16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

121. mál, Reykjavíkurhöfn

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. gerir mikið úr því, hvað það kosti Reykjavíkurhöfn mikið að hafa ekki lögveðsheimildina í 1. Hins vegar gerir hann lítið úr því, að það gæti spillt veðhæfni skipanna. Þetta hvort tveggja getur ekki staðizt. Ef það kostar höfnina mikið að hafa helmildina ekki, þá hlýtur það að kosta skipin mikið, ef heimildin er sett í l. Þótt hv. þm. Snæf. hafi verið góður prófessor, þá virðist hann ekki málfærslumaður að sama skapi.

Út af orðum hv. þm. um það, að ég sé hátt settur í bankamálunum, þá er það því miður ekki, en ég vil benda hv. þm. á að honum er kunnugt, að hv. þm. Siglf. hefur í þessu máli sömu skoðun og ég, en varla dettur nokkrum í hug, að afstaða hans fari eftir einhverjum bankasjónarmiðum. Hitt má vera, að við höfum báðir nokkur útgerðarsjónarmið og sem þm. kjördæma úti á landi teljum við, að ekki eigi að veita Reykjavíkurhöfn nein sérréttindi. enda þótt við eigum heima hér syðra. Annars er engin ástæða til svigurmæla fyrir okkur hv. þm. Snæf. í þessu sambandi. Hann vill létta innheimtuna fyrir sína starfsmenn, en við í sjútvn. teljum ekki ástæðu til að veita þau sérréttindi. Ef lögveðsheimildin verður borin upp sem brtt. við hin almennu hafnarlög, þá munum við að sjálfsögðu athuga hana, en ég held ekki, að meiri hl. sé í n. fyrir því að taka hana upp almennt.

Hvað viðvíkur vanrækslu n. um að skila áliti, þá er hv. þm. Snæf. svo þingkunnugur, að hann veit, að miskunnsöm afgreiðsla á frv., sem vitað er að hafa ekki meirihlutafylgi, er að svæfa þau í n. Hins vegar er í þessu tilfelli ekki um neina vanrækslu að ræða, því að n. ræddi málið mjög ýtarlega, og mætti hv. þm. Snæf. sjálfur á fundi n. Hv. þm. Snæf. talaði um það, að Reykjavíkurbær hefði orðið fyrir réttindasviptingu. Það er rétt, að Reykjavíkurbær hafði sérréttindi fram yfir aðra og þau voru afnumin, en þegar hv. þm. Snæf. ætlar að færa það fram sem rök, að búið hafi verið að verja 22 milljónum í höfnina og af því hafi ríkissjóður borgað mjög lítið, þá er þetta mjög villandi, því að engin höfn hefur aðra eins aðstöðu, því að í tveimur styrjöldum og löngum þar á milli hefur Reykjavíkurhöfn fengið gjöld af öllum vörum, sem til landsins hafa verið fluttar, bæði er þær komu til landsins og eins þegar þær voru fluttar út á land, þannig að ef reikna á framlög landsmanna, þá hafa þeir ekki goldið til neinnar hafnar eins mikið og Reykjavíkurhafnar. Við stöndum hér fjórir að þessari dagskrártill., hv. þm. Borgf., hv. 2. þm. N-M., hv. þm. Siglf. og ég, og væntum við þess. að hv. þd. sjái, að hún er borin fram af rökum og sanngirni.