19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2636)

159. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðh., þegar hann óskar eftir auknu samstarfi milli heilbrigðisstj. og bæjarstj., og ég er reiðubúinn til þess að taka upp slíkt samstarf. Hins vegar mega hv. þm. ekkí ætla, að þetta mál sé komið hér inn í þingið án nokkurs samráðs eða viðtals við ríkisvaldið. Ég hef rætt við það um þetta hvað eftir annað og átt ýtarlegar viðræður við héraðslækni, sem er langkunnugastur þessu máli. Ég hef haft samráð við hæstv. dómsmrh. um þetta, en hann var borgarstjóri, þegar þessu máli var hreyft. Það var svo meiningin, að hæstv. dómsmrh. flytti þetta mál við embættisbróður sinn í ríkisstj. Hitt er rétt, að formlega hefur þetta ekki borið þannig að, að bæjarstj. sendi heilbrigðisstj. bréf og bíði svo eftir að fá svar frá henni, því að það er vonlaust verk, ekki af því að hæstv. heilbrmrh. hafi ekki áhuga á þessu, heldur af því, að við vitum, að landlæknir stöðvar mál, sem send eru til heilbrigðisstjórnarinnar. Ég býst við, að svipað hefði farið um þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki heppilegt að tvískipta þessu starfi. Ég vildi aðeins benda honum og hv. þingheimi á, að það eru ekki mörg ár síðan tvö embætti voru svipuð og þetta, sem hér er gert ráð fyrir, sérstakur héraðslæknir og sérstakur bæjarlæknir fyrir Reykjavík. Þannig hygg ég, að ekki yrðu meiri vandkvæði á að skipta verkum milli þessara tveggja manna, sem í frv. er gert ráð fyrir, svo að hér er ekkert nýmæli, sem ekki megi finna fordæmi fyrir. En aðalatriðið í þessu máli er, að mér virðist, að grundvöllurinn fyrir því, að heilbrigðisfulltrúarnir í kaupstöðunum séu undirmenn héraðslæknanna, sú ástæða sé í raun og veru úr sögunni, þegar ákveðið er að fá fullgildan lækni í heilbrigðisfulltrúastarfið. Og okkur í bæjarstjórninni finnst eðlilegt, að sá maður, sem á að hafa þetta daglega eftirlit, sé sjálfstæður eftirlitsmaður og hafi þetta boð- og bannvald, sem hann þarf að hafa, en þurfi ekki að leita í hverju tilfelli til héraðslæknis, sem þó er að menntun til raunverulega alveg jafnt settur. Hins vegar hefur það til samkomulags við núverandi héraðslækni verið ákveðið, að beðið væri með endanlega skipun þess, þangað til hann léti af embætti, vegna þess að við vildum láta koma fram, að við værum ekki á nokkurn hátt að bekkjast við hann. Og þó að hann óski ekki eftir þessari skipulagsbreyt., hefur hann fallizt á að láta hinn nýja heilbrigðisfulltrúa fá allfrjálsar hendur.

Ég vil undirstrika, að það er ekki svo að skilja, að ég eða bæjarráð hafi viljað ganga fram hjá heilbrigðisstjórninni í þessu máli. Ég hef átt ýtarlegar viðræður um þetta við héraðslækni, sem þetta mál skiptir mest, og auk þess hefur núverandi hæstv. dómsmrh., sem hefur mesta kunnugleika af þessu máli, vegna afskipta af máli þessu fyrr, haft samráð, að því er ég bezt veit, við hæstv. heilbrmrh.