22.01.1948
Neðri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ef ég man rétt, þá barst það í tal hjá okkur í fjhn., hvað snerti hættu á, að smyglað kynni að verða gjaldeyri og öðru slíku í sambandi við póstflutning, þá mundu þegar að öllum líkum hafa verið gerðar ráðstafanir til að hafa eftirlit með slíku smygli, jafnvel að tæki væru til í pósthúsinu til að gegnlýsa bréf, án þess að hvert lítilræði væri lesið, og sjá þannig, hvort þar væru ávísanir, verðbréf eða seðlar. Ef slík rannsókn á sér nú stað með slíkum tækjum, þá á það við samkvæmt gildandi l., og ætti þá ekki að þurfa að bæta því ofan á, að póstmenn megi leita í hvers konar póstflutningi. Ég fæ því ekki séð, að þótt þetta ákvæði sé nú ekki sett í l., þá verði opin leið til að smygla gjaldeyri, ávísunum og verðbréfum í hvers konar póstflutningi. Ég held líka, að þetta hafi ekki verið ástæðan hjá hæstv. stj., þegar hún setti brbl., að það ætti að vera hægt að smygla úr landinu gjaldeyri í pósti og hafi haft hug á að hindra slíkt. Ég held því, að þessi ákvæði séu ekki nauðsynleg frá því sjónarmiði, svo að ég svari þessu atriði í ræðu hv. þm. V-Ísf.