29.01.1948
Neðri deild: 48. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

138. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil aðeins minnast hér á örfá atriði áður en þetta mál fer til n.

Það er nú nýlega búið að setja löggjöf um vernd barna og unglinga endurbætta frá því, sem áður var. Í þessari löggjöf voru settar tvær reglur. Önnur um það, hvernig greiða skuli fyrir þau börn, sem sett eru á barnaheimili, og hin um þau börn, sem sett eru á upptökuheimili eða athugunarstöð. Önnur reglan er um börn, sem ætla má, að dvelji til frambúðar á þeim stað, sem þeim er ráðstafað á, og er ætlazt til, að 4/5 kostnaðar verði greiddir af ríki, en bæjar- eða sveitarsjóður 1/5. Hins vegar er sú regla í l., — og hef ég ekki litið svo á sem þetta væri af vangá, heldur að þetta væri regla, að þegar um stutta dvöl er að ræða, yrði kostnaðurinn borinn af aðstandendum eða sveitarfélaginu. Þetta er regla l., og er það af ókunnugleika, ef það er ekki rétt hjá mér, að línuna hafi átt að draga svona. Nú er það spurningin, hvort eðlilegt sé að draga línuna svona. Í fyrsta lagi rekur ríkið upptökuheimili. Og hvað er átt við með því? Það er heimili, þar sem tekið er á móti börnum, bæði úr Rvík og annars staðar að, en mest þó úr Rvík. til stuttrar dvalar, á meðan þeim er ráðstafað í vist. Hér er um það að ræða, að börn, sem ekkert heimili eiga, annaðhvort vegna þess, að þau hafa misst foreldra sína eða vegna annars, fá þarna heimili um stundarsakir, meðan þeim er ráðstafað til frambúðar. Þetta er sem sé bráðabirgðadvöl, og vil ég segja það, að ég lít ekki á það sem eðlilegt, að ríkið kosti dvöl þessara barna, sem sett eru þarna, þó það sé svo, að ríkið sé skyldað með einhverjum lagaákvæðum til að kosta þessa stofnun, sem kölluð er upptökuheimili.

Svo er aftur þess að gæta, að með l., sem sett voru nú, er ríkinu gert að skyldu að koma upp rannsóknastöð innan þessara stofnana fyrir vangæf börn, sem síðan eiga að taka ákvörðun um það, hvað þeim er fyrir beztu, hvort hægt er að setja þau í vistir eða á barnahæli. Það er líka gert ráð fyrir því í barnaverndarl., að sveitar- og bæjarfélög borgi kostnaðinn fyrir börnin meðan þau eru á athugunarstöð. Ef það aftur á móti sýnir sig að börn séu úrskurðuð á barnahæli til frambúðar, koma þau undir ákvæði l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Ég vil undirstrika þetta, til þess að það geti verið til íhugunar í n. Nú er rétt að taka það fram til fróðleiks, að vegna þess, að þessi rannsókna- og athugunarstöð er ekki til, heldur aðeins upptökuheimili þá hefur stundum orðið að setja þar inn vangæf börn. þannig að þetta heimili verður að viðurkenna eins og vísi að upptökuheimili og rannsóknarstöð, en það er mjög óheppilegt að blanda því tvennu saman, þar sem börnin eiga heima á upptökuheimili og eru heilbrigð, en hin eru veik.

Nú hefur það verið hugmynd ráðuneytisins. þó að það hafi ekki skrifað um það enn þá til bæjarstjórnar Rvíkur, að það væri eðlilegt, að ríkið og Reykjavíkurbær væru saman um það að koma hér upp stofnun, sem bæði væri upptökuheimili og athugunarstöð og væri þannig í tveim deildum greinilega aðskildum. Þessa uppástungu ætlum við að gera, og er hún byggð á því, að það er í rauninni fyrst og fremst í þágu Rvíkur, að hér sé til upptökuheimili, — heimili fyrir börn, sem ekkert sérstakt er að, heldur þurfa að fá húsaskjól til bráðabirgða. En aftur á móti er það skylda ríkisins samkvæmt löggjöfinni að hafa rannsóknastöðina. Ég vil ekki fara að ræða það nánar hér, hvort þessi samvinna gæti tekizt, sem ég tel mjög æskilegt. En ég vil benda á það, að sparnaðarnefnd, sem hér starfar, bendir á það, að ríkið reki hér upptökuheimili með halla, og telur það ekki í verkahring ríkisins að reka þetta upptökuheimili. Nú má með nokkrum rétti segja, að þetta sé skylt lögum samkvæmt, en það sé vafasamt, að ríkið eigi að gera það, þó að það sé skylt að koma upp athugunarstöð. En mér finnst, að þarna ætti að vera samvinna milli þessara tveggja aðila. Reykjavíkurbæjar annars vegar og ríkisins hins vegar. En þetta er útúrdúr, ég ætla ekki að fara að hefja umr. um byggingu þessara heimila. Ég vildi aðeins upplýsa þetta um stefnuna 1 l. varðandi greiðslu kostnaðar. og vildi skjóta því til hv. heilbr.- og félmn., að hún athugi þetta vel, áður en hún tekur ákvörðun um það endanlega, hvernig þessi kostnaður yrði greiddur, því að mér virðist ekki óeðlileg sú skipting, sem ráðgerð er í l., að ríkið taki við unglingunum þegar þeir hafa verið úrskurðaðir til lengri dvalar á barnaheimilum, en fram að þeim tíma séu þeir kostnaðarlega á vegum hlutaðeigenda. sem í mörgum tilfellum eru hlutaðeigandi bæjar- og sveitarstjórnir.