30.01.1948
Neðri deild: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jón Pálmason:

Herra forseti. Er lög um fjárhagsráð voru til meðferðar á síðasta Alþ., flutti ég brtt. við þau, sem miðaði í þá átt, að takmarkanir þær, sem gerðar eru með l. þessum, næðu ekki til sveitanna og hinna smærri kauptúna og þorpa úti um land. Þessi brtt. mín náði ekki samþykki þingsins, en það má öllum ljóst vera, að ef takmarka þarf á annað borð byggingar, þá hljóta þær takmarkanir fyrst og fremst að ganga yfir Rvík. Hitt er aftur á móti vitað mál, að hið opinbera hjálpar mönnum úti á landi með styrkjum til þess að koma upp byggingum, sem aðkallandi þörf er á. Reynslan hefur leitt í ljós, að það er mjög óþægilegt fyrir sveitamenn að þurfa að fá fjárfestingarleyfi fyrir hverri og einni byggingu. sem þeir reisa. Fjárhagsráð setti á sínum tíma reglugerð um það, að fjárfestingarleyfi þyrfti ekki fyrir húsum, sem kostuðu 50 þús. kr. eða minna. Samt sem áður virðist sú mikla fyrirhöfn, sem gerð er mönnum með þessu, vera alger óþarfi. Útihús og gripahús munu vart ná þessari fjárhæð, og virðist sem oddvitum sé bökuð óþarfa fyrirhöfn í skýrslusöfnun með þessum hætti. Hitt er nauðsyn, að fjárhagsráði berist skýrslur um það, hve mikið er byggt á hverjum stað. Það á að vera auðvelt án mikilla vafninga eða fyrirhafnar. Það er mjög auðvelt, því að til bygginga eru veitt lán úr Byggingarsjóði, Nýbýlasjóði og Ræktunarsjóði, Búnaðarbankinn á að geta gefið skýrslur um þetta til fjárhagsráðs og það má vel vera, að fjárhagsráði sé nauðsynlegt að fá vitneskju um þetta. Ég held því, að það sé rétt að samþ. það, sem segir í brtt. á þskj. 282. sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Rang., en þar er gert ráð fyrir, að ekki þurfi fjárfestingarleyfi til íbúðarhúsabygginga og útihúsabygginga í sveitum og kauptímum með færri en 500 íbúa né til annarra smærri framkvæmda, íbúafjöldinn er að vísu tekinn af handahófi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta nú, en leyfi mér að vænta þess, að hv. þm. taki þessari brtt. vinsamlega.