26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

128. mál, ullarverksmiðja í Hafnarfirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki áður skýrt frá því. sem í þessu máli gerðist í nýbyggingarráði, en úr því að það er nú komið hér inn í umr., tel ég mig óbundinn að upplýsa það, hafði og raunar búizt við, að hæstv. fjmrh. yrði hér á fundinum og skýrði þá frá því. Till. kom fram um það í nýbyggingarráði, að ríkið ræki ullarverksmiðju, en um þá till. var nokkur ágreiningur og fer ég ekki nánar út í það. En síðan var ákveðið að gefa þeim félögum, sem reka hér ullarverksmiðjur. þ. e. S. Í. S. og Álafossi, tækifæri til að segja álit sitt um málið. S. Í. S. svaraði á þá leið, að það mundi ekki einungis hætta við fyrirhugaða stækkun, heldur leggja niður sína verksmiðju með öllu, ef til þess kæmi, að ríkið ræki hér ullarverksmiðju. Bæði félögin voru hins vegar reiðubúin til að auka reksturinn stórum. Þegar þetta lá fyrir og, enn fremur leyfisumsókn frá þriðja aðilanum. sem var hér í Reykjavík, þá taldi nýbyggingarráð rétt að veita þessum aðilum öllum gjaldeyrisleyfi vegna rekstrar síns. Annars hafa ýmsir meðlimir í nýbyggingarráði haft áhuga á því, að ríkið ræki ullarverksmiðju, og maður sá, sem nýbyggingarráð sendi utan til að athuga ullariðnaðarmál, var á þeirri skoðun. En nýbyggingarráð veitti sem sagt þessum þremur aðilum gjaldeyrisleyfi í þessu skyni, og ég veit ekki betur, ef ríkisstj. ætlar sér að framkvæma gildandi l., en að þeir ættu að geta fengið nægan gjaldeyri til starfsemi sinnar, en það er fullkomið lögbrot, ef ríkisstj. greiðir ekki tilskilda upphæð á nýbyggingarreikning. Þeir, sem leyfi hafa, hljóta því að geta gengið út frá því að fá gjaldeyri til rekstrar síns.

Þetta vildi ég aðeins upplýsa hér, úr því að gerðir nýbyggingarráðs komu hér til umr. Að öðru leyti tel ég rétt, að n. sú, sem fær mál þetta til meðferðar athugi, hvernig þessum málum er nú komið og hvað þeir aðilar, sem hafa hér ullariðnað með höndum, hafa gert til að auka rekstur sinn. Það veitir auðvitað ekki af að hafa eftirlit með þessu, og ef einhverjir þessara aðila eru að ganga úr skaftinu, þá mundi hugmynd sú, sem fram kemur í þessu frv., hafa rétt á sér aftur, sem og hún raunar hefur alltaf haft og ég tel gott að þetta mál er hér fram komið, því að við athugun þess má ganga úr skugga um, hve framkvæmdir til aukningar á ullariðnaðinum eru langt á veg komnar.