19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki fara mikið út í þetta mál almennt, enda þótt ástæða sé til þess. Þetta er 2. umr., og þá er mönnum ætlað að halda sér meira við einstakar gr. heldur en málið í heild.

Ég flyt hér nokkrar brtt. á þskj. 230, og þær eru nú fram settar til þess að sýna í aðalatriðum, hvernig ég hefði heldur óskað, að þetta væri í frv. En þó er það svo, að nokkru fleira hefði ég viljað breyta en hér er fram tekið, og mun ég kannske gera það við 3. umr., ef ég sæi, að einhverjar af þessum till. mínum næðu fram að ganga.

Það gæti nú verið ástæða til þess að svara einhverju af því, sem hv. þm. Barð. sagði, en þó vil ég láta hjá liða að svara því, þar sem hv. frsm. n. mun gera það. Ég vil aðeins benda honum á þann reginmun, sem er á samvinnufélögum og öðrum félögum í landinu. Samvinnufélög safna sjóðum, sem eru eign viðkomandi héraða um tíma og eilífð og ekki er hægt að gera neitt við, eins og oft er gert við ýmsa sjóði annarra félaga.

Hvað mínar brtt. snertir, þá er sú fyrsta við 2. gr., og er hún í mörgum liðum. Það er fyrst og fremst, að nú er gert ráð fyrir í frv., hvað gert verði við þann skatt, sem lagður er á samkv. II. kafla og kallaður er eignaraukaskattur. Ég vil fella þau ákvæði burt þar, en taka þau upp í annarri mynd síðar í frv. Ég kem að því, þegar sú brtt. mín kemur fyrir, sem er seinust.

2. brtt. er sú að fella það burt úr gr., að Eimskipafélag Íslands hafi skattfrelsi. Það er nú svo, að þótt það megi segja, að Alþ. og þeir, sem hér eru, hafi ráðið mestu um að hleypa dýrtíðinni af stað, þegar ákveðið var að greiða 100% vísitölu á kaupgjaldið, þá er þar næst Eimskipafélagið, sem með okri sínu á farmgjöldum hefur hleypt verðlaginu upp, og það á ekki að sleppa við þennan aukaskatt. Ef nokkuð væri gert, þá ætti að láta það fá hærri skatt en alla aðra í landinu fyrir þetta okur á farmgjöldum og hvernig það hefur notað aðstöðu sína hér til að græða sjálft og láta dýrtíðina þjóta upp í landinu.

Þá legg ég til í þriðja lagi undir e-lið, að eignaraukaskattur, sem lagður er á eignaraukningu yfir 1 millj., sé 40% í stað 30%. Þeir, sem hafa grætt 2 millj. á þessum árum, eiga þá eftir 11/2 millj. kr.

Síðasta brtt. við 2. gr. er á þá leið, að í staðinn fyrir að láta eignaraukaskattinn hjá þeim, sem stunda sjávarútgerð, samvinnufélögum og einstaklingum, vera í tveimur „skölum“, sem eru 5–10%, geri ég ráð fyrir einum „skala“ með 5%.

Næsta brtt. er við 3. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að ef maður hefur haft „negatíva“ eign í byrjun tímabilsins, 1. jan. 1940, þá sé hann settur á = 0, þ. e. enga byrjunareign. Ef hann er búinn að borga upp „negatívu“ eignina og er svo í gróða, þá á hann samkv. minni till. að borga af öllu, líka því, sem hann hefur varið til að borga gamlar skuldir. Þetta var við 3. gr.

Það er um grundvallarmismun að ræða í II. kafla, enda felli ég niður bæði 5.–6. og 7. gr. Ég byggi á því, eins og eignaraukaskatturinn er hugsaður í l., að þá er í fyrsta lagi mjög erfitt og flókið að finna hann. Það þarf að fara í gegnum framtöl manna öll árin frá 1939 til 1948 og það líka meðtalið, því að ekki er bara tekin lokaeignin, eins og hún er, heldur eins og hún gelur verið vegna kaupa á tímabilinu. Ég geri þetta auðveldara og gef lokaeign upp eins og hún er í lok tímabilsins. Ég vil láta skattanefnd meta lokaeign í hverju umdæmi. Eins og nú er gert ráð fyrir í l., þá er það eignakönnunarnefnd ein, sem gerir allt saman. Það er að vísu vikið að því á tveimur stöðum, að skattan. eigi að hafa með höndum viss möt, en ekki safna framtölum eða koma þeim á framfæri. Það er ekki einn stafur um það í l. Ég vil láta skattan. í einstökum umdæmum framkvæma þetta eftir ákveðnum reglum og halda áfram að meta fasteignir með fjórföldu fasteignamati. Fasteignir eru viða seldar með hærra verði, allt upp í tifalt. - Ég tel ekki, að miða eigi við það,heldur það, sem við getum hugsað okkur, að verði stöðugt, þegar allt er komið í eðlilegt ástand í landinu. Það má deila um, hvort það á að vera fjór- eða fimmfalt, en ég er þarna með að hafa það fjórfalt. Ég vil ekki sérstaklega íþyngja mönnum. Ég veit, að það er fjöldi manna, sem kemst í skattinn, sem ekki mundi vera annars. Tel ég sjálfsagt, að hús, sem metið er á 50 þús., yrði þá 200 þús. Húsin yrðu þá meira virði, ef seld yrðu, heldur en áður og því meira virði að krónutali heldur en áður var. Með þessum eignaraukaskatti, eins og ég hef hugsað mér hann, kemst undir hann heill hópur af mönnum, sem ekki kæmust undir hann eins og hann er í frv. Þar að auki er hann auðveldari í framkvæmd eins og ég hugsa mér hann heldur en hann er í frv.

Ég tek svo fram í þessari gr., að skip skuli metin á vátryggingarverði, og tel ekki koma til mála að meta skipin á því verði, sem er bókfært í reikningum eiganda. Hann hefur fengið að skrifa svo niður nú síðustu árin, að það er ekkert hóf á. Hann má afskrifa skipin niður í eins árs afskrift. Það eru ekki fá skip, sem geta ekki afskrifað sig meira, af því að þau eru komin niður í það verð. Hins vegar eru þau seljanleg fyrir miklu hærra verð. Þessar afskriftir hafa komið fram fyrir þá breyt., sem Björn Ólafsson gerði á sínum tíma, aðallega vegna nýrra skipakaupa, sem þurfti að afskrifa fljótt. Þeir hafa líka fengið í l. að fá til frádráttar, ef þeir hafa þurft að láta gera við skipin, og þannig getað lækkað svo, að skipin hafa farið niður í reikningsverð, sem kemur ekki til neinna mála. Þá er enn fremur tekið fram, að vörubirgðir skuli vera með kostnaðarverði og aðrar eignir með gangverði = 30%, sams konar mínus og var yfirleitt á fasteignum, þegar þær voru metnar árið 1939. Þá voru þær 65–70% af því, sem þær seldust fyrir. Ég tek svo fram, að ég ætlast til, að skattan. í hverju umdæmi framkvæmi þessi framtöl og geri upp lokaeign manna, svo og að þeir geti kært og fengið það leiðrétt, en hvergi er gert ráð fyrir því í frv., heldur eigi þeir bara að sætta sig við það.

5., 6. og 7. gr. legg ég til að fella niður, en vil gera smábreytingu við 9. gr., sem ég hef beðið n. að athuga vel. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að verða ágreiningur um hana. Hún er um breyt. á því, hvernig orðuð er síðasta setningin í 9. gr., þannig að á eftir orðunum „einstakra manna“ bætist: á árinu 1947. Þetta er um gjafir til einstakra manna, sem nema meira en 1000 kr. Til hvers er þá að eiga þær, ef þær leggjast ekki við eignir mannsins, sem fékk þær, heldur þess, sem gaf? Nú vil ég spyrja þá, sem hafa samið þetta frv., hvernig þeir hugsi sér, að eignakönnunarn. fari að, ef einhverjum 60 ára manni hefði verið gefið gullúr kannske af mörgum. Ætlar hún þá að reyna að finna, hvað hver einstakur gaf í því? Það er fyrir sig að reyna með síðasta ár, 1947, til þess að komast hjá því, að menn síðustu daga ársins fari að gefa sínum vandamönnum til þess að losa sig undan að lenda í eignaraukaskattinum. Ég get nefnt annað dæmi. Það voru hjón, sem giftu sig í fyrra og bjuggu heima hjá foreldrunum. Það var ótalmörgum boðið, og var ætlunin að gefa þeim húsgögn í stofu, en af því að þau gátu ekki fengið innbúið, var horfið frá því og skotið saman peningum, og voru þeim gefnar 40 þús. kr. Hver vill taka að sér að rekja, hvað hver gaf, og færa það hjá honum, en ekki hjá þeim, sem þáðu? Þetta er alveg óframkvæmanlegt, og enginn tekur það að sér að hnýsast eftir þessu, alls enginn.

6. brtt. er við 11. gr., en hún er um það, að lokaeign skuli gerð upp af skattan. og skattstjórum í hverju umdæmi. Það getur verið, að tímatakmörkunin til 1. júlí 1948 sé of naum. Ég get búizt við því, að þar sem málið er ekki fyrr á ferðinni en þetta og þar sem eignakönnunareyðublöðin eru ekki gerð með það fyrir augum að fá þær upplýsingar, sem þarf, þá sé vafasamt, hvort ekki þarf að búa til ný eyðublöð, og þá get ég vel búizt við því, að þetta tímabil sé of stutt. Ef til vill getur eignakönnunarn. ekki verið búin að reikna út skattana og athuga, hvað hann verður í hverju einstöku umdæmi, fyrr en í október.

Þá kem ég að III. kafla í þessum h Þar er gert ráð fyrir því að festa vísítöluna, sem megi borga kaup út á. Þetta er gert í þeim tilgangi að létta kaupgreiðslu á atvinnuvegum landsmanna. Það liggur í hlutarins eðli, að ef grunnkaup hækkar um það, sem þessu nemur, þá kemur sú lækkun, sem hér er átt við, ekki að neinu gagni fyrir atvinnuvegi landsins. Þess vegna legg ég til, að ný gr. bætist þar inn í, sem banni hækkun á grunnkaupi á árinn 1948. Ég tel það nauðsynlegt, ef l. eiga að koma að tilætluðum notum, vegna hinna sífelldu kauphækkana nærri því mánaðarlega undanfarin ár. Ég veit vel, að þessi grein á ekki frekar en aðrar brtt. mínar fylgi að fagna hjá ýmsum, þó að allir sjái og viðurkenni, að eigi sá tilgangur að nást, sem ætlazt er til með frv., þá er þessi grein nauðsynleg.

8. brtt. er við 15. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir, að nú er ætlazt til, að ríkisstj. geti með reglugerð lækkað húsaleigu allt að 10%, þá geri ég ráð fyrir, að húsaleigan megi lækka um 20% frá því, sem nú er. Það er tífalt hærri húsaleiga, sem borguð er sums staðar, heldur en þar, sem borgað er minnst. Ég tel, að þeir, sem leigja í þeim húsum, sem hátt eru leigð, geti tekið á sig meiri byrði heldur en 10% lækkun á sinni húsaleigu og það sé óhætt að hafa þessar tölur 20% minnst.

Þá er það við IV. kafla. Grundvallarmunur milli mín og frv. byggist á því, að ég vil ekki láta ríkissjóð taka neina ábyrgð á vöruverði, en í staðinn vil ég láta ríkissjóð fá heimild til að verðbæta þær að ákveðnu verðmarki. Höfuðmismunurinn liggur í þessu, að ég vil láta ríkissjóð hafa leyfi til að verðbæta vörur, ef þær seljast ekki fyrir það verð, sem er tiltekið í greininni, en ekki ábyrgjast verðið. Í því sambandi skal ég geta þess, að ef inn á það sjónarmið yrði farið, þá mundi ég bera fram brtt. við 21. gr., sem ég hef ekki gert till. um á þessu skjali. Það þarf að koma inn í gr. föstu verði eins og með fiskinn og heimild til bóta, en ekki eins og gr. er nú.

Um V. kafla, sem er um aðstoðarlán til útvegsmanna, hef ég ekki gert neina brtt. Ég vil þó segja það, að ég tel það vafamál, hvort síldarútvegsmenn muni þurfa á aðstoð að halda, og efast um, hvort sú aðstoð kæmi að fullu gagni. Ég held það hafi ekki verið athugað, hvort ekki væri eins gott að gefa þeim eftir lán frá því í hittiðfyrra. Það réttir þá frekar af heldur en að taka ný lán og standa undir þeim. Ég hef ekki gert við þetta neina brtt. Það er nú svo með ýmis stærstu mál þingsins, að þeim er hraðað svo, að það er varla tími til að skrifa brtt. á milli umr.

Við VI. kafla hef ég ekki flutt brtt., en flyt aftur á móti gagngerar brtt. við VII. kafla. Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir að leggja á söluskatt, sem liggi á verzluninni, iðnaðinum og ýmsum fyrirtækjum, sem hafa menn í sinni þjónustu. Með þessu móti á að finna fé til þess að standa undir þeim ábyrgðum, sem á ríkissjóð kunna að falla vegna útflutningsafurða, er seljast undir ábyrgðarverði. Mér er illa við þennan skatt og vil taka féð á annan hátt, sem ég legg til í 15., 16. og 17. brtt. minni. Þar legg ég til, að í stað söluskattsins komi gjaldeyrisskattur, sem nemi 8% af öllum gjaldeyri, sem seldur er í landinu. Þessi skattur yrði mjög léttur í innheimtu, því að ég geri ráð fyrir, að bankarnir innheimti skattinn, um leið og þeir selja gjaldeyrinn, og skili skattinum síðan til ríkissjóðs, og sé þeim að öðrum kosti óheimilt að selja gjaldeyrinn. Nú geta komið til landsins gjafavörur og vörur, sem menn hafa keypt utanlands fyrir gjaldeyri, sem þeir hafa smyglað út úr landinu. Legg ég því til, að tollyfirvöld skuli ekki afgreiða neinar vörur úr tolli, fyrr en þau hafa sannfærzt um, að af þeim hafi verið greiddur gjaldeyrisskattur. Hafi skatturinn ekki verið greiddur, skal áætla verð varanna, og skal þá viðtakandi greiða gjaldeyrisskattinn til tollyfirvaldanna. Þá legg ég til, að vöruverð megi aðeins hækka um helming skattsins, eða 4%, við það, að skattur þessi er lagður á. Samkv. frv., eins og það nú liggur fyrir, virðast mér byrðarnar, sem lagðar eru á verzlunarstéttina, nánast engar, en með því að láta hana bera helming gjaldeyrisskattsins, fengi hún líka sinn bróðurpart.

Þá hef ég lagt til, að tekinn verði í lögin nýr kafli, um verðuppbætur. Legg ég þar til, að því fé, sem inn kemur samkv. VI. og VII. kafla þessara l., skuli varið til að verðbæta útfluttar vörur og greiða niður vöruverð. Enn fremur, að þeim tekjum, sem ríkissjóður fær vegna eignaraukaskattsins, verði varið til að efla þá sjóði, sem sérstaklega er ætlað að lána ódýr lán til framleiðslunnar, og skulu tekjurnar skiptast milli þessara sjóða eftir því, er Alþingi síðar ákveður. Ég þarf ekki að útskýra fyrir hv. þm., hvernig ástand hinna ýmsu sjóða, sem lána eiga til framleiðslunnar, er nú. Það er ákveðið í l., að stofnlánadeildin eigi að lána til sjávarútvegsins, en stofnlánadeildin er nú tóm. Það er ákveðið í l., að lána megi manni, sem byggir í sveit, allt að 75% af byggingarkostnaðinum. Búnaðarbankinn á að afhenda þessi lán, og ríkissjóður á að greiða bankanum, en hefur ekkert greitt. Það er enn fremur ákveðið í l. að lána byggingarfélögum í bæjum og kauptúnum. Ekkert fá þau. Þá er enn ákveðið að lána bændum, sem byggja útihús eða rækta, og þessi lán á ræktunarsjóður að veita. Ríkissjóður átti að borga ræktunarsjóði 1/2 millj. kr. á þessu ári og 10 millj. kr. í stofnfé, en hefur ekkert greitt. Milli þessara lánsstofnana vil ég, að Alþingi skipti eignaraukaskattinum.

Þá hef ég í aðalatriðum gert grein fyrir brtt. mínum, og skal ég því ekki lengja mjög mál mitt, en vildi bæta því við, að ég tel alveg nauðsynlegt, að í frv. séu einhver ákvæði frekari en nú er um það, hvernig menn eigi að hegða sér, ef mönnum þykir einhver af þeim sköttum, sem nú er lagður, vera ranglátur. Þeir þurfa þá að geta fengið það leiðrétt og þurfa að vita, hvernig þeir eiga að bera sig að því. Ég hafði hugsað mér að bera fram um þetta ákveðnar brtt. við 3. umr., og hef nú gert hreint fyrir mínum dyrum með því að benda á þetta. Ég mun nú ljúka máli mínu, og býst ég ekki við að tala aftur í þessu máli. Ég vil taka það fram, að ég tel alveg nauðsynlegt að festa verðbólguna, og það er gert með þessu frv. og er spor í rétta átt. Það er einnig nauðsynlegt að hjálpa sjávarútveginum. Það er líka reynt með þessu frv., en ég tel, að betur hefði mátt fara að. Og ég tel mikla vöntun, að grunnkaup skuli ekki fest, því að án þess geta allar þessar dýrtíðarráðstafanir orðið að engu og allt runnið út í sandinn.