22.01.1948
Neðri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv. kom fram, var eins og hv. frsm. skýrði frá, að við í fjhn. þessarar d. urðum ekki sammála um, hvernig ætti að afgr. málið. Þó að einkennilegt megi virðast, vil ég halda áfram með stjfrv., en hv. meiri hl. vill gerbreyta því. Mitt álit er, að stjfrv. geti vel gengið með smávægilegum breyt., og koma þær til umr. í sambandi við næsta mál á dagskránni, sem er þetta stjfrv.

Ástæðan til þess, að ég er andvígur þessu frv., er sú að ég álít ekki heppilega aðferð að fara inn á að veita stj. jafnvíðtæka heimild með reglugerð og hér er gert. Það þýðir ekki sama öryggi fyrir borgarana, hvort þeir hafa l., sem Alþ. setur, til að halda sér að og þar með sinn rétt ákveðinn eða reglugerð, sem stj. setur og getur breytt hvenær sem henni þóknast. Af því að ríkisstjórnarkerfið er orðið svo umfangsmikið á öllum sviðum, þá virðist manni beinlínis nauðsyn að setja skorður við því frekar en verið hefur, að viðkomandi stj., hver sem hún er, hafi svona víðtækt vald til að setja reglugerðir, sem hún getur numið úr gildi eða breytt á næsta missiri. Það hefur líka komið fyrir, að hæstv. núv. stj. hefur í reglugerðum, sem hún hefur sett, farið lengra en góðu hófi gegnir. Það er alltaf hætta á því, að þegar stj. er gefið víðtækt vald til að setja reglugerðir, þá sé það misnotað vísvitandi eða óafvítandi. Ég álít því miklu öruggara fyrir borgarana að fá lagasetningu en reglugerð. Þetta er prinsipielt atriði án alls tillits til, hvaða álit menn hafa á þeirri ríkisstj., sem situr hverju sinni.

Með þessu frv. er viðskmrh. gefin heimild m. a. til að láta tollmenn leita á mönnum, í vörum, farangri og póstflutningi hvers konar, í skipum og öðrum farartækjum til þess að fyrirbyggja og sannreyna brot á reglugerðinni. Það virðist, að ef menn vilja nota þessa heimild, þá megi láta tollverði leita í póstflutningi hvers konar. Tollmenn hafa haft heimild til að leita í farangri og flutningi í sambandi við tolllög, en það hefur hingað til ekki verið gengið út frá því, að þeir leituðu í póstflutningi. Ég tel ekki rétt að setja svona ákvæði. Við höfum sameiginlega í fjhn. beðið tollstjóra að búa til breyt. fyrir okkur við þetta stjfrv. Hann skilaði tvenns konar till. Aðrar liggja hér fyrir sem frv. Hinar liggja fyrir í brtt. mínum við stjfrv., þar sem gengið er út frá að halda sér við það form, sem hæstv. stj. myndaði með brbl., og ég sé enga ástæðu til að auka valdstj. fram yfir það, sem hún sjálf taldi nauðsynlegt og tileinkaði sér með brbl. Till. mínar styðjast því líka við skoðun þessa embættismanns, sem mest hefur með framkvæmd þessara mála að gera og hefur þá ábyrgð, að hægt sé að framfylgja l.

Ég vil aðeins við þessa 1. umr. málsins lýsa, hvers vegna ég er á móti frv., en mun þó fylgja því til 2. umr.