22.01.1948
Neðri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Eins og heyra má af ræðu hv. 2. þm. Reykv., þá ber hér ekki ýkja mikið á milli, það er að mestu leyti form.

Eitt atriði minntist hv. 2. þm. Reykv. á. Hann sagði, að í frv. okkar væri gengið lengra en í varatill. tollstjóra og stjfrv., að við viljum leyfa eftirlit með póstflutningi hvers konar. Nú er það svo, að tollstjóri hefur heimild til slíks í tolllögunum sjálfum. Hún er þó aðallega í sambandi við innflutning. Ég er sammála minni hl. um, að slíkum ákvæðum beri að beita afar gætilega og eftir ströngum reglum. Mér er ekki kunnugt um annað en að þessum ákvæðum tolllaganna hafi alltaf verið beitt með ákaflega mikilli gætni og mjög linlega. Ef engin heimild væri til að rannsaka póst, þá gætu menn alltaf hiklaust sent þar seðla og verðbréf. Þessi heimild verður því að vera til, svo að ekki sé allt of greið leið til að fara kringum tilgang laganna.