18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka það fram, að mér finnst það engan veginn frambærileg rök fyrir frestun þessa máls, að hv. þm. Ísaf., sem flutt hefur hér brtt. við þetta, sé lasinn og geti ekki mætt á fundi. Það hefði ekkert verið við því að segja, þótt málinu hefði af þessum sökum verið frestað, ef þetta hefði verið fyrr á þingi og nægur tími fyrir hendi til þess að fjalla um málið, en þar sem nú er mjög áliðið þings, þá vinnst í raun réttri ekki tími til að verða við þessari ósk um að taka málið af dagskrá. Ég óska því, að umr. fari fram um málið, og þeir sem ræða vilja brtt. á þskj. 511. geta þá gert það við þessa umr.