26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (2614)

128. mál, ullarverksmiðja í Hafnarfirði

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Út af ræðu hv. þm. V-Húnv. vil ég segja það, að ég sjálfur þakka honum fyrir upplýsingarnar, sem hann kom fram með í sambandi við þetta mál. En það er ýmislegt samt í ræðu hans, sem ég get ekki látið ómótmælt. Hann getur um í sambandi við frv., sem liggur hér fyrir, að það sé gert ráð fyrir að binda ríkinu byrði með því að taka lán. 5–6 millj. kr., og að slíkt sé ekki hyggilegt á sama tíma sem erfiðleikar eru á að framkvæma ýmsar lagasetningar, sem búið er að samþykkja. Það hefur verið mjög útmálað fyrir þm., hversu ríkissjóður sé illa stæður og erfiðleikum bundið að framkvæma það, sem honum ber skylda til. Ég á bágt með að trúa því, að það séu ekki möguleikar á að framkvæma það, sem samþ. hefur verið, og að það bindi ríkinu fjárhagslega bagga, ef þetta frv. verður gert að l. Ef sá skilningur ríkti, sem vera bæri, þá væri full geta til þess að leggja út þá upphæð, sem hér er fyrir hendi. Það er nú einu sinni svo, að þar sem viljinn er fyrir hendi, þar er hægt að gera margt, en þar sem hann vantar, þar er minna gert.

Hv. þm. V-Húnv. sagðist ekki sjá, að þörf væri fyrir þetta fyrirtæki, þar sem nú sé verið að byggja og stækka ýmsar aðrar verksmiðjur í landinu. Hann gat um í því sambandi, að verið væri að stækka ullarverksmiðjuna, sem Gefjun rekur á Akureyri. Hann sagði einnig í þessu sambandi, að í langan tíma og til þessa hefðum við Íslendingar átt við erfiðleika að etja með að framleiða meiri ull í landinu en það, sem unnið er úr í íslenzkum verksmiðjum. Það má mikið vera, ef þessar verksmiðjur verða það fullkomnar, að þær geti unnið úr allri ull landsmanna.

Hv. þm. V-Húnv. gat um það, að nú væri ullarframleiðslan mun minni en áður. Það getur rétt verið, en hins vegar er það ódeilt mál, hvort ekki eru möguleikar til stórkostlegrar aukningar í þeim efnum. Miðað við það þarf stórar framkvæmdir, til þess að hægt sé að vinna úr þeirri ull, sem hægt er að framleiða í landinu. Virðist því eðlilegt og sjálfsagt, að flutt sé frv., sem gerir ráð fyrir úrbótum.

Ég geri ráð fyrir, að frv. fari til iðnn., og vænti þá, að hún rannsaki, hvað hæft er í því, sem sagt hefur verið í þessu máli.

Hv. þm. V-Húnv. vildi gera lítið úr sérfræðingi þeim, sem hér lagði skoðanir sínar með þessu frv., og sagði, að ýmislegt í því bréfi, sem hér fylgdi með, væri þess eðlis, að það væri ekki til að auka hróður hans sem sérfræðings eða ekki til að auka trúnað á hann sem slíkan. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég er ekki kunnugur forsögu þessa máls, sem hér er rakin í þessu bréfi, sem Þorvaldur Árnason sendi mér. Ég hef ekki annað en gott um þann mann að segja, en það er eðlilegt, ef hann er reiknaður mér, að það stingi ýmsa menn, sem hann segir. Það breytir engri sérfræðilegri þekkingu, þó að hann hefji baráttu fyrir ákveðnu hugsjóna- og velferðarmáli. Hann á meiri hlutann af því, sem hann hefur lagt fram sérfræðilega, svo sem um rekstur verksmiðjunnar o. s. frv.

Hv. þm. V-Húnv. lauk máli sínu með því að segja, að frv. væri fram komið vegna þess, að flm. væri ekki kunnugur þessu máli, enda hefði hann sagt það í upphafi máls síns. Ég sagði og skal segja það aftur, að ég hef takmarkaða þekkingu á þeirri hlið þessa máls, sem varðar rekstur verksmiðju, og því sem þar að lýtur. Hitt virðist ljóst hverjum manni, þó að hann sé ekki fagmaður, að ástandið hefur verið óviðunanlegt, og verður fljótt að ráða bót á því. Ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegt og sjálfsagt sé, að svo fari sem hér er gert ráð fyrir, og því hef ég flutt þetta frv.