18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér virðist málið komið í það óefni, að til vandræða horfi. Ég er því hér með brtt., sem ég vona, að verði sætzt á. Ég hef gaman af hljómlist, en samt sem áður treysti ég mér ekki til að vera með hærra framlagi en ½ millj. 25 aura sætagjaldið mun nema 700 þús. til 1 millj. kr. eða jafnvel meira, þar eð kvikmyndahúsum er alltaf að fjölga, og gæti farið yfir það, en ekki er hægt að segja um það fyrir víst, þar sem við höfum aðeins tölur úr Reykjavík. Ég geri ráð fyrir, að flestum finnist þetta ofrausn, jafnvel þótt við unnum hljómlist. Eðlilegast væri að styrkja hljómsveitina úr ríkissjóði, eins og efni standa til í hvert sinn. Nú er þetta frv. fram komið, og leyfi ég mér að flytja svo hljóðandi brtt. við 1. gr.: Innheimta skal jafnhliða skemmtanaskatti sérstakt sætagjald af kvikmyndahúsum. er nemi allt að 100 aurum á hvert sæti. — Sumum finnst ef til vill mikið að hækka hvern miða um 1 krónu. En ég er sannfærður um, að menn kaupa miðanna jafnt, hvort þeir kosta 3 eða 4 kr., ef þeir á annað borð ætla á bíó. Þessi skattur verður ekki tilfinnanlegur. En með því að innheimta 1 kr. aukagjald á hvern miða fást tekjur, sem nema munu 3-4 millj. króna. Þá vil ég flytja brtt. við 2. gr., svo hljóðandi: Fé það, sem innheimt er samkvæmt 1. gr., skal renna óskipt í ríkissjóð. — Ríkissjóður er alltaf í fjárþröng, en með þessu móti mætti styrkja ýmis nytsöm menningarmál, t. d. symfóníuhljómsveit. Ég tel því sjálfsagt að nota þennan tekjustofn, sem mundi gefa af sér 3–4 millj. kr. á ári, þegar neita verður um fé til framkvæmda, sem eru nauðsynlegar, og varla hægt að skila fjárlögum hallalaust. Ég fjölyrði nú ekki frekar um þetta. Fyrirsögn frv. verði: Frv. til 1. um sérstakt sætagjald af kvikmyndahúsum. — Ég vona, að menntmn. taki þetta til nákvæmrar athugunar, og verður því varla hægt að afgreiða það í kvöld. Ég vona, að n. taki þetta fyrir á, fundi og geti sætzt á þessa breytingu.