18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (2663)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál mikið. En ræða hv. þm. Borgf. olli mér undrun. Ég hafði búizt við þeim rökum, að ástæðulaust væri að verja fé í þessu skyni. En hinu hafði ég síður búizt við, að andmælin yrðu í því fólgin, að málið væri talið einkamál Reykvíkinga og reykvískum kvikmyndahúsagestum einum þess vegna ætlað að standa undir þessum kostnaði. Það má deila um, hvort rétt sé að verja svona miklu fé í þessu skyni, og fer það eftir því, hve hver og einn telur slíka hljómsveit mikils virði. Ég er í þeim hópi, sem tel að slík hljómsveit hafi mikið menningargildi. Ég tel hana jafnnauðsynlega og kvikmyndir og jafnvel útvarp, og ég tel, að útvarp geti ekki fullkomlega gegnt hlutverki sínu án góðrar hljómsveitar. Enn fremur tel ég, að hún sé skilyrði þess, að um innlenda tónmenningu verði að ræða. Ég get skilið, að þeir, sem meta tónmenningu einskis, séu á móti þessu, en hinir sem meta hljómlist mikils, vona ég, að vilji láta reka slíka hljómsveit, jafnvel þótt hún kosti nokkuð mikið. Slíkum almennum rökum er þó ekki beitt, heldur sagt, að óeðlilegt sé að leggja 25 aura gjaldið á um allt land. Hv. þm. Ísaf. mælti með, að þetta gjald yrði aðeins lagi á í Reykjavík, og sama gerði hv. þm. Borgf. En hv. menntmrh. benti réttilega á, að þetta væri ekki einkamál Reykvíkinga, heldur væri höfuðstarf slíkrar hljómsveitar við ríkisútvarpið. Mér kemur það mjög á óvart, ef hv. þm. Borgf. heldur því fram, að útvarpið hafi einungis þýðingu fyrir Reykvíkinga. Þessi röksemd er því algerlega úr lausu lofti gripin. Þá kemur mér á óvart sá málaflutningur, að kvartað sé yfir því fyrir hönd landsbyggðarinnar, að Reykjavík sé að seilast í vasa hennar eftir fé. Hv. þm. Borgf. veit, hvernig skemmtanaskattinum er skipt. En það er vitanlegt, að mestur hluti skemmtanaskattsins kemur úr Reykjavík. Ég veit ekki fyrir víst, hversu mikið, en sennilega um 80 %. Nú fara 40–50% af skattinum til byggingar samkomuhúsa utan Reykjavíkur. Svo er staðið upp hér á Alþ. og talað um, að verið sé að seilast í vasa manna utan Reykjavíkur. Fjarri fer því, að þjóðleikhúsið sé einkaeign Reykvíkinga, það er það ekkert fremur heldur en menntaskólinn og útvarpið eru einkaeign Reykvíkinga. Ég gæti nefnt ótal dæmi þess, hve ósanngjörn þau brigzl eru, að Reykjavík sé ómagi á þjóðinni og að hún sé að stinga, hendinni í vasa landsbúa. Alþ. er nú að afgreiða fjárl. Það þarf ekki að fletta þeim lengi til að sjá, hvert mestur hluti fjárins fer. Ekki til Reykjavíkur, heldur út á land. Ef tóm gæfist til. mætti athuga, hvaðan mestur hluti skattteknanna kæmi, og síðan, hvernig þeim væri varið, og bera saman hlut Reykjavíkur og annarra landshluta. Sá samanburður yrði flókinn, en ég hygg, að þeim áburði, að Reykjavík væri að seilast í vasa annarra landsbúa, mundi verða hrundið. Ég gæti tekið næg dæmi til að sýna, að rökin fyrir brtt. á þskj. 511 hafa ekkert við að styðjast.

Mergurinn málsins er tvíþættur. Í fyrsta lagi er rík menningarástæða til að koma hér upp symfóníuhljómsveit. þótt hún kosti 5–6 hundruð þúsund. Og ég tel því fé skynsamlega varið og skynsamlegt að leggja þennan kostnað á bíómiða, Enginn fælist frá að fara í bíó, þótt miðinn sé 25 aurum dýrari, en þjóðin auðgast menningarlega fyrir gjaldið. Í öðru lagi skiptir hljómsveit þessi máli fyrir menningarlíf allrar þjóðarinnar, þar eð hún á að starfa við útvarpið. Þar af leiðandi er óeðlilegt að binda fjáröflun við Reykjavík eina. En þar sem nær engin kvikmyndahús eru utan kaupstaðanna, er ekkert tekið utan þeirra. (PO: Kaupstaðirnir eiga allir að mjalta til Reykjavíkur.) Þetta er mergurinn málsins. Ég mun því styðja frv. eindregið eins og menntmn. hefur afgreitt það.