18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Pétur Ottesen:

Ég vænti þess þá, að hæstv. forseti reikni mér ekki til ræðu það, sem ég sagði áðan. — Ég verð að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. menntmrh. sagði um það, að sjálfsagt hefði verið að fresta umr. um þetta mál, ef ekki hefði verið svo áliðið þings. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að mál þetta kom ekki fram hér fyrr en nú fyrir nokkrum dögum, og þegar á það er litið, er ekki nema eðlilegt, að þm. vilji fá nokkurt tóm til að athuga málið. Það er ekki mér eða öðrum þm., sem kunna að vilja leggja orð í belg um þetta mál, að kenna að það hefur komið svo seint fram, heldur er sökin þeirra, sem fluttu það. Og í skjóli þess, að nú sé svo áliðið þings, ætla þeir að keyra það í gegn og þar með næstum banna mönnum að ræða það til hlítar, og með því hyggja þeir, að stýrt sé fram hjá þeim boðum og hindrunum, sem fyrir afgreiðslu málsins kunna að verða.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að brtt. á þskj. 511. Mér virðist, að það beri mikið á því nú í afgreiðslu fjölmargra mála, að allt snúist um Reykjavík. Það er að vísu svo, að hér er miklum mun betri aðstaða til fjölbreytts skemmtanalífs heldur en alls staðar annars staðar á landinu, en það er skoðun mín, að þeir, sem njóta þessara skemmtana, eigi einnig að standa straum af þeim fjárhagslega. Ég fæ heldur ekki betur séð en að hér sé sá fjárhagsgrundvöllur fyrir hendi, að engin ástæða sé fyrir Reykvíkinga að seilast ofan í buddu landsmanna til að greiða fyrir skemmtun, sem svo engir aðrir njóta en Reykjavíkurbúar sjálfir. Það má því með sanni segja, að með frv. þessu sé einkennilega að farið.

Nú er mönnum kunnugt um það, að hinn svokallaði skemmtanaskattur af öllu landinu hefur runnið til þess að koma upp þjóðleikhúsi hér í Reykjavík. Þetta var reyndar mörgum þyrnir í augum, en málið gekk þó sinn gang. En svo þegar að því kom að halda uppi starfsemi leikhússins, þótti ekki tiltækilegt að láta allan skattinn renna áfram til þess. Á síðasta Alþ. var því ákveðið, að 40% af skemmtanaskattinum skyldi varið til starfsemi þjóðleikhússins, en 40% til þess að hlúa að skemmtanalífi úti um land. 10% skyldu svo renna til bókasafna, óstaðsettra.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, á svo enn á ný að fara að skattleggja landsmenn til þess að halda uppi hljómsveit hér í Reykjavík, en telja má, að hún geti starfað sem deild eða þáttur úr þjóðleikhúsinu, og virðist því, að nægilega sé búið að skattleggja landsmenn þetta varðandi. Ég er því algerlega fylgjandi till. hv. þm. Ísaf., en hún fer í þá átt að mæla gegn því, að verið sé að seilast í vasa allra landsmanna til að halda uppi þessari hljómsveit. Ef menn álíta, að hún sé svona bráðnauðsynleg eins og þeir hafa viljað vera láta, þá finnst mér það harla einkennilegt, að Reykvíkingar skuli ekki reynast þess umkomnir að halda í henni líftórunni. Mönnum utan af landi hlýtur að koma það harla einkennilega fyrir sjónir. Ég vil því eindregið mæla með brtt. hv. þm. Ísaf. um, að þessi nýi skattur taki eingöngu til kvikmyndahúsanna í Reykjavík og frv. verði samþ. þannig breytt.

Víða úti um land er mikill áhugi vakandi fyrir að halda uppi skemmtanalífi, og er það nærri undravert, hvað víða hefur tekizt að halda uppi góðu skemmtanalífi, þótt aðstæður og ástæður séu ekki alls staðar sem beztar í þeim efnum. T. d. fréttist nú frá Sauðárkróki, að þar sé verið að sýna stórt og merkilegt leikrit, Gullna hliðið, og hef ég heyrt, að það væri sýnt þarna við mjög góðar undirtektir og þætti prýðilega leikið. Menn úr nærsveitum — og einnig úr Húnavatnssýslum og meira að segja frá Akureyrit, þar sem leikstarfsemi er með miklum blóma. — hafa streymt til Sauðárkróks til þess að horfa á leikinn. Þetta sýnir það, að þegar nægur áhugi er fyrir hendi, þá má komast býsna langt í þessu sem öðru, og er þessi viðleitni og árangur manna úti um land vissulega góðra gjalda verð og verðskuldar fyllilega að því sé gaumur gefinn og að einhverju leyti styrkt.

Þegar á það er litið, að hér í Reykjavík eru skilyrði fjölbreyttari til skemmtana og skemmtanalíf í miklum blóma, þá er það næsta furðulegt, að Reykvíkingar skuli geta lagzt svo lágt að ætla sér að seilast í vasa landsmanna eftir fé til þess að halda uppi þeim þætti skemmtanalífs síns, sem hér um ræðir, og ég er hissa á, að hæstv. menntmrh., sem löngum hefur viljað telja sig forsvarsmann sveitanna. skuli nú láta svo „fallerast“ af sjónarmiði Reykvíkinga, að hann standi að flutningi slíks frv. sem hér liggur fyrir. Ég vildi því mega vænta þess, að sveitunum takist að halda hér fast á móti og hæstv. menntmrh. verði að láta hér undan síga.

Ég veit ekki, hvort mér hefur með ræðu minni tekizt að hræra svo hjarta hæstv. ráðh., að hann hafi skipt um skoðun á þessu máli, en frv. er vel þess vert, að því sé gaumur gefinn og vakað yfir því, að það séu ekki aðeins hagsmunir og sjónarmið Reykvíkinga, sem þar ráða.

Ég get látið að sinni útrætt um þessa brtt. og þetta mál, en vænti þess, að hæstv. Alþ. sýni þá sanngirni í þessu máli að samþykkja brtt. hv. þm. Ísaf. og láti hann ekki gjalda þess, að hann getur ekki verið hér viðstaddur vegna sjúkleika og ég er ekki fær um að mæla eins vel með brtt. og hann hefði gert. (SigfS: Þú mælir betur.) Nei, það verður sterkara, eftir því sem fleiri koma saman. Og svo er það atkvæðið. Ég er ekki viss um að hæstv. forseti leyfi, að ég greiði atkv. fyrir hann.