30.01.1948
Neðri deild: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef áður markað afstöðu mína í þessu máli. Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann væri þess ekki fýsandi. að till. væri samþ. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í þetta mál, heldur láta það bíða. Hv. frsm. fjhn., hv. þm. V-Ísf., hefur lýst því yfir, að hann álíti ekki rétt að samþ. till., og hæstv. viðskmrh. taldi, að þetta þyrfti ýtarlegri athugunar. Fyrst till. eru fram komnar, er þó rétt, að þær séu ræddar, því að þær eru ekki fram komnar án tilefnis.

Hvað vald fjárhagsráðs snertir, er vert að hafa það í huga, að Alþ. ber ábyrgðina á þeim l., sem það setur og ef fólkið er óánægt, á það að snúa sér til Alþ. og getur ætlazt til þess, að Alþ. bæti úr. Það er ekki hægt að skírskota til valds embættismannanna. Alþ. verður að skera úr um það, hvort þeir hafi þetta vald eða ekki. Ég verð að segja það, að ef þm. Ísaf. og hæstv. viðskmrh. álíta, að athuga þurfi málið ýtarlegar, gæti verið heppilegt að athuga það betur í fjhn. Hæstv. viðskmrh. þarf ekki að vera hræddur um. að frv. verði ekki samþ., þegar stjórnarandstaðan er með því óbreyttu, en fylgjendur stj. með því að breyta því.

Hitt er svo annað mál, að tími er til þess kominn, að Alþ. gefi gaum þeirri reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi fjárhagsráðs. Ég vakti athygli á því í fyrra, að rétt væri að athuga sum ákvæði l., t. d. skylduna á fjárfestingarleyfum, og benti á, að Rvík stjórnaði raunverulega þessum málum.

Hæstv. fjmrh. ítrekaði mína aths. og kvað fastar að orði en ég og hv. þm. A-Húnv. einnig.

Í fyrra var farið fram á nákvæmara eftirlit með fjárfestingunni en verið hefur nokkru sinni áður. Það þótti þá koma úr hörðustu átt, er við sósíalistar gagnrýndum þetta nákvæma kontrol. Eftirlit af þessu tagi hefur jafnan verið kennt við sósíalismann, og mér var það því áhugamál, að það yrði ekki óvinsælt, er því yrði komið á. Við vitum, að þegar byrjað var að ræða eftirlit með fjárfestingu, þótti það hættulegt fyrir þjóðfélagið, og það var talið sjálfsagt, að auðugustu einstaklingarnir gætu fest fé sitt eftir eigin geðþótta. Það, sem mestu varðaði í þessu sambandi. var þó það, að fjárstraumurinn skiptist ójafnt milli landshluta og leitaði fyrst og fremst til Rvíkur. Það var álit margra, að fjárstraumurinn beindist um of til Rvíkur og nauðsynlegt væri að beina honum meira út á land. Nýbyggingarráð vann veigamikið starf í þá átt, m. a. í sambandi við ráðstöfun togaranna til bæjarfélaga úti á landi. Ég hef ekki séð þess vott, að stj. og ráð hennar, er fara með völd, hafi haldið þessari stefnu áfram. Engin viðleitni hefur komið fram til þess að beina fjárstraumnum í réttari átt, fram yfir þær ráðstafanir, sem gerðar voru í tíð fyrrv. stj. Hins vegar hefur verið skapað skrifstofubákn og komið á strangari höftum varðandi verzlun og allar byggingar í landinu en verið hafa nokkru sinni áður. Og það hefur sýnt sig, að fólk utan af landi, sem þarf að fá fjárfestingarleyfi fyrir byggingum og í öðru lagi skömmtunarleyfi fyrir byggingarefni, það þarf að sækja þetta allt hingað til Rvíkur. Þetta er að gera fjölda manna úti um allt land nær því ókleift að notfæra það atvinnufrelsi, sem þeir eiga að hafa eftir stjskr. Og þetta er vissulega hlutur. sem Alþ. mun ekki hafa ætlazt til. Það mun ekki hafa ætlazt til þess. að þessar ráðstafanir mundu þýða meiri eða minni stöðvun á svo að segja öllum þorra framkvæmda, sem menn hugsuðu sér að gera. Nú er svo komið, að fjöldamargt af mönnum verður að gera sér ferð héðan og þaðan af landinu til Rvíkur til þess að tala við þá háu herra í fjárhagsráði og viðskiptanefnd um að fá að byggja sér hús, eða þeir verða að fá menn hér í Rvík til þess að vera fulltrúa fyrir sig, til þess að reyna að fá þetta í gegn. Og það hefur kveðið svo rammt að því, að þessi ráð, sem þetta mikla vald hafa fengið í hendur, væru umsetin af mönnum, að það hafa verið troðfullir gangar, þar sem menn hafa beðið eftir að fá að tala við þau, og þannig hefur verið setulið jafnvel upp á fleiri tugi manna, sem beðið hafa til þess að fá að tala við þessa menn. Og þeir hafa um svo og svo langan tíma neitað fólki um að fá að tala við sig. Menn. sem hafa komið utan af landi í þessum erindagerðum. hafa því orðið að bíða vikum saman til þess að fá árangur af sinni ferð, og oft ekki fengið erindum sínum af lokið. — Þetta er aðferð, sem er ekki hægt að bjóða mönnum upp á. Þetta þýðir líka fyrir okkur hér í Rvík. — sem höfum þó það fram yfir fólkið utan af landi í þessu efni, að við erum þó í sama bæ og þetta ráð eða þessar n. og bæjarbúar geta í bezta falli farið í sínum vinnutíma til þess að tala við þá, — að við Reykvíkingar getum sjálfir ekki komizt að, vegna þess hve þröngin er mikil af mönnum, sem bíða eftir því að fá að skýra þessum n. frá áhugamálum sínum. Það er því þannig í raun og veru, að þó að fólkið utan af landi, sem á undir þessar n. að sækja, sé nokkru verr sett en þeir, sem heima eiga í Rvík. þá er þetta líka stórkostlegur bagi fyrir Reykvíkinga. Og þetta er vafalaust ekki því að kenna, að mennirnir í þessum ráðum vilji ekki tala við fólkið, heldur er það svo, að ef þeir töluðu við fólkið eins og fólkið vill tala við þá, þá gætu þeir ekki gert neitt annað. Og þá er eðlilegt, að þeir loki að sér. Þetta þýðir, að búið er að skapa þarna bákn, sem er ofviða í framkvæmd. Þörfin er svo mikil fyrir fólkið að fá að tala við þessa menn, að með núverandi fyrirkomulagi á þessu geta þessir menn í þessum n. og ráðum ekki annað því. Þeir geta alls ekki komizt yfir það að rannsaka þarfir manna í slíkum efnum þannig, að það verði nokkur sanngirni í ályktunum þeim, sem þeir komast að. Það er því alveg óhjákvæmilegt að skapa þarna dreifingu þessa ráðs. Það ræður enginn við það, hvort sem um er að ræða meðalmann eða ofurmenni, að afgreiða þessi mál sæmilega, eins og nú er fyrirkomulagið á þessu. Þegar Alþ. sameinaði valdið svona á einum stað, þá verðum við að draga lærdóma af þeirri reynslu, sem fyrir liggur af þessu fyrirkomulagi, og breyta svo til, eftir því sem nauðsyn krefur. Það getur ekki gengið, að ýmsir bæir úti á landi fari að setja upp sendiráð hér í Rvík, sem séu stofnuð til þess að liggja hér við til þess að tala við þessar nefndir. Það kann að vera svo með ýmis fyrirtæki hér í Rvík. að þau geti haft forstjóra. sem geri lítið annað en tala við nefndir. En fyrir fólk úti á landi er ekki hægt að leggja í þann kostnað að hafa menn hér að staðaldri til þess að tala við þessa n. Það er óþolandi. En reynslan virðist benda til, að þetta verði þróunin. Á einokunartímunum hér var einokunarkaupmönnunum uppálagt að sigla skipum sínum á ákveðna staði á landinu. Og með þeim þrælalögum, sem þá voru, var mönnum ekki leyft að verzla við aðra staði en vissa verzlunarstaði, sem voru hver fyrir visst svæði af landinu. Nú er það þannig, að til þess að menn nái rétti sínum viðkomandi byggingum og atvinnu verða menn að koma til Rvíkur til þess að tala við eina nefnd hér. Það er engan veginn skemmtileg þróun, sem gerzt hefur í þessu. Og frá sjónarmiði þeirra, sem vilja koma á áætlunarbúskap hér á landi, þá er alveg ófært að láta þetta fara svona. Ég held þess vegna, að hér verði að verða breyt. á. Og það virðist líka vera svo, að fólkið úti á landi finni það skarplega til þessa vandræðaástands, að það láti skoðanir sínar um það í ljós alveg ótvírætt. Ég vil með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp eina samþykkt, sem gerð var snemma í desember í vetur, líklega 3. des. á fundi bæjarstjórnar Akureyrar einmitt út af gjaldeyrismálunum sérstaklega. Þar var þessi samþykkt gerð með samhljóða atkvæðum allra flokka í bæjarstjórninni, og það munu vera allir þeir flokkar. sem sæti eiga á Alþ. Samþykktin hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Akureyrar telur núverandi tilhögun á veitingu innflutningsleyfa og gjaldeyrisúthlutun óviðunandi fyrir allflest byggðarlög utan Rvíkur. Með núverandi fyrirkomulagi er bersýnilega að því stefnt að flytja til Rvíkur alla verzlun landsmanna. Er þegar svo komið, að fjöldi manna í öllum byggðarlögum verður að leita til smásala í Rvík um kaup á margs konar nauðsynjavörum sökum vöruskorts á staðnum. Af þeim ástæðum fer bæjarstjórn Akureyrar þess á leit, að þegar verði tekin upp sú regla að skipta innflutningi milli verzlunarstaða í hlutfalli við íbúatölu og þarfir hvers verzlunarsvæðis.“

Síðan er á þessum bæjarstjórnarfundi á Akureyri gerð önnur samþykkt viðvíkjandi flutningum til landsins. Og seinast í þeirri samþykkt er ákvörðun um það, að bæjarstjórnin felur bæjarráði eða nefnd með einum manni úr hverjum flokki að vinna að þessum málum við fjárhagsráð og ríkisstj. og Alþ., ef þörf gerist. — Þegar þessi samþykkt var gerð í bæjarstjórn Akureyrar, þá fylgdi eitt blað ríkisstj., Tíminn, þessu máli eftir með svo hljóðandi klausu meðal annars: „Með því ástandi sem hér er lýst, er verið að skapa stórkostlegt misrétti í þessum efnum. Það er enn verið að þrengja kost fólksins úti á landsbyggðinni. Það er í enn ríkari mæli en áður verið að draga verzlunina þaðan til Rvíkur.“

Nokkru síðar en þessi samþykkt var gerð í bæjarstjórninni á Akureyri barst hingað til Alþ. samþykkt frá bæjarstjórninni í Neskaupstað, þ. e. í bréfi 8. des. s. l., þar sem gerðar hafa verið líkar samþykktir því, sem ég las frá Akureyri. Vil ég lesa þær, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn Neskaupstaðar skorar eindregið á Alþingi að breyta fyrirkomulaginu um úthlutun erlends gjaldeyris í það horf, að hinir einstöku landsfjórðungar fái íhlutun um úthlutun hans í sem réttustu hlutfalli við framleiðslu hvers fjórðungs, enda séu þá sjávarafurðir taldar framleiðsla þess fjórðungs, sem viðkomandi fiskiskip eru heimilisföst í, þótt aflinn sé lagður á land í öðrum landshlutum. Telur bæjarstjórn sanngjarnt, að helmingur gjaldeyrisins skiptist milli fjórðunganna, en hinn helmingurinn gangi til sameiginlegra þarfa landsmanna.

Eftir að Alþingi hefur samþykkt þetta fyrirkomulag, telur bæjarstjórn, að stofnsetja verði gjaldeyrisnefnd í hverjum landsfjórðungi, skipaða fulltrúum bæjar- og sýslufélaga innan hvers fjórðungs. Hlutverk þessara nefnda yrði að skipta gjaldeyrinum milli hinna einstöku byggðarlaga og fyrirtækja og starfsgreina innan fjórðunganna.“ — Og það fylgir grg. með þessu frá bæjarstjórn Neskaupstaðar.

Síðar nú í byrjun janúar, barst svo hljóðandi ályktun frá bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórnin á Seyðisfirði lýsir hér með yfir eindregnum stuðningi sínum við ályktanir þær varðandi hlutdeild byggðarlaganna úti á landi í ráðstöfunum á nokkrum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar, sem gerðar hafa verið undanfarið af Fjórðungsþingi Austfirðinga, bæjarstjórn Akureyrar og bæjarstjórn Neskaupstaðar, og skorar á alla fulltrúa byggðarlaganna utan Reykjavíkur að flytja nú þegar á Alþingi frumvarp, og fylgja fast á eftir, um nýtt fyrirkomulag á gjaldeyrisverzluninni, sem tryggi byggðarlögunum utan Reykjavíkur sanngjarna íhlutun um ráðstöfun þess gjaldeyris, sem aflast fyrir starf fólksins í hinum dreifðu byggðarlögum landsins. Þá telur bæjarstjórnin, að meðan fjórðungs- og fylkisstjórnir hafa enn ekki verið settar á fót í landinu réttmætt, að stofnaðar verði úti á landi hæfilega margar gjaldeyris- og innflutningsnefndir, skipaðar fulltrúum bæjar- og sýslufélaga, til þess að úthluta þeim gjaldeyri og innflutningi, sem hverju landssvæði væri ætlaður.“ — Það er litlum efa bundið, að þær ályktanir, sem ég nú hef lesið upp, eru talaðar alveg út úr hjarta fólksins úti um allt land. Það er ríkjandi almenn óánægja með það fyrirkomulag í þessu efni, sem nú á sér stað. Og ég vil sérstaklega, einmitt sem þm. Reykv., lýsa yfir, að ég álít að það sé engan veginn í þágu alþýðunnar hér í Rvík, að hrúgað sé upp skrifstofum h´r, sem sitja fyrir hlut manna úti um land. Og ég veit og alþýðan úti um landið veit, að alþýðan hér í Rvík stendur með því, að komið verði upp slíku skipulagi, að landsmenn allir megi sem bezt við una. Það er hagsmunamál alþýðunnar hér í Rvík að fá skiptingu á þessu, en að ekki verði hrúgað hér í Rvík upp í þessu efni neinu skrifstofubákni. Ég held því, að Alþ. komist ekki hjá því að taka þessi mál til athugunar og komist ekki hjá því að afgreiða eitthvað um þessi mál. Ég kann ekki við, að menn hugsi ekki um þetta, þó að það sé á miðju kjörtímabili. Ég þykist vita, að þm. utan úr hinum dreifðu byggðum muni taka meira tillit til vilja kjósenda sinna rétt fyrir kosningar. Úr þessu þarf að bæta. Og ég er undrandi yfir því, að ekki skuli hafa komið till. um það frá fleirum en tveimur, fyrir utan menn úr flokki, sem ég tilheyri. Því að hér er um óviðunandi ástand að ræða, sem kemur að vísu niður á Reykvíkingum, en þó fyrst og fremst á fólkinu úti á landi. Ég fæ ekki betur séð en að sú breyt., sem hv. þm. Siglf. flutti í fyrra till. um viðkomandi gjaldeyrisúthlutuninni og var ekki tekin til greina þá og hv. 11. landsk. og annar hv. þm. flytja nú, eigi fyllsta rétt á sér og að ekkert sé í veginum með að láta framkvæma það. Ég veit, að nokkrir erfiðleikar eru á þeirri framkvæmd. En þeir eru þó ekki eins miklir og þeir erfiðleikar, sem skapaðir eru landsmönnum með þeirri aðferð, sem nú hefur verið höfð á þessum hlutum.

Viðvíkjandi undanþágunni frá fjárfestingarleyfi, sem hér er till. um, þá skil ég það vel, að þeir hv. þm., sem fyrst og fremst skoða sig sem fulltrúa sveitanna, komi fram með slíka till. um, þá skil ég það vel, að þeir hv. þm., sem fyrst og fremst skoða sig sem fulltrúa sveitanna, komi fram með slíka till. Það er kannske allra erfiðast fyrir bændur að eiga að fást við að taka sig upp og fara til Rvíkur og ganga í setulið hér til þess að bíða eftir að fá að tala við þá háu herra hér og fá eitthvað gert til þess að greiða fyrir, að þeir geti byggð sér hús. Það er kannske það helzta fyrir þá, ef þeir geta komið að einhverjum áhrifum í þessum efnum gegnum sína þm., til þess að fá einhverju áorkað án þess að taka sér sjálfir ferð á hendur. En það er langt frá því, að menn séu jafnir fyrir lögunum, ef þeir eiga að hafa einhver sérstök sambönd til þess að fá réttlátum kröfum framgengt, þó að ekki sé annað en að fá að byggja yfir sig.

En það er tvennt, sem þarf að athuga í sambandi við þetta. Í fyrsta lagi fjárfestingarleyfi, sem er það fyrsta, sem hver maður verður að fá, sem ætlar að byggja. Því næst þarf hann að fá byggingarefnisskömmtunarleyfi. Og ef hann er búinn að fá þetta tvennt og ef kaupfélag eða kaupmaður á viðkomandi stað hefur ekki byggingarefni handa honum, mun sá maður eða sá aðili þurfa að reyna að útvega sér gjaldeyris- og innflutningsleyfi. Og takist það, þá þarf þessi aðili enn fremur að fá sér gjaldeyri. Og þó að ekki sé talað um lán og annað, sem þessi aðili þarf að afla sér í því sambandi, þá er það nokkurs konar grindahlaup, sem þessir menn eða aðilar verða að fremja, ef þeir ætla að byggja yfir sig, eins og tíðkast á íþróttavöllum, þegar íþróttamenn þurfa að stökkva yfir svo og svo margar grindur, áður en þeir komast að marki. Ég hafði hugsað mér, þegar fjárhagsráð var sett á stofn, að þegar það veitti fjárfestingarleyfi fyrir einhverjum hlut, þá þýddi það það, að menn fengju skömmtunarleyfi og gjaldeyrisleyfi út á þetta. Ég sé hins vegar á þeim leyfum, sem ráðið útbýtir, að þegar það gefur út fjárfestingarleyfi, fylgir því enginn réttur til gjaldeyris eða skylda til að láta þann mann hafa gjaldeyris- og innflutningsleyfi, sem fjárfestingarleyfið fær, né efni til þess, sem fjárfestingarleyfið er veitt fyrir, eða annað slíkt. Það er þess vegna þannig, að meira að segja þó að þetta væri tekið upp með fjárfestingarleyfin eins og hv. þm. A-Húnv. leggur til og annar hv. þm. með honum, þá er næsta hindrunin eftir samt sem áður, byggingarefnisskömmtunarleyfið. Svo að ef þetta ætti að koma að einhverju gagni, sem þessir tveir hv. þm. leggja til, þannig að menn leystust undan þessu hindranafargani hvað þetta snertir, þá þyrfti að afnema skömmtunarleyfaskylduna í þessum tilfellum líka, sem þessir tveir hv. þm. tala um hér. Og þá er spursmálið um gjaldeyris- og innflutningsleyfin. Þannig er það um þau, að þau gilda ekki einu sinni þannig, að menn geti átt víst að fá gjaldeyri út á þau, þó að þeir hafi þau í höndum, og virðast það satt að segja vera einkennilegar ráðstafanir. Því að þó að menn hafi fengið þau, þurfa menn að fara þar á eftir til ákveðinna nefnda í bönkunum til þess að fá staðfestingu á því, að þau gildi. Og hv. þm. Ísaf. getur upplýst okkur um, hve mörg leyfin hafi verið staðfest.

Svona getur þetta ekki gengið. Ef fjárhagsráð á að vera æðsta ráð í þessu efni, þá hlýtur það, þegar það gefur út einhver leyfi, að eiga að vera gert þannig, að annað fylgi, sem tryggi, að þessi leyfi komi að gagni. Fjárfestingarleyfi þarf nauðsynlega að fylgja réttur til vörukaupa og gjaldeyris. En heldur en að hafa fyrirkomulagið á þessu eins og það hefur verið, þá væri betra að láta bankana ráða og vera einasta aðilann í þessu efni hvað þetta snertir, þó að mér sé nú annars ekki of vel við þá. Það verður að láta einn aðila hafa þetta vald. Það er ekki gott, ef menn eru búnir að stökkva yfir þrjár af þessum grindum í þessu hindrunarhlaupi, að þeir séu þá stöðvaðir við hina síðustu. Þessi margskipting valdsins getur ekki gengið í þessum efnum. Það verður að gera þarna á breyt. Þess vegna vil ég vekja eftirtekt þeirra manna, sem flytja þessa brtt. um ótakmarkað fjárfestingarleyfi hvað snertir sveitirnar, á að það er ekki nema rétt fyrsta grindin, sem tekin væri burt með því að samþ. þeirra brtt. Ég fæ því ekki betur séð en Alþ. verði að taka þessi mál til mjög raunhæfrar endurskoðunar. Svona ástand, eins og nú hefur verið undanfarið, er óviðunandi. Og ég verð að segja, að það virðist ekki vera þannig, að það sé aðeins um það að ræða, að það séu svo mikil vandkvæði viðvíkjandi efninu, að þess vegna þurfi að beita þessu leyfakerfi svo skarplega. Ég veit ekki betur en nú sem stendur sé allmikið til af byggingarefni í landinu. Ég veit ekki betur en það sé til allmikið af bæði timbri og sementi í landinu. Og ég hygg, að mönnum, sem hafa átt timbur og sement, hafi verið neitað um að nota það, án þess að neitt hafi verið gefið út um það, hvernig eigi að nota það. Og mér er nær að halda, að sumt af þessu byggingarefni, sem í landinu er, liggi undir skemmdum, vegna þess að það hefur verið stöðvuð notkun þess. Nú er það svo, að Alþ. hefur sett nefndir til þess að ráða þessu, og þær n. hljóta að eiga að standa A1þ. skil á grein fyrir sínum aðgerðum, leggja reikningsskil fyrir Alþ. um störf sín. Og svo er mælt fyrir í l. um fjárhagsráð, að það skuli hafa gert áætlun um allar framkvæmdir í landinu og um efni til þeirra, og ákveðið er, að þessar áætlanir liggi fyrir um leið og fjárl. eru lögð fram. En við erum ekki farnir að sjá mikið af þeim áætlunum. Það eina, sem Alþ. fær að vita um, eru kvartanir alls staðar að af landinu út af því, að menn hafa verið stöðvaðir í framkvæmdum og að stöðvunin sé svo eða svo mikil, sérstaklega í byggingarframkvæmdum. En enga áætlun höfum við séð, sem liggi fyrir um það, hvað meiningin sé að gera. Þetta er það alvarlegt mál, að það er ekki nema eðlilegt, að fólkið almennt í landinu krefjist þess að fá að vita, hvað þarna sé að gerast. Og ég efast ekki um það fyrir mitt leyti, að ef innflutningsnefndir væru víðar úti um landið, eins og lagt er til í brtt. á þskj. 281, þá mundi vera tekið meira tillit til krafna fólksins í þessu sambandi. Áhrifa fólksins úti á landi mundi þá meir gæta gagnvart slíkum n. Menn eiga óhægra með að koma slíkum málum fram við þá háu herra hér í Rvík. — Sannleikurinn er, að þetta fyrirkomulag, sem nú er um þessa hluti, hefur ekki aðeins komið hart niður á byggingarframkvæmdum í landinu, heldur einnig hefur það komið illa við iðnaðinn í landinu, sem fjárhagsráð og gjaldeyran. líka hafa valdið yfir að veita hráefni til. Það hefur verið undirstrikað, bæði af minni hálfu og fleiri manna, að það yrði að veita innflutningsleyfi, sem ætlað væri að kæmu að gagni, svo snemma að það væri a. m. k. 5 til 6 mánuðum áður en ætla mætti, að hráefnið kæmi að gagni hér, sem leyfið er fyrir, svo framarlega sem þessi atvinnurekstur ætti ekki að stöðvast. Það hefur ekki verið um þetta hirt sem skyldi. Samt held ég, að um það hafi verið gerðar mjög ákveðnar kröfur, t. d. af hálfu iðnaðarmanna og iðnrekenda í landinu. Og það hafa komið fram mjög ítrekaðar kvartanir um, að þetta hafi ekki verið gert. Ég hef hér fyrir framan mig Iðnaðarritið og nokkrar tilvitnanir úr samþykkt, sem iðnrekendur hafa gert í þessu sambandi. Ég veit nú ekki, hvort ég á að fara að lesa upp þau bréf öll saman. Ég get a. m. k. sagt frá þeim. Ég veit, að í júlí í sumar var af hálfu sambands iðnaðarmanna og Félags íslenzkra iðnrekenda farið fram á, að iðnaðarmenn fengju að hafa fulltrúa í fjárhagsráði eða þá nefndinni. En því var ekki sinnt. Þá var gerð samþykkt um að fá að hafa a. m. k. einhver áhrif á þetta. Nú, þetta hefur orðið þannig, að það hafa verið heimilaðar skýrslur, sem gerðar séu af iðnrekendum um það, hvað þeir vilji fá mikið af innflutningi. Og menn hafa gefið þær skýrslur. En hins vegar hafa svörin orðið heldur lítil. — Hér er blaðið Íslendingur, frá 21. jan. þ. á. Þar er stór fyrirsögn í fyrstu síðu á þessa leið: „Fyrirsjáanleg stöðvun iðnaðarins, ef ekki verður bætt úr hráefnaþörfinni.“ Síðan er skýrt í mjög ýtarlegri grein frá þeirri skýrslusöfnun, sem fram hefur farið um innflutningsþörf iðnaðarins, og sagt að iðnrekendur á Akureyri hafi ekkert svar fengið um það, hvort þeir megi vænta einhverrar úrlausnar um innflutning á hráefni. Í þessari grein er sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þann 15. jan. s.l. kom stjórn Iðnrekendafélags Akureyrar saman á fund til þess að ræða ástand það, sem skapazt hefur í flestum iðngreinum hér í bænum vegna hráefnaskorts. Nú er svo komið, að sumar verksmiðjur hafa þegar hætt störfum og fleiri munu neyðast til þess að hætta eða draga saman seglin að verulegu leyti, ef ekki rætist úr með innflutning á nauðsynlegu hráefni innan skamms.

Á fundinum kom fram megn óánægja yfir því aðgerðaleysi, sem virðist ríkja hjá þeim aðilum, sem með innflutnings- og gjaldeyrismálin fara. Sérstaklega vítti fundurinn þá þögn, sem verið hefur um þessi mál af hálfu fjárhagsráðs.“

Þetta er ekki áróður stjórnarandstöðunnar út af því, hvernig stj. standi sig, heldur blað stærsta stjórnarflokksins, sem kemur með svona harðvítugar ásakanir, og er þar tekið undir þær ásakanir, sem komu í öðru stjórnarblaði, Tímanum, og ástandið sagt óþolandi.

Ég hef hér nokkrar samþykktir um sama efni, en mun ekki tefja þingið á að lesa þær. Í blaði íslenzkra iðnrekenda eru einnig harðvítugar ásakanir, sem allar fara í sömu átt. Það er ómögulegt að láta svona miklar og tíðar kvartanir koma fram án þess að sinna þeim neitt. Og Alþ. hefur valdið í þessu efni. Alþ. hefur skipað fjárhagsráð og viðskiptan. Og að Alþ. á þjóðin fyrst og fremst að ganga. Við getum vel skilið, að þegar ástandið er orðið þannig, að fjárhagsráð og viðskiptan. hafa orðið að byggja um sig einhvern kínverskan múr til að forðast viðtöl við almenning, þá verði þau einangruð og viti ekki, hvaða óánægjuraddir eru uppi meðal þjóðarinnar. Ég álít, að þingið geti ekki gengið fram hjá þessu máli án þess að gera eitthvað verulegt til úrbóta.

Það hafa í þessu sambandi verið gerðar að umtalsefni þær reglur, sem innflutningsleyfum er úthlutað eftir. Það virðist, að það ár, sem þessi hæstv. stj. hefur setið, hafi ekki verið beitt neinum ákveðnum reglum og ekki heldur farið eftir þeim, sem áður var beitt. Þegar fjárhagsráð var stofnað, var gengið út frá, að þar væri myndað heilt nýtt kerfi. En þetta kerfi virðist ekki fungera, það virðist ekki ganga. Það virðist hafa skapazt stöðvun í öllum þessum hlutum. Af hverju? Það liggur ekki fyrir. Gjaldeyrisskorturinn er engin afsökun fyrir því að úthluta ekki í tíma þeim gjaldeyri, sem til er, til þess að tryggja, að þær vörur, sem flytja á til landsins, komi á réttum tíma. Það er enginn áætlunarbúskapur að úthluta ekki þeim gjaldeyrisleyfum, sem þarf að fá með 6 mánaða fyrirvara, fyrr en gjaldeyririnn er fyrir hendi. Það er útlit fyrir, að þetta þýði stöðvun meira og minna í atvinnulífinu. Þeir, sem slíkt gera, brjóta í bága við sjálf l., sem þeim ber skylda til að fara eftir, svo að maður tali nú ekki um, að brotið er í bága við heilbrigða skynsemi. Till. hv. þm. A-Húnv. gengur út á að höggva skarð í þetta kerfi. Hún er skiljanleg frá hálfu þeirra, sem hafa ekki mikla trú á slíku kerfi, þessu kerfi, sem átti að verða lyftistöng fyrir atvinnulíf og framkvæmdir, en verður farg.

Alþ. verður að athuga, hvað hér er að gerast, þegar það sýnir sig, að það kerfi, sem átti að vera lyftistöng, er farið að leggjast sem dauð hönd á atvinnulífið og bannar mönnum að koma upp nýjum atvinnutækjum, þó að þeir vilji gera það, þá er það skylda manna að hugsa sig um. Og þá er ekki undarlegt, þó að fram komi till., annars vegar um að afnema þetta kerfi og hins vegar til að reyna að bæta eitthvað úr.

Við verðum að gera okkur ljóst, að það er svo með hvert það kerfi, sem á að vera í atvinnulífi þjóðfélagsins, að það verður að vera einhver driffjöður. Meðan hið svo kallaða frjálsa framtak er aðalgrundvöllur atvinnulífsins, þá er gengið út frá því, að hver og einn geti brotizt og böðlazt eins og hann orkar. Af þessu leiðir svo og svo mikið skipulagsleysi í atvinnulífinu. En þetta svo kallaða kerfi hefur þó þann kost, að það er haldið áfram. Það er unnið, þó að það sé að mínu áliti unnið ópraktískt. Það fer mikið í súginn. En það er þó ákveðin driffjöður, sem heldur því gangandi og keppir að því, að atvinna sé hjá þjóðinni. En það kerfi, sem við sósíalistar höfum hugsað okkur, áætlunarbúskapur, er fjarri því að vera neitt í líkingu við þetta kerfi, þar sem allt stendur fast. Þeir menn, sem þessu stjórna, verða að hafa einlægan áhuga fyrir að hrinda nauðsynjamálum í framkvæmd, annars er þetta kerfi óhæft. Þetta kerfi er því allsendis óskylt þeim áætlunarbúskap, sem við sósíalistar viljum koma á, og við afbiðjum okkur, að það sé tengt við hugmynd sósíalista. Slíkt fyrirkomulag sem þetta er bláköld skriffinnska, framkvæmd af hálfu embættismanna, sem eru ekki fulltrúar þjóðarinnar, eins og sést á þeim kvörtunum, sem komið hafa frá öllum flokkum þjóðarinnar um þetta fyrirkomulag. Þess vegna er óhjákvæmilegt að gera þetta upp. Það verður að vera einhver drifkraftur í þjóðfélaginu. Þá er betra að fá eitthvert stjórnleysi en að það sé eins og dauður líkami.

Ég held, að það sé rétt, að Alþ. athugi við þessa umr. vel afstöðu sína til þessara mála, upplýsi, hvort menn vilja taka tillit til þess vilja þjóðarinnar, sem hefur komið fram hjá öllum flokkum í þessum samþykktum. Það verður að sýna í verki, að menn vilji gera þetta. Ég held, að það væri bezt, að fjhn. fengi þessar till. og umr. væri frestað á ný og síðan reynt að ganga úr skugga um, hvort ekki er hægt að fá meiri hluta fyrir ákveðnum breyt., sem gætu orðið til bóta. Ég held, að sú reynsla, sem fengin er, geri óhjákvæmilegt, að málið sé tekið til alvarlegrar athugunar. Ég vil þess vegna gera að till. minni, a. m. k. hafi aðrir nm. ekkert við það að athuga, að n. fengi að athuga þessar till. allar og umr. verði frestað á ný.