15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki nema góðra gjalda vert, að þeir, sem taka þátt í störfum, sem hér um ræðir, leggja oft á sig mikla vinnu við flutning tónverka. Annað mál er það, hversu mikil störf symfóníuhljómsveit muni vinna í þágu kvikmyndahúsa úti um land. Starfssvið hennar mun fyrst og fremst verða í Rvík. Eins og menn vita, þá hefur verið innheimtur skattur af skemmtunum um allt land til byggingar þjóðleikhúss í Reykjavík. Hins vegar tel ég þjóðleikhús gott mál og þarft, en það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta ofan á þjóðleikhússkattinn skatti til hljómlistarstarfsemi, sem aðallega yrði bundin við Reykjavík. Ég get fallizt á frv. þetta með þeim breytingum. að þessi skattur yrði bundinn við Reykjavík. Mér finnst það eðlilegra, og vil ég bera fram brtt., sem miðar í þá átt, þannig að á eftir orðinu „kvikmyndahúsum“ komi í Reykjavík.