19.12.1947
Efri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu, en stend upp vegna þess, að því hefur verið hreyft hér við umr. í dag, að ég hafi áður fyrr talað á móti eignaraukaskatti, og var því haldið fram, að í þessum efnum gætti nokkurs ósamræmis af minni hálfu. Vil ég fyrst geta þess, að breyttir tímar og breyttar aðstæður geta hæglega breytt skoðunum bæði mínum og annarra, og þess vegna hefur það ekki ýkja mikla þýðingu, þótt hægt sé að taka upp gömul ummæli og vitna í þau. Í öðru lagi er rétt að geta þess, að eignaraukaskatturinn í því formi, sem hann er í frv., er ekki kominn þangað eftir minni kröfu. Ég hefði óskað eftir slíkum fyrirmælum í öðru formi, þótt ég hins vegar telji, að óhjákvæmilegt hafi verið að hafa einhver slík ákvæði um veruleg framlög þeirra manna, sem mest hafa hagnazt undanfarið, í sambandi við þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, og skal ég ekki rekja það frekar. Ástæðan fyrir því, að ég stóð hér upp, er sú, að það hefur ekki verið rakið hér til hlítar, sem ég sagði um þetta mál á árinu 1943. Þá lét ég réttilega koma fram, að ég gæti undir vissum kringumstæðum fallizt á og teldi sanngjarnt, að eignaraukaskattur yrði í einhverju formi á lagður. Ég var fyrst og fremst á móti því frv., sem þá var til umr., vegna þess, að það var borið fram sem skattálagning eitt út af fyrir sig, án þess að allsherjarráðstafanir væru gerðar til þess að koma fjármálum landsins í lag, en hafði ætíð þann fyrirvara, þegar ég á annað borð gerði rækilega grein fyrir máli mínu, að málið horfði allt öðruvísi við, ef ætlunin væri sú að gera verulega tilraun til þess að ráða bug á dýrtíðinni og koma verðlagsmálunum í rétt horf. Þessu til sannindamerkis vil ég vitna í ummæli, er ég viðhafði og eru prentuð í C-deild Alþf. frá 1943, þar sem ég ber frv. saman við annað frv., þar sem gert var ráð fyrir eignaraukaskatti í sambandi við lausn dýrtíðarmálanna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vil ég leyfa mér að benda á, að mikill munur er hér á þessu frv. og þeim ákvæðum stjfrv., sem snerta skattamálin. Þar var skatturinn fyrst og fremst áætlaður miklu lægri, en í sjálfu sér hefur það ekki neina úrslitaþýðingu um afstöðuna til þessa frv., heldur hitt, að í frv. stjórnarinnar voru till. bornar fram beinlínis sem þáttur í þeirri viðleitni að verðfesta og halda í gildi íslenzkum verðmætum, jafnframt því að tryggja atvinnureksturinn og verðmæti eignanna. Og þótt að nafninu til hafi verið lagður nokkur skattur á eignir manna með ákvæðum þess frv., þá átti sá skattur að renna aftur beint til skattgreiðenda, með því að eignir þeirra voru gerðar verðmeiri en áður. Þetta var eftir efnum og ástæðum skynsamleg ráðstöfun og verjandi.“ Sú ráðstöfun var sem sé hliðstæð þeirri, sem ætlazt er til, að gerð verði með frv. því, sem hér liggur fyrir. Og til frekari áréttingar vil ég lesa upp ummæli mín í C-deild Alþf. á bls. 567, í sama máli, með leyfi hæstv. forseta: „Þá getur komið til greina, þegar menn snúa sér í alvöru að því að koma föstu formi á fjármálin, að gripa verði til slíkra ráðstafana sem þeirra, er hér ræðir um. Það voru aðrar ástæður, sem olíu því, að frv. ríkisstj. um verðlagsmálin á síðasta þingi náði ekki fram að ganga. Mönnum þótti ekki tímabært að taka verðlagsmálin upp og gátu ekki sameinazt um lausnina. Við lausn þessa mikla vandamáls hefði getað verið ástæða til að gera ráðstafanir svipaðar þeim, sem hér er gert ráð fyrir. En að gera slíkt án fullrar nauðsynjar og án þess að tryggja, að skatturinn komi raunverulega niður á þeim, sem mest hafa grætt á stríðinu og tekizt hefur fram til þessa að skjóta tekjum sínum undan skatti, það verður ekki til að bæta neins manns vanda og auka þjóðarheill.“

Með þessu kemur glögglega fram það, sem ég sagði, að ég væri á móti skattaálagningu, ef hún væri borin fram sundurslitin við verðlagsmálin í heild, en hafði þann fyrirvara, að allt öðruvísi stæði á, ef málið væri tekið upp í sambandi við lausn verðlagsmálanna í heild, enda hafði sá flokkur, sem ég á sæti í, tekið þátt í umr. um eignaraukaskatt haustið 1942 í sambandi við lausn verðlagsmálanna, en vildi ekki sinna því máli nema einhver lausn verðlagsmálanna hefði legið fyrir hendi. Hitt er annað mál, að menn geta sagt, eins og ég sagði í gær, að þetta frv., sem hér liggur fyrir um lausn dýrtíðarmálanna, sé ekki fullnægjandi. Það er saga út af fyrir sig. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í gær, að þótt frv. væri að vísu ekki fullnægjandi, þá væri það þó fyrsta sporið í rétta átt, og það er fullvíst, að ekki hefði tekizt að ná samkomulagi um þetta, nema því aðeins að þessi ákvæði um eignaraukaskattinn eða svipuð þeim hefðu verið tekin upp í frv. Og þó að ég telji það út af fyrir síg skipta litlu máli að vera að rekja ummæli, sem hafa verið viðhöfð undir allt öðrum kringumstæðum, þá vill nú þannig til, að það, sem ég sagði um eignaraukaskattinn árið 1943 og um afstöðu mína þá, áður og nú, er allt í fullu samræmi hvað við annað, svo að það er engin ástæða til að bera mér neitt á brýn í því sambandi.