30.01.1948
Neðri deild: 49. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Finnur Jónsson:

brtt., sem meiri hl. fjhn. hefur lagt fram, gefur ekki tilefni til neinna almennra umræðna um fjárhagsráðsl. og raunar tæplega heldur þær 2 brtt., sem hér liggja fyrir til umr. En ég vil aðeins út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á þann mikla troðning og þröng, sem þessi lagasetning hefði haft í för með sér fyrir þá, sem þessi mál hafa með höndum, geta þess, að ég hef ekki orðið þess var sem fjárhagsráðsmaður. Í ráðinu eru viðtalstímar 3 tímar í viku, og a. m. k. þá tíma, sem ég hef verið til viðtals, hefur það sjaldan hent, að viðtölunum hafi ekki verið lokið á þeim eina klukkutíma. Lýsingar hv. 2. þm. Reykv. hvað átroðningi í fjárhagsráði viðvíkur eru þess vegna algerlega út í hött. Annað mál er það, að það má vera, að viðskiptanefnd verði fyrir allmiklum átroðningi, en starfssvið hennar hefur í rauninni ekki að neinu leyti verið breytt frá því, sem verið hefur mörg undanfarin ár. Hún afgreiðir innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, eins og hún hefur gert, og ekkert annað. Vera má, að þar sé um allmikinn troðning að ræða, en það stafar ekki af því, að valdsviði viðskiptanefndar hafi verið breytt, heldur af hinu, að vandi er orðinn mikill á höndum með gjaldeyri í landinu og þess vegna miklu erfiðara að fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi en verið hefur. Hv. 2. þm. Reykv. komst að vísu þannig að orði, að gjaldeyrisskortur væri engin afsökun fyrir því að ávísa ekki gjaldeyrisleyfum. en ég held, að viðskiptanefnd hafi ekki umboð til þess að ávísa á það, sem ekki er til.

Annars hefur bæði hv. 2. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. gert að umtalsefni, að enn sé ekki búið að taka ákvarðanir um leyfaveitingar á þessu ári, og mun það fyrst og fremst stafa af því, að tekin hefur verið upp ný regla um útgáfu leyfanna, þannig að leyfin eru flokkuð miklu meira en áður í samræmi við tollskrána, en áður var það svo, þegar t. d. gefin voru út leyfi fyrir vefnaðarvörum, að kaupa mátti hvaða vefnaðarvöru sem var út á þessi leyfi, en nú eru gefin út leyfi fyrir þær vefnaðarvörur fyrst og fremst. sem nauðsyn er á að flytja til landsins. Jafnframt þessu hefur svo viðskiptanefnd tekið upp þann sið að skrásetja og flokka leyfin eftir löndum, áður en þau eru gefin út, en áður var siður að framlengja öll leyfi sem gefin höfðu verið út. án þess að haldin hefði verið yfir það nokkur skrá. Nú er ætlast til að haft sé yfir þetta bókhald til þess að sjá, hve mikið er úti af leyfum í hvert skipti í hverju landi, og hefði vitanlega átt að vera búið að taka upp þessa reglu fyrir löngu síðan. — Þetta vildi ég láta koma fram út af aths. hv. 2. þm. Reykv.