26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

121. mál, Reykjavíkurhöfn

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar sett voru hin almennu hafnarlög 1946, voru felld niður öll önnur l. um hafnargerðir og lendingarbætur. Meðal þeirra l., sem úr gildi voru felld, voru hafnarlög fyrir Reykjavík. Við framkvæmd þessara l. kom í ljós, að hin nýju ákvæði hentuðu að sumu leyti ekki vel og að með afnámi sumra ákvæða hinna gömlu sérstöku hafnarl. fyrir Reykjavík höfðu verið felld úr gildi nauðsynleg ákvæði. sem ekki voru tekin upp í nýju almennu hafnarlögin. Sérstaklega eru það tvö atriði. sem hér koma til greina. Fyrst að samkvæmt hafnarl. Reykjavíkur átti Reykjavík lögveð fyrir skipagjöldum. Þetta féll niður í hinum almennu hafnarl., og hefur það orðið höfninni að nokkru tjóni. Þetta ákvæði um veð fyrir skipagjöldum telur hafnarstjórnin í Reykjavík nauðsynlegt að taka upp í l. — Hitt atriðið, sem niður var fellt, var heimild hafnarinnar til þess að taka gjöld af mannvirkjum, sem eru í eigu annarra heldur en hafnarinnar sjálfrar. Hér kom því annaðhvort til greina að flytja frv. um hafnarl. fyrir Reykjavík eða frv. um breyt. á hinum almennu hafnarl. í þessa átt, sem ég nú hef getið, en það þótti að sumu leyti óeðlilegt, því að þá hefðu þessi ákvæði átt framvegis að gilda um hafnir, sem þau hefðu ekki gilt um áður, vegna þess að Reykjavíkurhöfn hafði að þessu leyti haft sérstöðu. Eftir athugun þótti því réttast að flytja frv. til sérstakra l. um Reykjavíkurhöfn, og það frv. liggur nú hér fyrir.

Í það eru tekin upp í meginatriðum gömlu hafnarl. fyrir Reykjavík og enn fremur ákvæði hinna almennu hafnarl. Frv. þetta er flutt að ósk hafnarstjórnar Reykjavíkur af mér og sex öðrum hv. þm., sem eru þm. Reykv., sem sæti eiga í þessari hv. þd. Í grg. frv. er lýst ýtarlega þeim breyt., sem hér á að gera, svo að ég álít ekki þörf á að fara út í þau atriði, en óska að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.