19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónason [frh.]:

Herra forseti. — Ég hafði lýst hér nokkuð brtt. mínum á þskj. nr. 229 við 2. gr. frv., A 1–2, en B-liður sama tölul. brtt. er í raun og veru afleiðing af því, að ef þessar tvær brtt. í A-lið væru samþ., þá er rétt að breyta einnig tilsvarandi málsgr., sem B-liður er um. — Þegar frv. þetta kom fyrst fyrir flokkana, þá var þessi kafli frv. nokkuð á r:mnan veg heldur en nú og miklu ósanngjarnari á allar hliðar. Það var fyrir harðskeytta baráttu utan þessara þingsala, að þessum kafla hefur verið breytt þannig, að hann er nú, þrátt fyrir alla ágalla, miklu aðgengilegri en áður var. Hafa þar mestu um ráðið sterk rök þeirra manna, sem sáu, hver voði var fyrir höndum, ef frv. hefði verið samþ. óbreytt, og ekki sízt sá djúpi skilningur, sem hæstv. sjútvmrh. hafði á þessu máli, og sú barátta, sem hann hóf innan hæstv. ríkisstj. til þess að fá fram komið nauðsynlegum og sanngjörnum breyt. Veit ég, að þar hefur hann viljað koma meira fram, en fyrir ofríki þeirra manna, sem hafa haft um þetta allt annað sjónarmið, hefur honum ekki tekizt meira en rann er á, og hafa þar ráðið langmestu allt aðrar lífsskoðanir þess flokks, sem hefur það að kalla má á stefnuskrá sinni, að allir menn í landinu séu svo fátækir, að þeir eigi helzt ekki spjarirnar utan á sig. Í Tímanum hafa þessir menn lofað Guð fyrir það, að Íslendingar hafi enga milljónamæringa átt fyrir stríð. — Það, sem á hefur unnizt hér til umbóta þessu frv., er, að einmitt þeir aðilar, sem eru stoðir undir atvinnuvegunum, þeir hafa fengið mjög miklu meiri fríðindi en ætlað var í upphafi. Þetta mikla fé, sem tekið er með eignaraukaskattinum, átti að fara í framkvæmdasjóð allt, en um það hefur nú verið breytt ákvæðum frv., þannig að helmingurinn af því verður látinn renna í afla- og hlutatryggingasjóð. Þetta fékkst fram fyrir djúpan skilning hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. á þessum málum gegn vilja Framsfl. — Og hvað er svo framkvæmdasjóður ríkisins? Nú eiga menn að greiða atkv. um, að þessi mikli skattur eigi að fara að hálfu í framkvæmdasjóðinn. Hann var stofnaður 1942 með 8 millj. kr. tekjuafgangi frá 1941 og 3/5 hlutum af tekjuafgangi frá 1942. Hlutverk sjóðsins var að koma upp nauðsynlegum framkvæmdum, sérstaklega til þess að stofna nýjar framleiðslugreinar fyrir landbúnaðinn, svo sem til framleiðslu á áburði og fleira, sem landbúnaðurinn þyrfti til ræktunar landsins, og til þess að fjölga býlum í sveitum landsins, til að byggja verkamannabústaði, skipasmíðastöð, lýsisherzlustöð o.s.frv. Til hvers hefur svo þessum sjóði verið varið? Hve miklu af nýjum framleiðslugreinum hefur verið komið upp fyrir þetta fé? Bókstaflega engri. Það er búið að greiða 28 millj. kr. úr þessum sjóði til báta, en það er ekki ný framleiðslugrein. Og tveim millj. kr. hefur verið varið úr þessum sjóði til ýmislegs í sambandi við landbúnað. Hitt allt, það nýja og stóra, er eftir, en fé sjóðsins allt er upp étið. Og þó að þessar stóru fúlgur, sem hér er gert ráð fyrir, að renni í þennan sjóð, geri það, þá býst ég ekki við, að það verði annað en eyðslufé fyrir þjóðina, vitanlega eitthvað til gagns. Hins vegar, ef það tekst að borga helminginn af þessu í afla- og hlutatryggingasjóð, þá er ákaflega mikið unnið með því spori. En það hefur tekið harða baráttu að fá Framsfl. til að ganga inn á það.

Þá skal ég nokkuð ræða brtt. á þskj. 229 varðandi 6. gr. frv. Í 4. Tölul. 6. gr. frv. er ætlazt til þess, þegar reiknuð er út lokaeign, að skip verði reiknuð með kaskóvátryggingarverði. Þessi regla fyrir útreikningi er fjarri allri sanngirni. Það þarf ekki að vera um neina eign að ræða hjá manni, þó að hann hafi vátryggt einhvern hlut með einhverju verði. Og sérstaklega er það svo oft viðkomandi skipum, að það er krafa frá bönkunum um að hafa vátryggingarverð skipanna svo hátt sem hægt er til þess að tryggja bönkunum, að þeir fái skuldir greiddar, sem þeir eiga hjá eigendum skipanna, ef óhapp hendir. Þetta er svo frámunaleg regla, að eiga að reikna verð skipa þannig til eigna í þessu sambandi viðvíkjandi eignaraukaskatti, að ég er hissa á því, að nokkur skuli geta hugsað sér að reikna þennan skatt af þeim vátryggingarhluta á þessum skipum, sem fram yfir er raunverulegt verðmæti þeirra. — Ég hef því borið fram brtt. um, að þessu verði breytt þannig, að skip verði reiknuð á bókfærðu eignarverði, án tillits til vátryggingarupphæðar, enda hafi skattanefndir viðurkennt það mat skipanna við framtal.

Hér í 2 tölul. 6. gr. frv. er til tekið, að það eigi að reikna til eignar fasteignir, sem skattþegn hefur eignazt á árunum 1946 og 1947, með 500% álagi. En slíkt er ekkert grundvallaratriði í sambandi við eign manns, hvenær maður hefur eignazt eignina. Hér hefði í raun og veru ekkert átt að gilda annað en fasteignamat, nema kannske að einhverju leyti að taka tillit til þess, að fasteignamatið er ekki almennt miðað við sömu upphæð og eignarverðið. En þá hefði átt að hafa þann umreikning hóflegan og eins um allt landið. Nei, nú er allt annað eftir þessu frv., ef þetta ákvæði þess verður að l., að eiga eign í Reykjavík en í Fossvogi eða úti á Seltjarnarnesi gagnvart reikningi á fasteignum við þetta framtal. Þetta er ekki sanngirni, það sér hver maður. Ég hef lagt til, að þessu verði breytt þannig í 2. tölul., að ef skattþegn hefur eignazt fasteign árið 1945, 1946 eða 1947, þá skuli fasteignamatsverðið teljast með 400% álagi, og er þó boginn með því spenntur of hátt.

Það er líka óskaplega mikil fjarstæða, sem fram getur komið eftir ákvæðum þessara l., t.d. ef maður á eign, sem er 200 þús. kr. virði að fasteignamati í dag, og segjum, að hún sé ekki metin nema á 200 þús. kr. til lokaframtals. Svo selur hann eignina daginn eftir, og hann getur fengið fimmfalt eða sexfalt verð fyrir hana á við fasteignamatsverð. En hann er skattfrjáls með þessa verðhækkun, bara ef selt er eftir að búið er að meta eignina, og þá sleppur hann við eignaraukaskatt af þessu, nema ætlunin sé, að fram komi einhver nýr tekjuskattur í landinu og þetta væri byrjunin á því að ákveða, hvenær sem mönnum sýndist, nýjan eignaraukaskatt í landinu. Og þá eru það ekki bara þessir stóru menn, þessir glæpamenn, sem virðast vera álitnir, sem ekki hafa eytt öllu sínu fé, sem verða fyrir barðinn á Alþ. Þá yrðu það líka smælingjarnir og aðrir, sem nokkuð hafa á milli handa. Það er nú byrjað á þessari stefnu hér með söluskattinum, sem hér liggur fyrir. Og ef haldið væri langt út á þessa braut, þá færi það líkt og ef farið væri í fjós fátæks manns, sem ætti aðeins eina kú, og hún skorin niður í stað þess að láta hana mjólka. Það verður kannske sagt, að ég tali í þessu máli fyrir milljónamæringana. En þessi stefna er verst fyrir þá fátækari — nema menn ætli að stefna að því að koma öllum atvinnurekstri undir ríkið. En þá höfum við nærtækt dæmi, sem er Landssmiðjan, sem hefur verið stórkostlegur baggi á ríkinu öll þessi ár, sem hún hefur verið starfrækt, meðan önnur sams konar fyrirtæki rétt við hliðina á henni hafa blómgazt sem hinir stærstu skattþegnar. Það væri heldur huggulegt, ef ætti að koma öllum rekstri í landinu í sama horf og rekstur Landssmiðjunnar hefur verið í undanfarið. — Guð hjálpi þá verkalýðnum í landinu, sem þá ætti að sækja lífskjör sín undir þessa sömu menn.

Ég hef borið hér fram brtt. við 9. gr., þar sem segir: „Lífsábyrgð, útborguð í lifanda lífi, fallinn útborgaður arfur og dánargjafir skulu dragast að hálfu frá lokaeign.“ Ég legg til, að í stað orðanna „að hálfu“ í 2. málsl. komi: að fullu. Hvaða vit er nú í svona ákvæði? Hvers vegna ekki annaðhvort ekkert eða allt? Og lífsábyrgð, sem borguð er út í lifanda lífi, er ekki skattskyld, og úr því að hún hefur ekki verið skattskyld, þá er að sjálfsögðu engan veginn rétt að láta hana koma undir þennan skatt. Sama er náttúrlega með fyrirframgreiðslu upp í arf, það á ekki að koma undir þetta, það á að greiða af því fé erfðaskatt, en ekkert þar fram yfir. Ég hef því lagt til, að þetta falli niður. Þó er enn broslegra það, sem kemur næst í gr. Þar stendur: „Fyrirframgreiðsla upp í arf á árunum 1946 og 1947 leggist við lokaeign þess, sem greiðsluna innti af hendi, en dregst frá hjá viðtakanda, sem þó ber ábyrgð á greiðslu skattsins.“ Nú vil ég taka dæmi: Hugsum okkur mann, sem á 1600000 kr. og 6 börn og lætur 600000 kr. á árinu 1946 í fyrir fram greiddan arf til sinna barna, en heldur sjálfur eftir 1. millj. kr. Út á þetta á hann fyrst að greiða 145000 kr. fyrir þessa 1 millj., sem hann á, og 180,000 kr. í viðbót fyrir fé. sem hann ekki á lengur. Síðan færist þetta á þessi 6 börn, sem hvert hefur fengið 100,000 kr., og á að takast hjá þeim. Nú skulum við hugsa okkur, að þetta séu börn, sem eru að mennta sig og nota féð til að vera í erlendum skóla í 5–7 ár. Hann á að vera gjaldandi fyrir þetta hér. En til hvers er þetta gert? Er þetta gert til þess að geta tekið 180000 kr. af þessari eign í staðinn fyrir að taka 15000 kr., ef börnin greiddu það sjálf hvert um sig? Það er ekki óhugguleg meðferð þetta hjá hæstv. Alþ. Ég mundi ekki öfunda skattheimtumenn af því að ná slíkum gjöldum eins og þessum, ef þessi dæmi kæmu fram. Ég hef því lagt til að þetta félli niður.

Við 12. gr. hef ég lagt til, að aftan við gr. bætist ný málsgr., er orðist svo: „Í byrjun hvers mánaðar, eftir að verðlagsupphót hefur verið greidd í fyrsta skipti samkv. lögum þessum, skal útgreidd verðlagsuppbót lækka um 1 stig. Vinnuveitandi greiði þó, þar til öðruvísi verður ákveðið, verðlagsvísitölu á laun samkvæmt fyrirmælum 1. málsgr. þessarar gr. Mismuninum skal varið til niðurgreiðslu á neyzluvörum landsmanna fram yfir það, sem nú er greitt úr ríkissjóði.“ Ef það er alvara hjá ríkissjóði að koma niður dýrtíðinni í landinu, þá er það eina ráðið að fara inn á eitthvað, sem aftur fer að lækka dýrtíðina, en ekki eiga á hættu, að hún haldi áfram upp á við aftur. Eina ráðið er að lækka þannig annars vegar kaupgjald og hins vegar auka kaupmátt launanna með því að lækka vöruverð í landinu. Ég geri ráð fyrir því, að það verði kannske eins með þetta eins og margt annað, að það þyki ekki tímabært að ræða það nú, en mér þótti rétt að láta þetta sjónarmið koma fram, og það verður sjálfsagt tekin upp barátta fyrir því að stöðvast ekki hér, heldur halda áfram, þangað til náðst hefur samræmi milli atvinnuveganna annars vegar og kaupgjaldsins hins vegar.

Á þskj. 231 hef ég borið fram brtt. við 13. gr. um það, að taka skuli upp almennt 48 klst. vinnuviku án sérstakrar launahækkunar. Á þessum tímum hefur verkalýðurinn í landinu fengið samninga, þar sem vinnuvikan er ákveðin 48 klst. á viku eða 8 klst. á dag, en hjá ýmsum öðrum stéttum landsins er það ekki svo. M.a. hefur verið gefin út reglugerð, þar sem segir, að menn skuli ekki vinna nema (1 klst. á dag. En það er ekki af því, að þeir vinni ekki lengur, því að þeim eru gefnir 4–6 tímar í aukavinnu á dag með 50–100% hærri launum, og dæmi eru til um það, að kennarar, sem ekki vinna nema 24 klst. á viku — það hefur sýnt sig í fjárl., að þessir sömu menn hafa unnið aðrar 24 klst. á viku. Það er komið svo, að einn kennari við menntaskólann hefur yfir 60000 kr. í laun yfir árið, af því að hann vann meiri vinnu en reglugerðin ákvað. Það, sem er orðið eitt aðalmeinið í sambandi við dýrtíðina, eru vinnusvikin. Menn vilja ekki vinna fyrir þau laun, sem þeir hafa fengið, enda er það svo, að því var lýst yfir við fjvn. af forstöðumönnum einnar stofnunar, að þeir geti ekki fengið fólk til að vinna, fyrr en komin er eftirvinna. Það þarf ekki annað en að lita á póst og síma. Það var strax heimtað að fá reglugerð um það, að þessir menn skyldu ekki vinna nema 6 klst. á dag. En það er áreiðanlegt, að fólkið í landinu sættir sig ekki við það að eiga að vinna 48 klst. á viku og fá lækkuð laun, á sama tíma og aðrir fá tækifæri til þess að vinna aðeins 6 klst. á dag og halda að mestu leyti sínum launum og fá sínar uppbætur að auki á margvíslegan annan hátt. Það er meginatriðið í þessu máli, að það sé hafizt handa um að ráðast á þetta atriði, að koma í veg fyrir vinnusvik og heimta meiri afköst af fólkinu, en borga því sæmileg laun.

Ég hef hér einnig á þskj. 229 borið fram brtt. við 15. gr. frv., um, að á eftir orðunum „til þess að færa niður“ í upphafi 1. málsgr. komi: „útlánsvexti og.“ Hljóðar þá greinin þannig: „Verðlagsyfirvöld skulu þegar eftir gildistöku laganna gera ráðstafanir til þess að færa niður útlánsvexti og verð á hvers konar vörum o.s.frv.“ Ef allir aðilar í landinu eiga að fórna, og það finnst mér vera kjörorð í þessu máli, það er ætlazt til að eignamenn fórni stórkostlegum upphæðum, og er ekkert við því að segja, en þá eiga a.m.k. þeir, sem hafa breiðu bökin í þessu landi, að fórna, og það eru sannarlega bankarnir. Það er ekki hægt að krefjast þess, að útvegurinn, sem er að stöðvast af fátækt og á hvíla drápsklyfjar í vöxtum, m.a. má benda á einstök frystihús, sem hafa orðið að greiða á þessu ári á annað hundrað þúsund krónur í vexti, það er ekki hægt að krefjast þess, að þau fórni í þessu tilfelli, ef bankarnir vilja ekki fórna, þeir verða einnig að fórna einhverju af sínum vöxtum almennt. Fyrir stríð voru innlánsvextir 4%, þeir eru nú 11/2% og og sums staðar ekkert. Þá voru útlánsvextir 6%, nú 5%. Hvers vegna þessi mismunur? Ég veit, að það er talað um að hækka innlánsvexti. Hvers vegna? Af því að féð er flúið frá bönkunum, en það er ekki vegna framleiðslunnar, heldur fyrir aðgerðir Alþingis, eignakönnunina. Féð var ekki flúið áður. Það er eingöngu af umtali, að féð er flúið frá bönkunum. Það verður því að vera tvímælalaus krafa, að bankarnir, sem hafa grætt milljónir, og hafa sumir ekki farið betur með það fé en t.d. Búnaðarbankinn að reisa fyrir það milljónahöll, sem Framsfl. hefði einhvern tíma ásakað aðra fyrir, ef pólitísk aðstaða hans hefði verið sú, að hann hefði getað það, — að þessar stofnanir fórni einhverju af vöxtum sínum. (HermJ: Bankinn var húsnæðislaus.) Hann hefði ekki þurft að fara í slíka höll. Bankanum hefði verið nær að sinna þörf hænda og verja því fé til þess heldur en að leggja það í þessa byggingu. Hæstv. menntmrh. sagði hér í gær í útvarpsræðu sinni, að það hefði verið alveg sérstaklega Framsfl., sem hefði tekið að sér mikið björgunarstarf í gjaldeyris- og verðlagsmálum. Ég vænti þess, að hann taki að sér þetta björgunarstarf að sjá um, að vextir verði lækkaðir. Hann talaði um, að það ætti að láta endurskoða verðlag á öllum sviðum, það hefði verið gert mjög mikið að því og það yrði haldið áfram að gera það. Það væri þá æskilegt, að hann beitti sér fyrir, að uppfyllt yrðu þau loforð, sem hann gaf til þjóðarinnar í gær. Hann sagði, að höfuðverkefni núv. stjórnar, og þá sérstaklega Framsfl., væri að binda nú þann draug, sem hefði verið vakinn upp — dýrtíðardrauginn. Mér varð það á að spyrja: Var það fyrsta ólin til að binda drauginn að flytja inn 100 bíla til S.Í.S.? Ef öll reipi verða fléttuð úr slíku efni, þá fær hann áreiðanlega lengi að dansa, dýrtíðardraugurinn hér á Íslandi, og það mætti sjálfsagt segja um þá menn eins og einn af kommúnistunum sagði nýlega: Hvað varðar.þá um þjóðarhag?

Í b-lið sömu brtt. hef ég lagt til, að komi ný málsgr., sem hljóðar þannig: „Ef sannað verður, að verk, sem unnin eru í ákvæðisvinnu, eftir að lög þessi öðlast gildi, gefa verksala hærri launatekjur en 25% yfir gildandi grunnlaunataxta, að viðbættri verðlagsvísitölu samkv. 12. gr., skulu verðlagsyfirvöldin lækka greiðsluna niður í þá upphæð.“

Þetta er eitt af því, sem er mjög mikið mein í þjóðfélaginu í dag. Stéttirnar margar hverjar, m.a. bilstjórastéttin, múrarastéttin og ýmsar aðrar, hafa neitað að hlíta þeim samningum, sem gerðir hafa verið, — neitað að hlíta verðlagsákvæðum verðlagsstjóra og krafizt að fá að vinna verkið í ákvæðisvinnu og tekið fyrir það fjórfalt verð. Þetta er gersamlega óþolandi. Ef á að leggja hér byrðar á ákveðnar stéttir, t.d. verkamannastéttina og launþega, þá ber skylda til þess að laga þessi mál. Ég skal benda á eitt dæmi. Það hafa verið tekin stór skip til að flytja síld norður á Siglufjörð fyrir 5500 kr. á dag. Á sama tíma hefur síldarverksmiðjustjórnin orðið að beygja sig undir það að greiða 680 kr. fyrir einn bíl á sólarhring fyrir að flytja síld á milli skipa. Hvernig halda menn, að það sé hægt að bjóða þjóðinni þetta, á sama tíma sem verið er að skera niður laun verkamanna? Það er því alveg ófrávíkjanleg krafa til stjórnarinnar, að þetta mál verði lagað. Þetta fyrirkomulag er búið að kosta framleiðsluna hér í Rvík milljónir undanfarin ár. Þá er brtt. við 18. gr., að orðin „þó þannig, að ábyrgðin fari ekki fram úr 35 aurum á lbs.“ í 1. málsl. falli niður. Þetta átti aldrei að vera í frv. og er komið inn fyrir misgáning. Það er verið að ábyrgjast kr. 1.33 í frv. fyrir frosinn fisk og á ekki að vera nein takmörkun þar á frekar en á nýjum fiski. Það kemur ekkert málinu við, þó að kostnaður frystihúsanna sé meiri. Það er ekki greitt nema 1.33 fyrir pundið, en ef kostnaðurinn fyrir ríkissjóð verður meiri heldur en 35 aurar á pund, þá kemur það ekki frystihúsunum við. Það hefur aldrei verið ætlazt til, að það yrði þeirra tjón. Hitt er annað mál, að það eru engin líkindi til, að það verði. Þá er brtt. á þskj. 232, einnig við 18. gr., að í stað orðsins „ýsuflökum“ í 1. málsl. komi: lönguflökum. Einnig þetta orð er komið inn fyrir misgáning. Þegar samið var um það í fyrra, að gefa út þessa löggjöf, þá var ákveðið með reglugerð, að ýsuflök skyldu greidd miklu hærra verði, því að bolfiskur kostaði sama, en svo koma umbúðir, vinna o.fl., svo að það er óhjákvæmilegt fyrir frystihúsin að fá meira verð fyrir þetta, svo að ég geri ráð fyrir, að það verði að taka þetta til greina. Ég hef einnig óskað eftir að bæta aftan við gr.: „Ríkissjóður greiði ábyrgðarverðið eigi síðar en 3 mán. eftir, að varan er tilbúin til útflutnings.“ Kemur þetta vegna þess, að þegar ríkissjóður er raunverulega orðinn seljandinn, þá er ekki óeðlilegt að haga þannig til, að varan sé tekin a.m.k. ekki seinna en 3 mánuðum eftir að hún er tilbúin og greidd þá fullu andvirði. Skyldi þetta ekki takast, getur ríkissjóður hliðrað svo til fyrir þessi fyrirtæki, að þau fengju lánað út á þessa vöru allt að því ábyrgðarverð. En á því hafa verið mjög mikil vandkvæði á yfirstandandi ári, að bankarnir vildu lána út á ríkisábyrgðina. Þeir hafa að vísu lánað 60–80°% út á vöruna, en út á ríkisábyrgðina hafa þeir ekki viljað lána. Þessu þarf að kippa í lag, ef ekki verður samþykkt það, sem ég hef hér talað um.

Þá hef ég borið fram brtt. við 22. gr. á þskj. 229, að í stað orðanna: „og er ríkisstjórninni heimilt“ í 1. málsgr. komi: enda sé aðilum heimilt að selja vörur sínar sjálfir, ef þeir eiga þess kost að fá þannig hærra verð fyrir þær, og ríkisstjórninni. Eins og nú er, er svo að segja hver einstaklingur útilokaður frá því að selja vöruna. Það er með löggjöf á margvíslegan hátt hver einasti íslenzkur verzlunaraðili þvingaður út úr því að selja íslenzkar afurðir og þvingaður inn á að selja aðeins aðflutta vöru, sem er ákaflega óheppilegt fyrir þjóðina. Ég gæti lagt fram mörg dæmi um það, að einstaklingar hefðu getað náð betri tilboðum í vörur en ríkisstj., en ekki fengið að selja, og þeir hafa stundum háð harða baráttu við viðkomandi n. eða stjórn til þess að fá að selja, en stundum alls ekki fengið það. Ég veit, að hæstv. dómsmrh. hefur einmitt lagzt mjög mikið með því, að þessir aðilar fengju að selja fyrir hærra verð, en samt sem áður standa hér svo fast að ákveðnir aðilar, sem þykjast hafa einkarétt til þess að selja þessar vörur, að þeir hafa sagt, að þetta komi ekki öðrum við en þeim sjálfum, og hafa krafizt þess af ríkisstj., að hún gæfi opinbera yfirlýsingu um, að engum manni mætti koma til hugar að bjóða íslenzkar afurðir, hvað þá selja. En ef einstaklingar ná hæsta verði, þá er sjálfsagt að hafa svo rúmt þetta atriði, að þetta sé ekki bundið við einokun. Það er ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. á hverjum tíma vilji láta ákveða, að þessi vara skuli seld fyrir ákveðna mynt, en þá er hægt að segja: Við krefjumst, að þið seljið vöruna fyrir þetta verð, — en neita svo ekki viðkomandi aðila um að fá að taka hæsta tilboði. Slíkt siðferði sem hér tíðkast í verzlunarmálum getur ekki leitt til blessunar fyrir neina þjóð.

Þá er brtt. við 27. gr., að aftan við gr. bætist nýr málsl., er orðist svo: „Framlengingargjöld og stimpilgjöld af slíkum lánum greiði lánveitandi.“ Ég tel það algerlega óviðunandi fyrirkomulag, að víxlar séu framlengdir um 1–2 mánuði, þegar bak við það standa veð eins og framleiðslan, og viðkomandi aðili látinn borga vexti, síðan framlengingargjald og stimpilgjald til ríkissjóðs, vitandi það, að ríkissjóður verður að hjálpa þessum mönnum, og sé því sjálfsagður hlutur að haga þessu þannig. Þá mundi viðkomandi lánsstofnun hliðra sér hjá að vera að framlengja víxla þrítugasta hvern dag. Auk þess vil ég, að hér komi fram sá skilningur, að framleiðslulánin séu ekki eingöngu til sjávarútvegsins, heldur og til allra iðjuvera, sem standa í sambandi við sjávarútveginn, eins og t.d. frystihús, og yfirleitt til sjávarútvegsframleiðslunnar í heild. En ég hygg, að töluverður misbrestur hafi verið á, að þetta hafi verið þannig skilið. Sama er að segja um yfirdrátt í sambandi við togarasölur. Ég hygg, að bankarnir hafi reiknað fulla yfirdráttarvexti, þó að hér sé ekki um annað að ræða en rekstrarlán til útvegsins. Þessu verður að kippa í lag.

Við 46. gr. hef ég gert þá brtt., að gr. orðist þannig: „Söluskattinn er óheimilt að telja í kostnaðarverði vöru eða að taka á annan hátt tillit til hans við verðákvörðun. Er skatturinn frádráttarbær við ákvörðun skatta á tekjur.“ Þetta er raunverulega að setja á gamla veltuskattinn, eins og hann var, að því undanteknu aðeins, að nú er ætlazt til, að skatturinn verði frádráttarbær við ákvörðun skatta á tekjur. Það er ekki frambærilegt að setja þennan skatt á þjóðina, eftir að búið er að framkvæma ýmislegt, sem hér hefur verið gert. Það er fyrst og fremst rétt að setja skattinn á fyrirtækin. Hvað sem hver segir, eru það verzlunarfyrirtækin í landinu, sem hafa fleytt rjómann ofan af þessi ár, og hvað sem annars má segja á móti þessum skatti, þá er það víst, að hann hefur einn stóran kost. Hann þvingar viðkomandi fyrirtæki til þess að lækka rekstrarkostnað sinn, og þeir, sem ekki gætu gert það, yrðu áð fara út úr verzluninni. Þessi skattur á aldrei að vera greiddur af neinum öðrum en fyrirtækjunum sjálfum. Það á ekki að leggja hann á þjóðina. Ég fæ ekki séð, hvernig hæstv. menntmrh. ætlar að telja nokkrum manni trú um, að það séu rök, að veltuskatturinn gamli hafi verið skattur um 500 kr. á hvert heimili, en komi ekkert við þau nú. Það hafa alltaf verið falsrök, að skatturinn komi ekki á fólkið. Sá arður, sem greiddur er úr samvinnufélögunum, er tekjur fyrir fólkið, sem hefur bundizt samtökum um að verzla í ákveðnum verzlunarfélögum. Það eru því hreinar verzlunartekjur, og þeir, sem ekki eru meðlimir í félögunum, hafa engar tekjur af að verzla þar. Þarna er því m.a. verið að greiða gjald af því, sem aðrir keyptu. Hér er því lagt til, að skatturinn verði lagður á fyrirtækin. Ég hefði haft tilhneigingu til að ræða meira um þetta atriði, en hef lofað hæstv. forseta að stytta mál mitt og fer því ekki út í það.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum till. mínum og skal því láta máli mínu lokið að þessu sinni, en vonast til þess, að hv. fjhn. og hæstv. ríkisstj. sýni ekki þá þröngsýni í afgreiðslu þessa máls, að hér séu ekki sneiddir af verstu agnúarnir, sem eru á málinu, þeir agnúar, sem ég er alveg viss um, að verða til þess að skapa ríkisstj. miklu meiri örðugleika, ef hún lætur þá standa í frv., heldur en nokkur okkar, sem styðjum hana, ætlar, að þeir hefðu gert.