. fyrir þessa hv. d. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni — um raunhæfar aðgerðir á öllum sviðum til þess að vinna gegn dýrtíðinni. Hvað gerir hæstv. ríkisstj. þá? Hæstv. forsrh. lýsir því yfir, að ríkisstj. hafi þetta mál með höndum og að nú væri stundin að nálgast. Það eru heldur merkilegar upplýsingar, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki vera búin að missa málið út úr höndum sér. Að hún hafi málið með höndum, það vissi allur þingheimur, en hvernig hún mundi böggla það í höndum sér, eftir að hafa haft það til meðferðar allan þennan tíma, þætti þingheimi gaman að fá upplýsingar um. Ég býst við því, að þetta sé sú aumlegasta yfirlýsing, sem nokkurn tíma hefur verið gefin úr ráðherrastóli á Íslandi. Það er auðséð að þessi ríkisstj. hefur ekki áhuga á því að reyna að leysa dýrtíðarmálið. Hv. þm. verða því að gera sér það ljóst, að frv. það, sem við sósíalistar höfum lagt hér fyrir hv. d., verður eina tækifærið, sem hv. Alþ. fær á þessu þingi til þess að ræða raunhæfar ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Hæstv. ríkisstj. ætlar sér ekki að leggja fram neinar till. til úrbóta á dýrtíðinni. Þær ráðstafanir, sem hún hefur verið að ræða á undanförnum mánuðum, eru í fyrsta lagi um gengislækkun, um skipulagða aukningu á dýrtíðinni og verðbólgunni í landinu og um rýrnun á launum og sparifé almennings, en hækkun á verði á fasteignum. Það skiptir engu máli, þótt ríkisstjórnin reyni að kalla gengislækkun gjaldeyrisskatt. Þessar fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. þýða skipulagðar ráðstafanir til aukinnar verðbólgu í landinu, en alls engar dýrtíðarráðstafanir og ganga í sömu átt og tollarnir, sem settir voru í vor. En ríkisstj. hefur líka verið að ræða annað en skipulagðar ráðstafanir til aukningar verðbólgunnar, hún hefur líka verið að ræða um beinar ráðstafanir til þess að lækka kaup almennings í landinu. Henni hefur ekki fundizt hinir 200 milljónamæringar í Reykjavík, sem hún er fulltrúi fyrir, vera nógu ríkir, og finnst því þurfa að lækka laun launþeganna, til þess að þeir ríku geti orðið enn þá ríkari. Ráðstafanir, sem kæmu niður á launþegunum, til þess að lækka dýrtíðina yrðu aðeins til þess að gera hana enn óbærilegri. Og ef hæstv. ríkisstj. kæmi einhvern tíma fram með frv. um þessi efni á þessu þingi, þá býst ég við, að það yrði fyrst og fremst um þetta tvennt, annars vegar lagalegar fyrirskipanir um aukningu verðbólgunnar, hins vegar lagalegar fyrirskipanir um launalækkun launþeganna. — Þær till., sem hér liggja fyrir hv. d., ganga í þá átt að minnka dýrtíðina og verðbólgu í landinu. Þess vegna mun það reynast rétt, sem ég sagði áðan, að þetta verður einasta frv. um þessi efni, þar sem hv. Alþ. gefst tækifæri til þess að ræða raunhæfar ráðstafanir gegn dýrtíðinni. En mér þykir það fróðlegt í þessu sambandi, af því að þetta er fyrsta ríkisstj., sem Alþfl. myndar á Íslandi, sem á að leggja fram frv. um þessi efni í umboði auðmannastéttarinnar í Reykjavík og af því að þetta er fyrsta ríkisstj. Alþfl. á Íslandi, sem treystir sér ekki til þess að ræða um þessar till. okkar, að fara ofurlítið nánar út í sögu Alþfl.

Eitt af höfuðatriðunum, sem felast í okkar till., er um innkaupastofnun ríkisins, þ. e. um að afnema heildsalagróðann, og þessar till. okkar eru þær sömu og Alþfl. fyrr á árum barðist fyrir, eins og ég sannaði rækilega í minni framsöguræðu. Það hefur komið fram í yfirlýsingum af hálfu Alþfl. síðan 1936 og endurtekið síðan við hverjar kosningar, og gerði hv. 4. þm. Reykv. það að sínu aðalmáli í öllum ræðum, sem hann hélt fyrir síðustu alþingiskosningar, er lauk með því, að hann var kosinn á þing, sem sé, hvernig ætti að fara með heildsalagróðann. Við sósíalistar gerðum þetta einnig að okkar aðalmáli í þeim samningaumleitunum, sem fram fóru um stjórnarmyndun fyrir ári síðan, og voru till. okkar um landsverzlun lagðar fram í 12 manna n. þann 6. nóv. 1946. Nú höfum við tekið þessar till. upp í nokkuð breyttu formi og lagt þær til. Og nú væru möguleikar til þess að ræða um þessar till. og taka ákvarðanir um þær. Hv. 4. þm. Reykv. og öðrum alþýðuflokksmönnum, sem svo mikið hafa talað þessu viðkomandi, þeim gefst í sambandi við þessar till. tækifæri til þess að sýna, hve mikið þeir hafa meint með því, sem þeir áður hafa talað um þessi efni. Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það í gær, að ekki væri fyllilega gengið frá því í þessu frv., að um leið og tollar af nauðsynjavörum væru niður felldir, þá væru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja hækkaða álagningu eftir hundraðshluta tollsins. Það eru skarpari ákvæði í V. kafla þessa frv. um minnkun álagningarinnar en í öðrum frv. hafa verið, sem hér hafa legið fyrir, vegna þess að þar er tekið fram, að verðlagning veiðarfæra og annarra útgerðarvara skuli miðuð við það, að þau séu seld með kostnaðarverði. Það mundi þannig koma í ljós, að til þess þyrfti hagnýtari aðgerðir, ef þetta væri samþ., heldur en afnám tolla og álagningar sem tollinum samsvarar.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það í gær, að hann hefði borið fram frv. um sameiningu innflutningsverzlunarinnar. Hann mun hafa borið slíkt frv. fram í febrúar í ár, sem sé á síðasta þingi. Ég sé ekki, að þessi hv. þm. hafi borið fram slíkt frv. aftur. Og ég hef ekki orðið var við í hans ræðum hér, að hann hafi tekið undir þær till., sem fram hafa komið frá okkur um þessi mál. Nú hefur þó loksins Alþfl. tækifæri til þess að gera eitthvað raunverulegt í þessum málum. Allan þann tíma, ef ég man rétt, sem Alþfl. hefur áður fyrr tekið þátt í ríkisstj., þá hafa ýmist Framsfl. eða Sjálfstfl. haft viðskiptamálin. Ég held, að ég muni það rétt. Nú er það í fyrsta skipti, sem Alþfl. hefur sjálfur viðskiptamálin. Nú væri því alveg sérstakt tækifæri til þess fyrir Alþfl., og ekki sízt hv. þm. hans, sem hæst hafa talað á móti heildsölunum, eins og hv. 4. þm. Reykv., að sýna trú sína í verkunum. En hvernig hefur reyndin orðið? Hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki flutt sitt frv. aftur. Hann hefur ekki treyst sér til að taka einu sinni undir okkar till. á þessu sviði. Og hæstv. viðskmrh., sem þegar hann var form. Rauðku, skrifaði og talaði djarfast um það, að það þyrfti að þurrka heildsalagróðann burt og beina fjármagninu í atvinnureksturinn, hann er nú orðinn eitt af átrúnaðargoðum heildsalanna í landinu. Og Alþfl. virðist ekki mega til þess hugsa að snerta við þeirri aðstöðu, sem þessir herrar hafa skapað sér, ekki einu sinni veita samvinnufélögunum í landinu réttindi til þess að geta keppt um vörusölu á sæmilegum grundvelli við kaupmenn eða veita neytendum í landinu frelsi til þess að ráða sjálfir, hvar þeir kaupa inn sínar vörur, þannig að þó að fram komi frá Framsfl. sæmilega góðar till. í þessum efnum, þá drepa sjálfstæðisflokksmenn og alþýðuflokksmenn í sameiningu þessar till., þannig að viðskmrh. landsins hindrar, að þær till. nái fram að ganga. Þannig er það, að Alþfl. hefur á þessu sviði í verzlunarmálum, gersamlega snúið við frá því, sem hann lýsti yfir á fyrri árum sínum hér, og frá því, sem hv. 4. þm. Reykv. lýsti sérstaklega yfir, þegar hann var kosinn á þing. að hann ætlaði að gera að sérstökum baráttumálum. Hvers vegna skyldi hv. 4. þm. Reykv. ekki hafa borið fram neitt frv. um þessi efni? Og hvers vegna hefur hæstv. viðskmrh., Emil Jónsson, ekki borið fram frv. á þessu þingi í samræmi við fyrri orð sín og stefnu í þessum málum? Og hvers vegna skyldi Alþfl. ekki hafa viljað ræða þetta? Það er af því, að það er búið að brjóta þennan flokk undir ok heildsalanna og hann er búinn að svíkja öll sín fyrr yfirlýstu baráttumál til þess að geta setið í ráðherrastólunum af náð heildsalanna í Reykjavík. Og hvað er það, sem þessi flokkur hugsar sér að gera? Hvaða stund er það svo, sem nálgast fyrir honum? Ég býst við, að það fari svo á endanum, að ríkisstj. núverandi sjái sér ekki annað fært en að bera fram frv., sem hún kalli til ráðstöfunar gegn dýrtíðinni, en muni koma til með að auka dýrtíðina eða veita byrðum hennar yfir á herðar almennings í landinu, Alþfl. hefur áður þurft að taka afstöðu, þegar um það hefur verið að ræða að bera fram till. um gengislækkun eða bera fram till, um gerðardóm eða skerða á einn eða annan hátt vísitöluna eða launin í landinu. Og það er rétt, þegar við sjáum, hvað fram undan er, að bera saman, hvað hefur verið að gerast á síðustu 8 árum í þessu efni og hvert þróun þessa flokks gengur.

Árið 1939 fór hæstv. núverandi forsrh. í ríkisstj., sem þá var mynduð, með þeim tveimur flokkum, sem hún nú situr í stjórn með, á móti vilja meiri hluta miðstjórnar Alþfl. og gekk inn á það að framkvæma gengislækkun, sem Alþfl. við kosningar 1937 sérstaklega lýsti sig andvígan og háði þá aðalkosningabaráttu sína á þeim grundvelli, að aðrir flokkar vildu fella gengið, en Alþfl. mundi standa á móti því að fella gengið. Þessi hæstv. núverandi ráðh. Alþfl. fór svo 1939 í ríkisstj. til þess að fella gengið og til þess að minnka kaupið um leið. Alþfl. fékk sinn dóm fyrir þetta atferli 1942. Í næsta skipti sem Alþfl. varð að taka afstöðu í þessu máli, var þegar þessir tveir samstarfsfl. hans. Sjálfstfl. og Framsfl., komu með gerðardómsfrv. Þá sá Alþfl., að það mundi ekki þýða að vega tvisvar í sama knérunn, enda var þá skammt til kosninga. Þess vegna fór Alþfl. þá út úr ríkisstj., og hinir flokkarnir fengu að gera tilraunina til að beygja íslenzka verkalýðinn undir þrælalögin. Og við vitum allir, hve hraksmánarlega sú tilraun mistókst, Alþfl. hafði þá ennþá þann ótta við kjósendur og ef til vill þann snefil af sómatilfinningu að fara út úr ríkisstj., þegar svona var komið. — En hvað er það nú, sem er að gerast? Nú er það að gerast, að það er verið að láta ríkisstj., sem Alþfl. sjálfur myndar, undirbúa frv. um kauplækkunina með bindingu á vísitölunni. Og frv. um þetta efni á fyrsta ríkisstj., sem Alþfl. sjálfur myndar á Íslandi, að bera fram. Nú er ætlazt til þess, að óttinn hjá þessum flokki við kjósendurna í landinu sé ekki svo mikill, að flokkurinn fari úr ríkisstj., heldur geri þetta. Nú er ætlazt til, að það sé ekki eftir sá snefill af sómatilfinningu hjá þessum flokki gagnvart kjósendum sínum, að flokkurinn eigi nokkuð að vera að hugsa um það, hvað kjósendur vilji í þessum efnum. Nei, nú á fyrsta ríkisstj., sem Alþfl. myndar hér á landi sjálfur, að flytja frv. um lögboðna hækkun á dýrtíðinni, lögboðna verðbólgu, lögboðna bindingu á vísitölunni. Og vegna þess að það frv. er í undirbúningi til þess að hjálpa auðmönnunum í landinu, þorir Alþfl. ekki að ræða þær ráðstafanir, sem hér eru lagðar fram till. um í þessu frv., sem fyrir liggur, sem eru ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Sómatilfinning þessara alþýðuflokksmanna hefur verið að síga dýpra og dýpra niður, og virðist hún nú vera alveg að sökkva. Ég hef hugboð um það, að ríkisstj. sú, sem nú situr, reyni að koma sér hjá því að ræða raunhæfar ráðstafanir á móti dýrtíðinni og til þess að tryggja rekstur útvegsins, sem hér liggja fyrir till. um, — hún muni reyna að finna ráð til þess. Og þegar hún kemur fram með sín frv., um aukna verðbólgu í landinu og um að velta byrðum dýrtíðarinnar yfir á almenning í landinu. þá hygg ég, að ríkisstj. munt reyna að tryggja, að ekki geti farið fram sérstaklega miklar umr. um þetta hér á hæstv. Alþ. Við skulum sjá, þegar þar að kemur. En af þeim umr., sem hér hafa farið fram, verður séð, að eitthvert hugboð hefur stjórnarliðið um, hve slæm þessi afstaða er í málinu, þegar það þorir ekki að tala vinsamlegar en hér hefur verið gert um það eina frv., sem komið hefur fram um dýrtíðarmálin, eftir tveggja mánaða setu þingsins.