06.02.1948
Neðri deild: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jónas Jónsson:

Ég hef ekki getað sannfærzt af ræðu hv. Þm. V-Ísf. (ÁÁ) um það, að ekki sé ástæða til að gera breyt. á valdi fjárhagsráðs, þegar um minni byggingar er að ræða. Það nefndakerfi. sem nú er verið að setja hér upp, er að verða plága á landsfólkinu. Ég mætti hér fyrir utan oddvita utan af landi. Hann gerði ráð fyrir að þurfa að vera mánuð hér í bænum, ef hann ætti að fá að tala við þær n., sem hann þarf að tala við. Þetta sagði hann ekki í spaugi. Núv. stj. er í þeirri hættu að verða ofstjórn. Ef svo er komið, að ekki sé hægt að byggja fjárhúskofa norður í Grímsey, svo að það þurfi ekki að athuga það hér í ráði í Rvík, þá er þetta orðið fjarstæða.

Ég held, að það hafi komið yfir okkur einhvers konar annarlegt eðli. Þó ekki sé nema það, að menn eru þannig stemmdir, að fjárhagsráðsmaður gat þess, að það hafi tekizt að festa 600 millj. kr. á einu ári. Slíkt gæti ekki komið fyrir jafngáfaða þjóð og Íslendinga. ef slíkt væri sjálfrátt. Það kom með svo miklum innileik, að nú væri búið að festa 250 millj., eins og búið væri að leggja hættulegan óvin að velli. Við getum ekki skilið, hvað var að þeim mönnum, sem gerðu okkur efnalaus á örstuttri stundu, en nú er komið að hinni hliðinni, að setja upp skömmtunarkerfi, ekki aðeins til að skammta stóra hluti, heldur líka litla hluti. Í Árnessýslu veit ég, að það er þannig, að oddvitinn á Selfossi. sem er kaupmaður, á að skammta byggingarefni handa öllum bændum í sýslunni og handa þeim, sem búa á Selfossi. Maðurinn hefur ekki sótzt eftir þessu. Hann hefur engan kunnugleika á því. Þetta hafa menn upp úr þessari oftrú á ofstjórninni. Það eru margir til, sem ekki kunna með þessa hluti að fara. Ég held því, að það sé rétt að ganga inn á þessa till. hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) og 2. þm. Rang. (IngJ). um að gefa frjálst byggingarefni til minni háttar framkvæmda, því að þetta getur aldrei orðið nema til vandræða fyrir stj. Ég var nú ekki andbanningur, en eitt af því,sem haft var á móti banninu á sínum tíma, var það, að Íslendingar þyldu ekki bann, og það kæmi mér ekki undarlega fyrir sjónir, þótt þetta eftirlit frá okkur hér í Rvík yrði þannig, að menn gætu ekki unað við það nema skammt. Og þá kynni það að verða svo óvinsælt, að menn vildu losna við þá, sem að kerfinu standa.