19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að þakka hv. frsm. n. fyrir þann hluta ræðunnar, sem snerti þá till., sem tekin hefur verið til greina af því þskj., sem ég hef lagt fram, og vil í sambandi við það lýsa yfir við hæstv. forseta, að ég mun taka aftur 6. lið brtt. á þskj. 229, þar sem lögð hefur verið fram sérstök brtt., þar sem tekið er til greina það, sem ég fer fram á. Einnig mun ég taka aftur brtt. á þskj. 232 við 13. gr., a- og b-lið, þar sem ég tel einnig, að því sé fullnægt, sem ég fer þar fram á. Viðvíkjandi brtt. n. við 27. gr. þá mun ég fylgja þeirri till. við atkvgr., en geymi mér rétt til að leggja fram nýja till. um breyt. á gr. við 3. umr., og mun ég koma að því síðar.

Þá vildi ég lýsa yfir því við forseta, að ég mun taka aftur til 3. umr. 1. brtt. mína á þskj. 229 undir a-lið, en ber hana aftur fram við 3. umr., ef n. sér sér ekki fært að taka hana upp í sínar till. við þá umr. Ég geri þetta vegna þess, að frsm. hefur lýst yfir, að ekki séu teknar endanlegar ákvarðanir um till., og trúi ég varla, að þessi till. verði felld, þegar hún kemur til atkvæða. — Aðrar till. mínar á þskj. mun ég láta ganga til þessarar umr.

Viðvíkjandi ummælum frá hv. 6. landsk., þar sem hann sagði, að ég hefði beint því að sjómönnum, að þeir hefðu sýnt vinnusvik, þá vil ég mótmæla því. Ég sagði, að það væru vinnusvikin í landi, sem væru ein orsök dýrtíðarinnar. Og ég vil benda hv. þm. á, ef hann hefur ekki kynnt sér það, að í útvarpserindi, sem ég hélt, sagði ég, að þess væri ekki að vænta, að sjómenn ynnu í 16 klukkustundir, meðan aðrir ynnu 6, svo að orð mín átti ekki að skilja á þann veg, sem þm. gerði. Ég benti á það sérstaklega, að viss stétt hefði tekið upp þann hátt, m.a. fyrir tilstilli Sósfl., að neita að gangast undir gerða samninga, þessir menn vildu ekki vinna dagvinnu, heldur eftirvinnu fyrir fjórfalt kaup. — Tel ég svo ekki ástæðu til að ræða fleira við þm. um þetta atriði.

Út af aths. frsm. skal ég vera stuttorður. Hann talaði um söluskattinn, og þó að hann svaraði hv. 4. landsk., mátti hann eins svara mér, því að það var ein af mínum brtt. og ég hélt fram, að gera ætti hann að sama veltuskattinum og áður var. Það þýðir ekki fyrir frsm. að halda þessum blekkingum áfram, að veituskatturinn hafi verið lagður á bændur. Það er af því, að þeir vilja ekki viðurkenna þær staðreyndir, að kaupfélögin og samvinnufélögin eru sérstakir aðilar. Það eru ekki þúsundir bænda, það eru nákvæmlega sömu aðilar út af fyrir sig, eins og t.d. verzlunarfélög eða hlutafélög eru sérstakir aðilar til skatts og annars í landinu. Það má ekki blanda því saman við þúsundir bænda í landinu, eins og hv. frsm. gerir, því að auðvitað ber bændum að vera undir sömu skattal. og öðrum aðilum. En þessu blandar frsm. saman við hjónabandshlutafélögin. Hvers vegna skyldu þau vera réttminni, þar sem má halda fundina í hjónarúminu? Þessi félög eru undir sama stranga eftirlitinu eins og í þeim væru þúsundir manna. Þessi hjón — hve vel sem þeim kemur saman í hjónarúminu, geta þau ekki tekið fé úr varasjóðum. Það er undir eftirliti allt annarra manna. Ég er hræddur um, að formaður nýbyggingarsjóðs mundi segja eitthvað, hversu góð hjón sem kæmu til hans og vildu fá úr varasjóðnum. Nei, hvers vegna ættu hjónarúmshlutafélög að vera réttlægri en önnur hlutafélög? Þau eru hreinir aðilar, sem falla undir sömu reglur eins og um væri að ræða þúsundir manna. — Og þegar svo frsm. er að bera þetta saman við hlutafélög, það megi hvenær sem er skipta upp hlutafélögunum, og það er rétt. Einu var skipt upp fyrir byrjun stríðsins, sem átti 30-falda hlutafjáreign sína. Hve mikið fór í ríkissjóð? Allt, eins og það lagði sig. Þannig fer um hlutafélögin, sem rekin eru og stofnsett í hjónarúmunum. Ef þau ganga lengra en fyrirmælin kveða á um, fer allt í ríkissjóð.

Svo hélt hv. frsm. því fram, að samvinnufélögin réðu svo sem ekki yfir eigum sínum. Hvaða skattanefndir hafa átalið það, að samvinnufélögin kasta fé í að halda uppi pólitískum blöðum í landinu? Skyldu þessar nefndir hafa fundið að því, þegar athuguð hafa verið skattframtöl þessara félaga? Ég held ekki. Ef þessi félög fara út fyrir takmörkin, verða þau að líða fyrir það eins og hjónarúmshlutafélögin. Þetta er því hreinasta fjarstæða hjá hv. frsm. — Þessir menn segja, að það sé allt annað með Eimskipafélagið. Það eru settar fastar reglur um það félag, að það má ekki borga út nema 4% arð. Ég er hræddur um, að þeir mundu eitthvað segja, ef það borgaði út 30–40% arð, en það hefur tekið á sig þá skyldu, að ekki megi greiða nema 4% í arð, ef það fengi þessi fríðindi. En engar skorður hafa verið settar í þessum efnum, að því er snertir samvinnufélögin, það vita allir menn í landinu.

Þá skal ég aðeins leiðrétta eitt, sem kom fram hjá hv. frsm. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að þjóðin mundi ekki framfylgja þessum l., ef þau yrðu samþ. Ég sagði þetta aldrei. Ég sagði, að þjóðin mundi ekki framfylgja þeim, ef þau yrðu afgreidd í þeirri mynd, sem þau eru nú, og það hefur frsm. fallizt á, því að hann hefur fallizt á að gera á þeim nauðsynlegar breyt. Ég hefði nú ekki vænzt þess af jafnsamvizkusömum manni og hv. 1. þm. Eyf., að hann afflytti svo ummæli mín sem hann gerði.

Ég skal svo ekki við þessa umr. ræða meira um þetta atriði, en láta máli mínu lokið.