26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2616)

128. mál, ullarverksmiðja í Hafnarfirði

Finnur Jónsson:

Það hefur verið bent á af tveimur þm., að þetta frv. muni ekki vera tímabært, og ég vil bæta þeim upplýsingum við það, sem þeir hafa sagt, að með þeirri stækkun sem fyrirhuguð er á Gefjuni, munu vera til verksmiðjur í landinu, sem framleiða úr allri þeirri ull, sem til fellur nú af sauðfé landsmanna. og nokkru meira til. Ég hef tekið eftir því, að í fskj I, sem með þessu frv. fylgir, er setning, sem er svona, með leyfi forseta: „Aðalatriðið er, að verksmiðjurnar séu ekki fleiri en hráefnið og aðrar aðstæður gefa tilefni til.“

Ef ríkið setur upp verksmiðju. eins og gert er ráð fyrir í frv., þá mundi vera hægt að vinna úr hálfu meiri ull en til fellur hér á hverju ári, ef við gerum þá ráð fyrir að sú stækkun, sem fyrirhuguð er á Akureyri komi til framkvæmda. Allt ullarmagn, sem til samvinnufélaganna kemur, mun vera um 300 smálestir. Ef gert er ráð fyrir því, að Sambandið haft um 80 af hundraði til sölumeðferðar, þá má gera ráð fyrir því, að magnið verði um 400 smálestir á ári, einmitt það ullarmagn, sem gert er ráð fyrir, að verksmiðjan Gefjun geti unnið úr, þegar stækkun er komin til framkvæmda. Við bætast svo verksmiðjur. sem til eru sunnanlands og með þeim stækkunum, sem fyrirhugaðar eru og búið að gefa leyfi fyrir, munu þær geta unnið úr 200–300 smálestum að auki. Því er séð fyrir á næstu árum, að hægt verði að vinna úr allri ull, sem hér til fellur, ef ekki verða einhverjar stórvægilegar breytingar á ullarframleiðslunni hjá landsmönnum, annaðhvort að sauðfé verði fjölgað að mun eða kynbætur, eins og Þorvaldur Árnason leggur til.

Ég skal geta þess út af ummælum hv. 3. þm. Reykv., sem hér talaði að það standa yfir verulega stórar umbætur á verksmiðjunni á Álafossi og ýmsar af þeim vélum eru komnar til landsins eða að verulegu leyti greiddar, þannig að gera má ráð fyrir, að þær komi til afnota sennilega á þessu ári. Þá hefur verið veitt leyfi fyrir verksmiðju til einkafyrirtækis hér í bæ, en ég veit ekki hvað afkastamiklar þær vélar eru. Ef hægt er að standa við þau loforð vegna gjaldeyrisvandræða, sem ég vona, að verði hægt, þá er málið komið þannig að það er búið að uppfylla þau skilyrði sem sérfræðingur flm. hefur talið, að væri aðalatriðið, sem sé að til séu verksmiðjur, sem fullnægi að öllu leyti því ullarmagni sem til fellur, og jafnvel komið lengra en hann telur rétt, að sé því að þær vinna úr meira ullarmagni en fæst hér í landi.

Ég skal ekki þreyta þm. á því að fara frekar út í þetta mál. Það er augljóst, að hér er um eitt af þessum sýningarfrv. að ræða, sem þm. Sósfl. bera fram á Alþ. æ ofan í æ. Þetta er ljóst, því að hv. 2. þm. Reykv., sem er sessunautur flm., hefði getað upplýst hann um allt, sem þeir hafa bent á, sem mælt hafa á móti þessu frv. sem algerlega óþörfu og þannig getað forðað honum frá því að verða alveg ber að því að flytja mál, sem eingöngu er flutt til að sýnast, en ekki í öðrum tilgangi. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég get fallizt á, að þetta frv. fari til n., því að ég tel rétt, að það komi í ljós nál., sem væntanlega verður lesið upp í útvarpið og sýnir hve mikil fjarstæða það er sem flm. hefur talið sér sæma að færa í grg. þessa frv.