12.12.1947
Neðri deild: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (2580)

109. mál, stríðsgróðaskattur

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins mega tala um þingsköp. Ég verð að segja það, að mér finnst það einkennilegt af hæstv. forseta að gefa ekki flm. frv. tækifæri til þess að mæla fyrir málum hér. Ég held, að það sé fátítt, að þegar flm. máls er staddur í þinghúsinu, þá sé honum ekki gert aðvart, áður en mál, sem hann flytur, er tekið fyrir til meðferðar á þingfundi. Ég vil láta það í ljós við hæstv. forseta, að ég tel það fáheyrð vinnubrögð. Máli þessu hefur nú að vísu verið vísað til n., en ég vil vænta þess, að þar sem hæstv. forseti hefur haft þessi vinnubrögð, þá endurskoði hann þessa ráðstöfun. Ég hafði ekki vænzt þess, að hæstv. forseti beitti slíkum brögðum hér, og ég hef ekki átt því að venjast af honum, að hann geri það.