18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, vil ég benda á það, að skemmtanaskattur er ekki innheimtur nema í kaupstöðum og samkv. þessu frv. er heimilað að fara eins að með þetta gjald af kvikmyndum. Enn fremur er ekki gert ráð fyrir, að symfóníuhljómsveitin starfi aðeins fyrir Reykvíkinga, þar eð henni er ætlað að starfa bæði við þjóðleikhúsið og ríkisútvarpið, sem nær til allra landsmanna. Þá er gert ráð fyrir því í reglugerð hennar, að flokkar úr henni ferðist um landið og haldi hljómleika, og njóta þannig einnig menn úti á landi góðs af starfi hennar. Ég vil því leyfa mér að mæla á móti till., sem hv. þm. Borgf. mælti með.