16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

121. mál, Reykjavíkurhöfn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Eins og rakið var við 1. umr. þessa máls, eru ástæðurnar fyrir því, að það er fram borið. ýmsar, en þó aðallega tvær, önnur er sú, að í núgildandi hafnarl. er ákvæði, sem nokkur ágreiningur er um, hvernig skilja beri, hvort heimilt sé hafnarstjórn að taka skipagjöld af bryggjum eða hafnarmannvirkjum félaga og einstaklinga. Þetta var skýrt samkvæmt hinum gömlu hafnarl. fyrir Reykjavík, og þótti rétt að fá það lagaákvæði skýrt og tvímælalaust. Hin ástæðan fyrir því, að frv. er fram borið. er sú, að það lögveð, sem Reykjavíkurhöfn hefur haft um langt skeið fyrir skipagjöldum, var fellt niður með hinum nýju almennu hafnarl. Þetta hefur hafnarstjórn Reykjavíkur talið nauðsynlegt að taka upp aftur. Auk þess þótti hafnarstjórn nauðsynlegt að fá ýmsar aðrar breyt. til samræmingar við það, sem var í hinum fyrri hafnarl. fyrir Reykjavík, m. a. um afstöðu bæjarstjórnarinnar og hafnarstjórnarinnar hvorrar gagnvart annarri. Nú hefði mátt segja, að eðlilegast hefði verið að flytja frv. um breyt. á hinum almennu hafnarl. í stað þess að flytja frv. til sérlaga fyrir Reykjavíkurhöfn. Það var hins vegar svo, að óskir höfðu ekki komið frá hafnarstjórnum yfirleitt um, að varðandi aðrar hafnir yrðu teknar upp þær breyt., sem ég hef hér rakið, og er vitað, að frá sumum stöðum mundu koma andmæli gegn því að setja þetta tvennt inn í hin almennu hafnarl., þannig að það gildi fyrir alla staði, vegna þess. að staðhættir eru mjög ólíkir að allri aðstöðu. Auk þess, eins og bent var á við 1. umr. og rakið er í grg., hefur Reykjavíkurhöfn að ýmsu leyti verulega sérstöðu miðað við aðrar hafnir og þá fyrst og fremst um það meginatriði. að ríkissjóður, sem greiðir visst framlag til hafnar- og lendingarbóta í landinu, hefur ekki greitt neitt að ráði til Reykjavíkurhafnar og ekki neitt svipað því, sem gert er ráð fyrir í hinum almennu hafnarl. Þetta vildi ég rifja upp, þó að það væri rakið við 1. umr., því að það er alllangt síðan.

Frv. er sem sagt flutt að tilmælum hafnarstjórnar Reykjavíkur. En það, sem er aðalatriði í þessu máli og skiptir höfnina fjárhagslega töluverðu máli, er spurningin um lögveð. Eins og ég gat um áðan, þá fylgdi skipagjöldum til Reykjavíkurhafnar lögveð í skipunum. Þetta féll niður með hinum almennu hafnarl., en með þessu frv. á að taka það upp á ný. Í sambandi við umr. um annað mál, sem hér hefur legið fyrir d. um breyt. á hafnarl., var því haldið fram af hálfu sjútvn., að lögveðsheimildin væri óþörf, og því var andmælt, að rétt væru ummæli mín um það, að Reykjavíkurhöfn hefði beðið tjón af því, að lögveðsheimildin var niður felld. Ég tel þess vegna rétt að fara nokkrum orðum um þetta sérstaka atriði. Spurningin er þá um það, hvort skipagjöldunum eigi eingöngu að fylgja lögtaksréttur eða lögveð. Ef litið er á þetta frá sjónarmiði hafnarinnar. þá er æskilegt, að lögveðið haldist eins og verið hefur í fjölda ára. Það hafa þegar komið fram tvö tilfelli. síðan lögveðsheimildin var felld niður, þar sem Reykjavíkurhöfn tapaði í hvoru tilfelli nokkrum þúsundum króna, vegna þess að lögveðið var úr gildi fellt. Það eru tveir bátar, sem hafa orðið gjaldþrota og verið gerðir upp. og höfnin missti skipagjöld, sem hún átti inni hjá þessum bátum, í stað þess að þau hefðu verið tryggð, ef lögveðsheimildin hefði fylgt. Og það er ekki aðeins um að ræða þessi tvö tilfelli, heldur eru fleiri í uppsiglingu. Með því að hafa lögtaksréttinn einan, þá er ljóst, að ef til gjaldþrots kemur hjá bátaeigendum eða útgerðarmönnum. þá tapar hafnarsjóður þeim skipagjöldum, sem hann kann að eiga hjá fyrirtækinu, ef lögtaksrétturinn einn fylgir, en ekki lögveðsrétturinn. M. ö. o., þetta mundi tapast í öllum tilfellum þegar útgerðin er gjaldþrota. Frá sjónarmiði hafnarsjóðs er því ekki undarlegt, að þetta nýja fyrirkomulag, þessi svipting lögveðsréttarins, skapar höfninni fjárhagslegt óhagræði og hefur þegar í vissum tilfellum orðið henni að tjóni. Ef litið er á þetta frá sjónarmiði bátaeigenda, þá hefur því verið haldið fram af sjútvn. og einstökum þm., að bátaeigendum væri skapað óhagræði með því að láta lögveðsréttinn fylgja. Þetta er á misskilningi byggt. Með því að hafa eingöngu lögtaksréttinn eru bátaeigendum bökuð meiri óþægindi og kostnaður en ella. Framkvæmd þessa máls hefur verið þannig, meðan lögveðsrétturinn hefur fylgt, að yfirleitt hafa útgerðarfyrirtækjum verið sendir reikningar um áramót og ekki gengið fast fram í innheimtu. hafnarsjóður gat tekið það rólega, vegna þess að lögveðsrétturinn var fyrir hendi, án þess að gera bátaeigendum erfitt fyrir. Þegar lögveðsrétturinn var felldur niður, varð að taka upp nýjar og aðrar innheimtuaðferðir. Það verður að elta útgerðarfyrirtækin með lögtökum, sem verða þeim til óþæginda og kostnaðarauka og í mörgum tilfellum til fjárhagslegs tjóns fyrir hafnarsjóð. Ég skal ekki rekja þetta öllu ýtarlegar, en það er staðreynd, sem ég ætla, að verði ekki hrakin, að bæði fyrir hafnarsjóð og útgerðarmenn sé það fyrirkomulag heppilegt að hafa lögveð fyrir þessum umræddu skipagjöldum. Hitt er annað mál, að það eru vissir aðilar, sem vilja heldur, að lögveð fylgi ekki, það eru fyrst og fremst lánsstofnanir, en frá sjónarmiði hafnarsjóðs og bátaútgerðarinnar er augljóst, að lögveð er þægilegt.

Ég skal taka það fram, eins og ég hef gert áður, að vitanlega er okkur flm. ekkert kappsmál, að sett séu sérstök hafnarl. fyrir Reykjavíkurhöfn. Við getum fullkomlega sætt okkur við það, að þessar tvær heimildir væru teknar upp í hin almennu hafnarl. Hins vegar vildi hv. sjútvn. ekki á það fallast, og er því sjálfsagt að láta atkv. skera úr um þetta mál, hvort meiri hl. d. er á þeirri skoðun, að svipta skuli Reykjavíkurhöfn þessum rétti, sem hún hefur haft í mörg ár, og skapa henni þar með fjárhagslegt tjón.

Eins og hv. dm. sjá, þá hefur ekki komið fram sérstakt nál. varðandi þetta frv., en hins vegar er minnzt á það í nál. um annað frv., um breyt. á hinum almennu hafnarl., að n. sjái sér ekki fært að mæla með þessu frv.

Að öðru leyti en þessu, sem ég hef getið um, eru aðallega smábreyt. í þessu frv., sem ekki hafa verulega þýðingu. m. a. eru tekin þar upp takmörk Reykjavíkurhafnar, sem þykir hentara að hafa í l. heldur en reglugerð og nokkur fleiri atriði sem sjálfsagt þótti að leiðrétta, ef sett yrðu sérstök l. fyrir Reykjavíkurhöfn. Ég legg til, að frv. verði vísað til 3. umr.