09.02.1948
Neðri deild: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

107. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því, að það frv., sem hér á að ræða, er á þskj. 164 og fjallar um eftirlit með flutningi peninga íslenzkra og erlendra frá og til landsins. Það hefur sumpart ekki verið rætt mikið um efni þess hér undanfarið, þótt fluttar hafi verið ræður langar um ýmislegt annað. — Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) flutti hér t. d. í dag mjög langa ræðu um ýmislegt, sem ekki er beinlínis viðkomandi þessu frv., þ. á. m. um áætlunarbúskap og hvernig ætti að framkvæma hann. Skal ég ekki fara langt út í þá sálma, en mér finnst hann satt að segja mjög einurðargóður maður, að hann skuli vera að tala um þessa hluti. — Það mun hafa verið árið 1911, sem sett voru á Alþ. l. um nýbyggingarráð. og samkv. þeim l. átti að skipa n., hvað gert var, er átti að sjá um framkvæmd þeirra. Aðalverkefni þessarar n. átti að vera það samkv. l. að semja heildaráætlun miðaða við 5 ár um nýsköpun atvinnulífsins. Það átti sem sagt að gera áætlun um það, hvað landsmenn þyrftu af atvinnutækjum, samgöngutækjum, byggingum og öðru slíku, og hv. 2. þm. Reykv. var einn af þeim, sem settust í þetta ráð. Ekki voru launin svo við nögl skorin til þessara húskarla fyrrv. ríkisstj., að þeir hefðu ekki getað sinnt þessum verkefnum af þeim sökum. Hv. 2. þm. Reykv. sat í þessu ráði í 3 ár, en þessi heildaráætlun hefur ekki sézt enn þá. Verð ég að segja það, að eftir þessa frammistöðu finnst mér hann einurðargóður að vera að tala um áætlunarbúskap.

Fleira hefur og borið á góma hér. Bæði hafa hv. þm. A-Húnv. (JPálm). hv. 2. þm. Reykv. og fleiri rætt almennt um viðskiptamál og fjárhagsmál. Þeim finnst ýmislegt athugunarvert við l. um fjárhagsráð og framkvæmd þeirra, og benda þeir á, að þær takmarkanir, sem nú eru t. d. á innflutningi byggingarefnis og fjárfestingarleyfa hjá ráðinu, geti valdið mörgum manninum óþæginda og geti einnig orðið til að stöðva ýmsar framkvæmdir, sem menn hafa viljað ráðast í. Ekki er því að neita, að vel getur orðið óhjákvæmilegt að fresta eða draga úr ýmsum framkvæmdum, þ. á m. byggingum, sem menn hafa hugsað sér að ráðast í, en það ætti ýmsum þm. að vera ljóst, ekki síður en öðrum, að þetta er m. a. afleiðing af því, að í tíð fyrrv. ríkisstj. var algerlega vanrækt að hafa nokkurt eftirlit með slíkum framkvæmdum eða stjórn á þeim, t. d. var byggingarefni eytt og það meira að segja í óhófi. Þetta ættu hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Reykv. að vita, því að þeir voru báðir mjög innarlega í búri hjá fyrrv. ríkisstj., og þeir og aðrir stuðningsmenn þeirrar stj. bera því ábyrgð á því, sem þá var vanrækt, og að fyrir þá sök þarf nú að setja strangari hömlur en annars hefði þurft að beita.

Hv. þm. A-Húnv. hefur ásamt hv. 2. þm. Rang. (IngJ) borið fram brtt. á þskj. 282, og fjallar hún um það, að ekki þurfi fjárfestingarleyfi til íbúðarhúsbygginga og útihúsabygginga í sveitum og kauptúnum með færri en 500 íbúa né annarra smærri framkvæmda. Það hefur áður verið á það bent í þessum umr., að ef þetta yrði samþ., gætu menn hagað sér eftir geðþótta með byggingarefni, sem þeir kynnu að ná í á þessum stöðum, og það tel ég, að ekki sé fært eins og nú er ástatt. Ég vil benda á það, að í l. um fjárhagsráð og einnig í reglugerð um fjárhagsráð, sem út var gefin 31. júlí s. l., er heimilt án fjárfestingarleyfis að byggja íbúðarhús til nota fyrir sjálfan sig eða skyldulið sitt, enda sé húsið ekki stærra en 350 rúmmálsmetrar og eigi óeðlilega mikið í það borið á neinn hátt og vinni húseigandi að byggingunni sjálfur með skylduliði sínu að mestu leyti. Enn fremur er heimilt að byggja verbúðir eða útihús á bújörðum, enda kosti framkvæmdir í efni og vinnu eigi meira en 50000 kr. Og loks er heimilt að gera mannvirki eða tæki, sem eigi kosta meira í vinnu og efni en 10000 kr. Þarna eru samkv. l., sem í gildi eru, gefnar undanþágur fyrir hinar smærri framkvæmdir, og vitanlega gildir þetta um allt land, eins og vera ber. Ég tel því ekki ráðlegt að samþ. till. hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Rang., þar sem slíkt ákvæði í l. mundi verka þannig, að kaupstaðabúar gætu ekki byggt hús handa sér án fjárfestingarleyfis í kaupstöðum, sem hefðu yfir 500 íbúa, en hins vegar væri þeim frjálst að byggja eins stór hús og þeim sýndist hvar sem væri annars staðar í landinu án slíks leyfis, og ef þeir t. d. keyptu jarðir uppi í sveit, gætu þeir reist þar heilar hallir yfir sig, eins og sumir munu hafa gert, meðan allt var eftirlitslaust í þessum efnum.

Það kom hér fram í ræðu hv. þm. Ísaf. (FJ). að hv. 2. þm. Rang., sem er 2. flm. þessarar brtt., hefði lýst yfir því, að hann væri fallinn frá þessari till. En kominn er maður í manns stað, því að hv. þm. S-Þ. (JJ) hefur lýst yfir fylgi sínu við till. og telur hér aðeins vera um smávægilega hluti að ræða, en eins og ég hef sýnt fram á, er langt frá því, að þetta nái aðeins til smáframkvæmda, ef brtt. yrði samþ.

Þá hefur verið borin hér fram önnur brtt., sem er frá hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og hv. 11. landsk. þm. (HermG). og fjallar hún um það að skipa 3 gjaldeyrlsn., þ. e. fyrir Norður-. Vestur- og Austurland. og tel ég, að hægt sé að samþ. þá till. eins og hún liggur fyrir. Ég tel fulla þörf á því, að betur verið á ýmsan hátt séð fyrir þörfum fólksins úti um land, og að vöruinnflutningi til landsins verði hagað nokkuð á annan veg en nú er, því að ég tel það nokkuð óeðlilegt, ef framhald verður á því, að allt að 90% af innflutningnum fari um Rvík. Um þetta hef ég áður rætt í sambandi við umr. um annað frv. um breyt. á l. um fjárhagsráð, sem mun vera 20. mál þingsins og enn hefur ekki fengið afgreiðslu.

Nú hafa borizt fregnir um það, að á morgun muni hefjast ráðstefna í Rvík, þar sem fulltrúar bæjarstjórna og hreppsnefnda utan af landi ætla sérstaklega að taka þessi mál til meðferðar. Mér finnst því ástæða til að beina því til flm. till. á þskj. 281. hvort þeim þætti ekki rétt að taka þessa till. aftur. Mér finnst ástæða til að veita því athygli, hvað kann að gerast í þessum málum, þegar ráðstefnan hefur lokið störfum, og vitanlega eru nægir möguleikar á að koma þessum sjónarmiðum á framfæri hér á þ., þótt till. sé núna tekin aftur. Og eins og ég minntist á, er hér annað frv. óafgr., 20. mál þ., sem gengur í nokkuð svipaða átt og þetta og mundi ef samþ. yrði, bæta úr ýmsum þeim ágöllum, sem nú eru á þessum málum. En að svo stöddu tel ég ekki ráðlegt að setja á fót þessar mörgu n. Vil ég í þessu sambandi benda á, að fjárhagsráð mun hafa umboðsmenn á öllum verzlunarstöðum utan Rvíkur, sem veita innkaupaleyfi fyrir byggingarefni til minni háttar framkvæmda í umboði fjárhagsráðs, t. d. innkaupaleyfi fyrir byggingarefni til þeirra framkvæmda, sem ekki þarf fjárfestingarleyfi fyrir, og einnig fyrir því efni, sem þarf til ýmissa framkvæmda, sem fjárhagsráð hefur veitt leyfi fyrir. Þetta álít ég hentugt fyrirkomulag og tel, að það ætti að haldast, því að það gerir það að verkum, að í mörgum tilfellum þurfa menn úti á landi ekki að leita til annarra en þessara umboðsmanna fjárhagsráðs, sem munu vera oddvitar eða hreppstjórar á hinum ýmsu stöðum. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, a. m. k. ekki að svo stöddu.