30.01.1948
Neðri deild: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég get verið hv. aðalflm. till. á þskj. 281 sammála um, að æskilegt væri að gera nokkrar ráðstafanir til þess, að verzlunin kæmist nokkuð í annan og eðlilegri farveg, þannig að vörur yrðu fluttar meir beint til staðanna úti á landi en verið hefur á meðan á stríðinu stóð. Sú umskipun, sem farið hefur fram á vörunum hér í Rvík, er dýr og óhagkvæm, en þetta átti sér eðlilegar orsakir meðan á stríðinu stóð. Nú er gert ráð fyrir, að á næsta ári fjölgi mjög skipum Eimskipafélags Íslands, þannig að félagið fer að halda uppi meiri beinum siglingum út á landið en verið hefur á stríðsárunum. En þó að ég sé hv. 11. landsk. sammála um þetta, þá tel ég ekki, að þessum tilgangi verði náð með því að samþ. brtt. hans, og eins og hæstv. ráðh. benti á, mundi þetta þurfa meiri undirbúning en orðinn er.

Eins og nú standa sakir er það á valdi viðskiptan., hvernig gjaldeyris- og innflutningsleyfunum er skipt. Till. fer hins vegar fram á, að fjárhagsráð skipti gjaldeyrisupphæðinni milli landsfjórðunga. Ég tel þetta ekki heppilegt og get ekki mælt með því.

Út af till. á þskj. 282, sem hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Rang. flytja, vildi ég segja það, að sú rýmkun á fjárfestingarleyfum, sem ákveðin var í reglugerð, hefur verið framkvæmd út í yztu æsar. Það hefur því verið á valdi oddvitanna að gefa leyfi til bygginga, sem kostað hafa minna en 50 þús. kr. eða menn hafa unnið sjálfir að. Þær hafa allar verið látnar halda áfram, hvar sem er úti á landinu. Það er fyrst og fremst í Rvík og á Akureyri, sem byggingar hafa verið takmarkaðar.

Ef farið er inn á það að gefa íbúðarhúsabyggingar í sveitum og kauptúnum með færri en 500 íbúa lausar, yrði það til trafala fyrir þá, sem vilja byggja. Skömmtunin á byggingarefni er miðuð við fjárfestingarleyfin, en sé þeim sleppt, veit fjárhagsráð ekkert um framkvæmdirnar á þessum stöðum. Fjárhagsráð yrði því að taka skömmtunina í sínar hendur, en hún er núna í höndum oddvitanna.

Till. er flutt af misskilningi. Ég hef talað við hv. 2. þm. Rang., og hann hefur sannfærzt um, að rétt sé að falla frá till. Hv. þm. A-Húnv. er því raunverulega einn flm. hennar. Hv. 2. þm. Rang. er því miður ekki hér, en ég veit ekki betur en hann falli frá till. Ég vil því fara þess á leit við hv. þm. A-Húnv., að hann dragi till. til baka. Ég þykist vita, að flokksbróðir hans, formaður fjárhagsráðs, gefi honum þær sömu upplýsingar um þetta mál og ég hef gefið.