30.01.1948
Neðri deild: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. samgmrh. undraðist það, að blandað væri inn í þetta mál óskyldum efnum. Ég sé ekkert undarlegt við brtt. mína. Ef fyrir liggur frv. um breyt. á einum l., er ekkert undarlegt, þótt fleiri brtt. séu bornar fram.

Í þessum umr. hefur ekkert komið fram, er sanni nauðsyn fjárfestingarleyfa til bygginga úti á landi.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að sömu reglur þyrftu að gilda alls staðar. Þessi till. raskar ekki því, að sú regla gildi, að ekki þurfi leyfi fyrir hús, sem kosta minna en 50 þús. kr. Ég hef ekki fengið neinar sannanir, ekki einu sinni líkur fyrir því, að till. valdi trafala. Hins vegar veldur það bara vandræðum að krefjast skýrslna um allar framkvæmdir úti á landi. Það hefur komið harðast niður á oddvitunum. sem þurft hafa að safna öllum skýrslunum.

Það er þakklætisvert, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að byggingar í sveitum hefðu ekki verið stoppaðar. Þær eru raunar ekki svo miklar, enda hefur Alþ. unnið að því að halda þeim áfram og auka þær með fjárframlögum.

Varðandi þá röskun, sem hv. þm. taldi að yrði á skömmtun byggingarefnis, þá fæ ég ekki séð, af hverju svo þarf að verða. Það er gefið, að skýrslur verða að koma til fjárhagsráðs, en þær er auðvelt að gera, því að þeir, sem byggja, þurfa að leita til Búnaðarbankans til að fá lánsfé eða Nýbýlasjóðs, og þar er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar.

Hv. þm. Ísaf. hélt því fram, að ef þessi undantekning yrði leyfð, gæti skömmtunin á byggingarefni ekki verið lengur í höndum oddvitanna og taka þyrfti hana af þeim. Það er hreinn óþarfi, þeir geta haft hana með höndum eins og áður, þótt ekki sé sótt um fjárfestingarleyfi fyrir hverri byggingu. Þetta rekur sig líka á hjá hv. þm. Ísaf., því að byggingar, sem kosta innan við 50 þús. kr., eru undanskildar leyfum, og það þarf efni í þær eins og aðrar byggingar. Fjós og haughús kosta nú um 100 þús. kr., ef þau eru vönduð. Það er hálfundarlegt, ef leyfi þarf fyrir fjósi, sem kostar 100 þús. kr., en ekki fyrir fjósi sem kostar 50 þús. kr. Eins er það með íbúðarhúsabyggingar. Umsóknir til fjárhagsráðs hafa í för með sér óþarfa vafninga. Ég legg því áherzlu á, að till. mín verði samþ.