19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Fjhn. hafði fund um þetta mál í kaffihléinu í dag og tók það nokkuð til meðferðar. Árangurinn af þeim fundi er sá, að fjhn. ber fram þrjár brtt. við frv., sem eru prentaðar á þskj. nr. 245. Fyrsta brtt. er við 18. gr. og er umorðun á gr. Það eru að nokkru leyti þrjár breyt., sem sú umorðun hefur í för með sér, og má segja, að tvær þeirra séu ekki stórvægilegar. Í fyrsta lagi er það, að hámark það, sem frvgr. ákveður, er þarna fellt niður. Í öðru lagi er það, að breytt er nokkuð orðalagi, þannig að það verði ótvírætt, að ábyrgzt er verð ekki einasta á þorskflökum, heldur og á samsvarandi fiskflökum öðrum, hvort sem það er ýsa eða langa eða hvað sem það er. Þá er meginbreyt., sem felst í umorðuninni á 18. gr., sú — sem er nýmæli í frv., — að ákveða megi í reglugerð, að greiða megi úr ríkissjóði hluta af geymslukostnaði hraðfrysts vetrarvertíðarfisks, sem fluttur er út eftir 1. ágúst, því að frystihúsin kvarta mjög um þann skaða, sem þau hafi beðið af því að geyma fiskinn, og þann kostnað, sem á þau leggst sökum þess.

2. brtt. fjhn. er við 27. gr. frv., þar sem lagt er bann við því, að vextir séu hækkaðir af rekstrarlánum til útgerðarinnar. Þar vill n. bæta við orðunum: og fyrirtækja, sem vinna úr sjávarafurðum til útflutnings. — Mundi þá 27. gr., þannig breytt, leggja bann við hækkuðum vöxtum af rekstrarlánum til útgerðarinnar og enn fremur til þeirra fyrirtækja, sem vinna úr sjávarafurðum til útflutnings, hverju nafni sem nefnast. Þetta mundi ná til hraðfrystihúsanna og sjálfsagt fleiri stofnana. Tilgangurinn er auðsær, sem er sá að greiða fyrir sölu þessara afurða til útlanda, þannig að útflytjendur geti borið sæmilegt úr býtum, eftir því sem kostur er á.

Þá er 3. brtt. fjhn. við 42. gr. frv., í tveimur stafl. A-liðinn má nú skoða sem leiðréttingu, sem er um að bæta í b-lið 42. frvgr., undir síðari stafl. 1, garðávöxtum, og með samþykkt þessarar brtt. mundu garðávextir vera undanþegnir söluskattinum, svipað eins og er um kjöt og mjólk og aðrar innlendar afurðir, sem seldar eru í landinu. Virðist þetta ekki þurfa skýringa við. Mun aðeins hafa verið af vangá, að þetta var ekki í upphafi fram tekið í frv. — Þá er hér einnig brtt., 3. tölul. b, um nokkra breyt. á e-lið sama tölul. 42. gr. frv., þar sem n. leggur til, að gerð verði sú undanþága, að eigi skuli greiða skatt af sölu á ekki aðeins veiðarfærum, salti og olíu og á viðgerðum á skipum, sem eru nauðsynlegir hlutir fyrir útgerðina, heldur einnig fiskumbúðum. Einnig er nánar tilgreint í þessari brtt., hvers konar olíur það eru, sem ætlazt er til, að skattur hvíli ekki á, sem sé hráolíu, brennsluolíu og smurningsolíum öllum.

Ég tel nú, að þessar brtt. séu svo auðskildar, að þær þurfi ekki nánari skýringa við. Og skal ég geta þess, að öll fjhn. stendur að þeim óklofin, þó þannig, að hv. 4. landsk. þm. mun óska eftir því, að þær brtt. hans, sem um sama efni fjalla og lengra ganga, verði bornar upp við atkvgr.fyrst, en mun fylgja þessum brtt., ef hans brtt. falla, og telur þær til bóta.

Um aðrar brtt., sem fyrir liggja frá einstökum hv. þm., ræddi n. nokkuð, og var það yfirleitt stefna þeirra nm., sem styðja hæstv. ríkisstj., að leggjast á móti þeim, þó að ég vilji ekki segja það, að nm. hafi bundið sig alveg um einstök atriði þeirra brtt. Sé ég ekki ástæðu til að ræða um hverja einstaka af þessum brtt., sem fram hafa komið, sökum þess að nánari ákvörðun var ekki tekin um þær í n. Þar fór ekki fram atkvgr. um hverja einstaka brtt., heldur var þetta svona andinn í n., sem ég gat um. Nú er það svo, að þetta er vandasamt mál og menn lita að sjálfsögðu misjöfnum augum á það. Og einstakir nm. hafa að sjálfsögðu tilhneigingu til þess að fylgja ýmsum af þeim brtt., sem fram hafa komið. Skal ég játa það, að þar á meðal eru till., sem ég persónulega hefði tilhneigingu til að fylgja. En það er nú þannig um þetta frv., þó að líklegt sé, að það gangi í gegnum þingið á ekki löngum tíma, þá hefur það til okkar komið eftir töluvert erfiðar fæðingarhríðir. Og það er öllum hv. þm. ljóst, og þýðir ekki að vera að leyna því, að frv. þetta er árangur af mjög erfiðum samningum á milli þeirra flokka, sem styðja hæstv. ríkisstj. Og ég segi fyrir mig, og ég býst við, að ég tali þar fyrir munn flestra hv. meðnm. minna, að þó að ég kynni að óska, að nokkur atriði í frv. væru höfð á annan veg heldur en í frv. eru, eftir að því kynni að vera breytt í þá átt, sem fjhn. leggur til, þá mætti búast við, ef farið væri þannig að samþykkja einstök atriði í brtt. hv. þm., að aðrir hv. þm. vildu þá fá annað fram til breyt. á frv. og þeir samningar, sem um þetta stóra mál hafa verið gerðir, færu þá úr reipunum og allt endaði í öngþveiti. Hér er því um það að ræða, hvort menn vilja halda til streitu sínum sérskoðunum í hverju einstöku atriði og eiga þá á hættu, að ekkert verði þá úr neinu af því, sem í frv. er stefnt að, eða hvort menn vilja slá: í sínum sérskoðunum og viðurkenna það, sem er staðreynd, að frv. þetta er árangur samninga, sem við flestir höfum tekið þátt í. Ég tek síðar talda kostinn, og ég mun fyrir mitt leyti óhikað greiða atkv. á móti ýmsum brtt., sem ég persónulega vildi gjarnan hafa í l., beinlínis af þeirri ástæðu, að ég álít, að samþ. þeirra atriða mundi koma frv. í heild sinni fyrir kattarnef og koma þannig af stað alveg ófyrirsjáanlegu öngþveiti í þessum málum.

Því skal ekki leyna, að aðaltilefnið til þess, að þessar brtt. fjhn. eru fram bornar, eru kröfur hraðfrystihúsanna um breyt. á frv., sem fjhn. taldi rétt að taka til greina á þann hátt, sem hér er gert. Og þó að kröfur hraðfrystihúsanna gangi lengra heldur en hér er gengið inn á, þá hygg ég, að þó megi fullyrða, að með samþ. þessara till. telji forustumenn starfsemi frystihúsanna, að hægt muni verða að reka frystihúsin áfram, ef frv. heldur að öðru leyti sem lög.

Hv. 4. landsk. þm. sagði það í ræðu sinni í dag, að þetta frv. væri um aðstoð við atvinnurekendur. Það má segja það, að það sé aðstoð við sjávarútveginn og þá atvinnurekendur, sem þar eiga hlut að máli. En sá hv. þm. hefur sýnt fram á það bæði í orðum og athöfnum og oftar en einu sinni, að þeirrar aðstoðar er þörf, því að t.d. þeir, sem reka frystihúsin — og það verður að telja þá, sem þau reka, atvinnurekendur — þeir tjáðu n., að þeir teldu sér alls ekki fært að reka húsin áfram, nema þeir fengju frekari aðstoð en þeir fengju í frv. Og hv. 4. landsk. þm. vildi ganga til móts við þá atvinnurekendur. — Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að þetta frv. hyggi nærri mannréttindum, og mun hann hafa átt við það, að vísitalan er ákveðin 300 stig í þessu frv. Ég get nú ekki séð, að þetta frv. höggvi á nokkurn hátt nærri mannréttindum í þeim skilningi, sem hann átti við. Ég get ekki séð, að það hyggi neitt nærri mannréttindum, þó að vísitalan væri afnumin með öllu. Það er Alþ. og löggjafarvaldið, sem hafði fyrirskipað það, að þessi vísitala skyldi vera reiknað út. Og þó að ákveðið væri, að vísitalan skuli ekki reiknuð hærri en eitthvað og eitthvað, þá eru engin mannréttindi skert með því, þar sem frelsi manna til þess að semja um kaup sitt og kjör er ekki á nokkurn hátt skert með þessu frv. Í fyrra stríðinu, þegar mikil verðhækkun var líka og dýrtíð í landinu, þá held ég, að í sambandi við greiðslu verkamannakaups hafi engin vísitala verið ákveðin. Kaupið fór þá upp, meðan á stríðinu stóð, og smálækkaði svo eftir stríðið. En ég man ekki eftir, að það væri nein vísitala reiknuð út í þá daga. — En skyldi það nú ekki vera, að þessi hv. þm. hafi staðið að því að skerða meir mannréttindi heldur en felst í þessu frv.? Ég man ekki betur en að sú stjórn, sem hann átti sæti í, tæki algerlega ráðin af bændastétt landsins um það, fyrir hvað hún mætti selja vörur sínar. Og sé þetta mannréttindaskerðing, sem í þessu frv. felst, þá hefur hitt a.m.k. ekki síður verið mannréttindaskerðing. — Þá sagði hv. 4. landsk. þm., að þetta frv. hefði ekki fylgi þjóðarinnar, sem bezt sæist á því, að það væru stöðugt að berast mótmæli gegn því. Já, heyrt hef ég getið um þessi mótmæli, og ég hef sjálfur lesið hér í hv. þd. tilkynningar um þau. En það hefur nú stundum komið fyrir, að góðum málum hefur verið mótmælt af ýmsum aðilum. Ég er nú það aldraður t.d., að ég man ósköp vel eftir því, að þegar verið var að leggja síma hingað til landsins og um landið, þá drifu að mótmæli gegn því glæfrafyrirtæki, sem þá var kallað, að leggja síma til landsins og um landið. Það er alveg ósannað mál, þó að mótmæli komi fram frá einhverjum félögum gegn þessu frv., hvort þetta frv. hefur fylgi meiri hluta þjóðarinnar eða ekki. Mín sannfæring er sú, að þó að margir játi, að gallar séu á þessu frv., og mjög mörgum finnist það ganga fullskammt í því að snúa við á þeirri braut, sem gengið hefur verið á undanfarið, þá mundi það fá mikinn meiri hl. atkv. kjósenda í landinu, ef það væri borið undir þjóðaratkvæði. Ég held, að hv. 4. landsk. þm. og flokksbróðir hans, sem var að tala áðan, verði nú að játa. það, að hv. 4. landsk. þm. hafi sýnt það með brtt. sínum, að hann játar það, að tilkostnaður við atvinnurekstur og tekjurnar af honum, þetta tvennt stenzt ekki á. Og það var einmitt ráðh. Sósfi., sem játaði þetta svo greinilega á síðasta þingi, að hann bar fram till. um sérstaka ábyrgð til handa sjávarútveginum, til þess að hann gæti orðið rekinn. En þegar þetta er svona, þá vildi ég mega spyrja þennan hv. þm., án þess að ég vilji lengja umr. hér: Hver á að borga þann mismun? Það hefur verið vísað á ríkissjóðinn. En ég hélt nú bæði það, að ríkissjóður, hvernig sem að er farið, væri ekki ótæmandi, og einnig hélt ég, að ekki væri hægt að koma öðru við en að landsmenn legðu saman í ríkissjóðinn og það yrðu allir eða svo að segja allir bjargálna menn einhvern skerf þar að leggja fram, svo að jafnvel þó að útreikningur hv. 4. landsk. þm. um það, hvað vísitölufestingin skerði lífskjör manna, — sem er nú rangur, en þótt hann væri réttur, þá þyrfti einnig að draga fram, ef þetta frv. næði tilgangi sínum, hvað það léttir gjöldum af þeim einstaklingum, sem finnst lífskjör sín skert.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þm. hefðu ekki umboð til þess að samþykkja þetta frv. Ég hélt nú, að þm. hefðu umboð til þess að samþykkja hvaða l. sem væri, ef þau ekki koma í bága við stjórnarskrá landsins. Og a.m.k. er það víst, að Alþ. taldi sig á sínum tíma hafa umboð til þess að semja lög um vísitöluútreikning. Og þá er undarlegt, ef þingið hefur ekki líka umboð til þess að breyta slíkum lögum og lagaákvæðum. — Þessi sami hv. þm. var líka að tala um söluskattinn og taldi hann mjög ranglátann. Ég get tekið undir ýmislegt, sem hann sagði um það. En það er nú ekki gott að komast hjá slíku. Hann hefur sjálfur verið í ríkisstj., sem beitti sér fyrir því að leggja á ákaflega svipaðan skatt, sem sízt var réttlátari heldur en þessi söluskattur, sem nú er ráðgerður. Veltuskatturinn, sem þessi hv. þm. stóð að, hann kom nú alveg með fullum þunga á þá, sem verzluðu í kaupfélögum. Því getur enginn neitað og verður ekki neitað með nokkrum rökum, Því að þrátt fyrir lagaákvæðin um, að ekki mætti hækka vöruna í verði, þá vitanlega gat það ekki komið öðruvísi fram í kaupfélögunum, þar sem félagsmenn eru sínir eigin kaupmenn, heldur en þannig, að arðsúthlutun þeirra varð þeim mun lægri, sem nam söluskattinum, svo að um það þarf ekki að ræða eða deila, að sá skattur hafi komið beinlínis á allan þann fjölda manna, sem verzla í kaupfélögunum. Það veit ég að hann viðurkennir. Og skyldi veltuskatturinn þá ekki líka, þegar allt kemur til alls, hafa komið niður á þeim líka, sem verzla við kaupmenn? Það er verra að sanna það, en ég býst við því, að það hafi verið fært svo til verðlag milli vara, að það hafi, þegar allt kom til alls, ekki verið verzlanirnar, heldur viðskiptamenn þeirra, sem veltuskattinn greiddu.

Þá er það hv. þm. Barð. Hann áleit, að það væri aðalatriðið, a.m.k. fyrir mér, í þessu máli, að frv. væri afgreitt svo, að ég kæmist heim fyrir jólin. Ég játa það, að mig langar til að komast heim fyrir jólin, og ég skammast mín ekkert fyrir það, þó að mig langi til þess. En ég held, að hann geri minn veg fullmikinn, ef hann heldur, að það sé ég sérstaklega, sem ráði afgreiðslu þessa máls. Ég hef lesið í Morgunblaðinu í morgun og veit, að það hefur verið ætlun hæstv. ríkisstj. að koma þessu máli af á morgun og geta frestað þingi á morgun eða annað kvöld. Ef um það væri að ræða, að eitthvað væri hægt að bæta þetta frv. með því, að ég legði það á mig að sitja hér fram yfir jól, þá mundi ég að sjálfsögðu fúslega gera það, en ég hef nú ekki mikla trú á því. Þó að málið gangi með nokkrum hraða gegnum þingið, að því er formsatriði snertir, þá veit hvert mannsbarn, að þetta frv. hefur verið fyrir þinginu nærri því í þrjá mánuði, eða nákvæmlega sagt 22/3 mánaðar, því að byrjað var að ræða um það strax í þingbyrjun, þó að meira væri um það fjallað af flokkunum og ríkisstj. en formlega af þinginu sjálfu. Og þó að Sósfl., sem styður ekki ríkisstj., hafi ekki verið þar með, þá hefur hann þó fjallað um málið líka. Og svo sagði hv. þm. meira. Hann sagði, að þetta mál hefði í raun og veru staðið yfir síðan 1941, svo að ég hef ekki mikla trú á því, að þótt málið hefði dregizt þangað til milli jóla og nýárs, að það hefði gert mikla gagnbreytingu á frv. frá því, sem nú er, til bóta.

Svo fékk hv. þm. eitt af þessum köstum, sem við könnumst við frá eldri tímum, en hefur ekki borið á á þessu þingi og mjög lítið á síðasta þingi. Hann þurfti að ausa Framsfl. auri og kenna honum um allt illt, hvernig nú er komið. Hann gerði t.d. veður út af því, að Framsfl. hefði alltaf spáð hruni. Hafi Framsfl. spáð hruni, þá hefur hann því miður orðið allt of sannspár, því að ég sé ekki annað en að það hrun, sem um hefur verið talað, sé komið fyrir nokkru og það í tíð fyrrv. stjórnar, því þegar ekki er hægt að halda höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar uppi nema með ríkisstyrk og ríkisábyrgð, þá kalla ég, að komið sé hrun. Hv. þm. veit, að í fyrravetur, í tíð fyrrv. stjórnar, lá fyrir stöðvun sjávarútvegsins, ef Alþ. hefði þá ekki bundið ríkissjóði bagga, til þess að hann gæti haldið áfram.

Hv. þm. talaði eins og maður, sem hefur skilið við konuna sína, gifzt annarri, sér ettir öllu og segir, að sú fyrri hafi verið betri. Það var mikil örvænting hjá honum að hafa misst kommúnista úr samstarfi við sig og fengið hina vondu framsóknarmenn í staðinn. Ég skal ekki blanda mér í tilfinningar hans í þessu efni, en ég veit ekki, hvað sambúðin hefði verið orðin góð nú, ef hjónabandið hefði haldizt áfram.

Þá sagði hv. þm., að stjórnin mundi ekki vera fær um að framfylgja þessu frv., ef að l. yrði. Það kann að vera. ég skal engu spá um það. En ég segi hitt, að ef ekki er hægt að framfylgja l. eins og þessum, þá er landið ekki lengur réttarríki. Ef Alþingi, löggjafarvaldið, má ekki setja l., sem það telur, að sé tilraun til viðreisnar þjóðinni, þó að það á einhvern hátt snerti menn og að menn verði einhverju lítils háttar að fórna, öðruvísi en það verði brotið niður með lögbrotum og ofbeldi, þá er það ríki, þar sem slíkt á sér stað, ekki lengur réttarríki, og þá verður að sýna sig, hvort svo er.

Hv. þm. var að gefa í skyn, að togaraflotinn mundi stöðvast, ef þetta frv. yrði samþ., og að mér skildist vegna ákvæðanna um eignaraukaskatt. Í því sambandi var hann að tala um svik og líka í sambandi við þá sjómenn, sem nú ætti að svipta skatthlunnindum. Ég held, að það væri eitthvað undarlegt við skattal. þessa lands, ef einhver gömul skattal. ættu að skoðast sem loforð um, að slík l. skyldu gilda um aldur og ævi. Hann var að tala um, að sjómenn hefðu verið narraðir með skattfrelsi til að sigla á stríðsárunum, meðan hættan var mest. Já, þeir fengu skattfrelsi á sínar gríðarlega háu tekjur, sem a.m.k. sumir þeirra höfðu á þessum árum. En ég man ekki eftir og kannast ekki við, að þessum mönnum hafi verið gefið nokkurt fyrirheit um, að slíkt skattfrelsi skyldi gilda um aldur og ævi. Ég hygg, að þeir hafi aldrei fengið skattfrelsi, að því er eignarskatt snertir, heldur aðeins, að áhættuþóknunin skyldi vera skattfrjáls til tekjuskatts. Þess vegna geta það ekki verið nein svik, þó að hér sé lagður á eignaraukaskattur, jafnt á þessa menn og aðra. Þessir menn hafa gert mikið gagn, það skal og fyllilega játa, en þeir hafa líka borið margfalt úr býtum á við flesta aðra.

Hv. þm. ber fram till. um, að almenn hlutafélög njóti sömu réttinda og samvinnufélög við þau skattfríðindi, sem þau hafa áður haft, gagnvart eignaraukaskatti. Ég skal fyllilega játa, að það geta verið til hlutafélög, sem vinna að þarflegum hlutum og ættu slík hlunnindi skilið. En mig grunar, að það séu til hlutafélög, sem eru hreint og beint gervihlutafélög, þar sem fjölskyldan ein er hluthafar. Það hefur verið sagt, að hér í bæ væru mörg hlutafélög, þar sem hægt væri að halda löglegan stjórnarfund í hjónarúminu, og ég býst við, að það sé satt. Í stjórn hlutafélags þurfa ekki að vera nema þrír, og þá getur meiri hlutinn verið í hjónarúminu. Ég dreg ekki í efa, að sá stjórnarfundur mundi fara vel og friðsamlega fram, og er ekkert við því að segja, en mér finnst, að svona hlutafélög, og þau eru mörg, séu nauðalík einstakling, þó að maður hafi stofnað með börnum sínum og kannske einhverjum nánustu ættingjum svo kallað hlutafélag, þar sem hann á aðalhlutann. Mér virðist það vera ákaflega svipað einstaklingsrekstri. Mér virðist ákaflega vafasamt og enda ekki ná neinni átt að láta öll þessi hlutafélög hafa skattfríðindi. Það yrði þá að fara miklu nákvæmar út í það, ekki aðeins að hlutafélög skuli fá þessi skattfríðindi, heldur hvers konar félög það væru. Ég álít, að í núverandi skattal. sé gengið allt of langt í að láta gervifélög hafa 20% skattfrjáls í varasjóð, þó að það sé raunverulega ekkert annað en einstaklingsrekstur eða einn og sami maður sé aðalhluthafinn og þó að starf hans sé ekki að neinu leyti þjóðinni til heilla. Það eru til félög, sem eru ekki til neinna þjóðarheilla, þó að þau stefni að fjárgróða fyrir sína meðlimi. Ég býst við, að næst þegar skattal. verða endurskoðuð, þá sé nauðsynlegt að flokka þessi hlutafélög, og þá tel ég víst, að ýmis þeirra eigi skilið að fá skattfríðindi. En ég er jafnsannfærður um, að sum eiga ekki frekar skilið að fá skattfríðindi en hv. þm. Barð. sem einstaklingur eða ég.

Mér finnst satt að segja hv. þm. Barð. gera sig að eins konar uppvakningi frá löngu liðnum tímum, þegar hann fór að tala um samvinnufélögin. Það var eins og hann skildi ekkert eðli þeirra. Það er að vísu rétt, að samvinnufélög eru rekin með svipuðu sniði og aðrar verzlanir, en sá er bara munurinn, að samvinnufélögin sem slík græða aldrei neitt. Að sumu leyti er ágóðanum skipt milli félagsmanna og er þannig borgað beinlínis út eða lagt í stofnsjóð, sem síðan er borgað út við dauðsfall eða aðrar slíkar ástæður, eða lagt í sameiginlegan sjóð og er aldrei borgað út til einstaklinga. Ef samvinnufélag leggst niður, þá er honum ekki skipt milli félagsmanna, heldur á að verja því fé til almenningsheilla. Að bera þetta saman við hlutafélag, sem skipta má upp, hvenær sem er, og hver hluthafi má hirða sinn hlut, finnst mér svo fjarri öllu lagi, að það sé varla svaravert. Annars býst ég við, að okkur skilji hér svo mikið á, að ekki þýði að ræða um það.

Þá varð ég enn meira hissa, þegar hann fór að tala um Eimskipafélagið og taldi sjálfsagt, að Eimskipafélagið héldi skattfrelsi sínu, þó að hann vilji láta samvinnufélögin greiða skatta á sama hátt og hvert annað hlutafélag. Ég neita því ekki, að Eimskipafélag Íslands hefur unnið þjóðnýtt starf, og það var réttmætt á sínum tíma að veita því skattfrelsi, enda var ég 1. flm. þess máls hér á þingi fyrir meira en 20 árum síðan. Hitt er annað mál, hvort þetta skattfrelsi Eimskipafélagsins á að verða eilíft. Það er fjöldi landsmanna, sem á hluti í þessu félagi. Það má kalla það eins konar þjóðarfélag, en svo er líka með samvinnufélögin. Nú mun vera 21 þús. manns í samvinnufélögunum. Ég efast um, að fleiri eigi í Eimskipafélagi Íslands. Samt sem áður ætla ég ekki að greiða atkv. með þeirri till., sem fram er komin um að leggja ekki eignaraukaskatt á Eimskipafélagið, en ég verð að segja, að sanngjarnt hefði mér þótt, að Eimskipafélagið og samvinnufélögin hefðu fylgzt að.

Ég gat ekki verið við, þegar fundur hófst hér að nýju, og heyrði ekki ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég kom að í því, er hann var að tala um, að hæstv. stjórn væri hér að krefjast þess, að almenningur lækkaði lífskröfur sínar. Ég er ekki viss um þetta. Ég er ekki viss um, að þótt þetta frv. verði að l., þurfi nokkur maður að slá neitt af lífskröfum sínum, því að það er alveg rangt, sem hv. 4. landsk. og fleiri hafa hér verið að tala um, að dýrtíðin lækki ekkert við þetta frv. Menn hafa viljað ganga fram hjá, að landbúnaðarvörur eiga að lækka í sama hlutfalli og vísitalan eða eins og kaupgjaldið.

En við skyldum segja, að einhver þyrfti að lækka lífskjör sín. Skyldi ekki geta skeð, að það væri alveg nauðsynlegt? Hvernig á að fara að, ef þjóðin getur ekki aflað þeirra tekna, að menn hafi þessi lífskjör, sem þeir hafa nú, jafnvel þó að jafnt væri skipt á milli allra? Hver á að sjá um yfirleitt, að menn geti alltaf, hvernig sem allt veltist, hvernig sem umheimurinn er, hvernig sem markaðir okkar eru, að fólkið hafi alltaf tiltekin lífskjör? Það er fræði, sem ég get ekki skilið. Ég var lengi bóndi og er bóndasonur og þekki það því bezt. Og ég vandist því, að við bændur urðum í gamla daga að miða okkar lífskjör við afurðaverð, sem var breytilegt, hvernig heyskapurinn gekk og yfirleitt hvaða tekjur við gátum fengið af búrekstrinum. Þá var enginn til að ábyrgjast okkur einhver ákveðin lífskjör.

Það eru ákvæði í þessu frv., sem ákveða, að gerð verði tilraun til að finna út, hver meðallífskjör þjóðarinnar séu. Þar eru ákvæði um það, að gerðar verði ráðstafanir til að finna vísitölu útflutningsvaranna, og útflutningsvörurnar og verð þeirra er í raun og veru það, sem skapar þjóðinni lífskjör. Það má deila um, hvort þeim sé réttlátlega skipt, sjálfsagt er þeim ekki réttlátlega skipt, en ég verð að segja, að bara

það, að berja í borðið og segja: Enga lífskjaraskerðingu! — það er bara vitleysa og fjarstæða. Slíkt getur hent eina þjóð, þó að nákvæmlega rétt sé skipt milli þegnanna, að þetta séu tóm orð, tekjur þjóðarinnar geti ekki fullnægt því, sem talið er, að þurfi að vera lífskjör hennar.

Ég mun svo ekki frekar orðlengja um þetta mál. Ég þykist hafa gert grein fyrir afstöðu n. Ég var í vafa um, hvort ég ætti nokkuð að fara út í ræður manna, en faldi þó rétt að gera þessar aths., en mun svo ekki taka frekari þátt í umr., nema ég þurfi alveg sérstaklega að svara f.h. nefndarinnar.