18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2684)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Pétur Ottesen:

Ég held, að það kapp, sem hér hefur verið lagt á að knýja þetta mál fram, ætli að snúast í höndunum á þeim, sem standa fyrir því verki. Meðferðin á því hér í kvöld hefur orðið þess valdandi að tekinn hefur verið upp alveg sérstakur háttur, á Alþ. (SigfS: Að fylgja þingsköpum.), sem ekki hefur verið beitt áður, svo að ég muni til, sem sé að neita um afbrigði fyrir till., sem fram er borin, að það er vitanlega þess vert, að því sé gaumur gefinn, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan vegna afbrigða. Og ég tel þess vegna, þrátt fyrir það að nú eigi að fara vel með tímann, þá sé með þessu búið að búa svo um hnútana í þessu máli, að það séu litlar líkur til þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Það var ekki ákaflega mikið í húfi þótt þessi afbrigði hefðu verið veitt, því að ef þannig væri háttað hér í hv. d., að hv. þm. litu svo á, að hér væri verið að brjóta þingsköp, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, þá hafði d. það á valdi sínu að fella þessa brtt. Það gat hún gert með alveg eðlilegum hætti og án þess að brjóta þá reglu, sem gilt hefur á Alþ. um langt árabil. Og þegar búið er að brjóta þá reglu, þá er náttúrlega óvandari eftirleikurinn að feta í þau óheillaspor. Við vitum það ekki nú hér í kvöld, til hvers er stofnað með því að fara svona að, en hyggilegt var það ekki. Og fyrsta afleiðing þess verður sú, að það bitnar á þessu máli, sem hér liggur fyrir, og hefur það þó sennilega engan veginn verið tilgangur þeirra ofurkappsmanna í þessu máli, að svo skyldi fara. En það er sannarlega ofurkapp út af fyrir sig, að þegar fram er komin brtt. og þm., sem að henni stendur, getur ekki sökum lasleika seint á kvöldi eða næturþeli mætt til þess að standa fyrir sínu máli, þá skuli málið vera knúð svo fast fram, að það er verið að nota sjúkleika þessa manns til þess að koma málinu áfram, því að hvað sem um það má segja, hvaða áhrif ræður hans hefðu haft, þá gat atkv. hans haft áhrif við atkvgr. málsins. En þessum hv. þm. er fyrirmunað með þessu háttalagi að neyta atkvæðisréttar síns nú í málinu, sökum þess að hann er sjúkur og getur ekki mætt við afgreiðslu málsins hér. — Ég vænti þess vegna, að þetta sem komið hefur fyrir hér í kvöld, að synjað hefur verið um afbrigði, geti orðið nokkur lærdómur fyrir hv. þm. Og það er þess að vænta, að hann verði þá á þá lund. að hv. þm. gæti betur ofurkapps síns í sambandi við sókn mála hér heldur en átt hefur sér stað hér í kvöld.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hæstv. menntmrh. eða ræðu hv. 4. þm. Reykv., af því að hv. 2. þm. S-M. hefur tekið að mestu leyti af mér það ómak, bæði að því er það snertir, hve ósanngjarnt er að leggja á þennan skatt úti um byggðir landsins, og líka með tilliti til þeirra fullyrðinga, sem hv. 4. þm. Reykv. var hér með í sambandi við samskipti Reykjavíkur annars vegar og annarra landshluta hins vegar. Hæstv. menntmrh. sagði, að þessi skemmtanaskattur næði alls ekki til allrar landsbyggðarinnar. Hann á vissulega að greiðast á öllum þeim stöðum, þar sem eru 1500 íbúar eða fleiri. Og það er vitanlegt, að kvikmyndahúsin á þessum stöðum eru sótt af mönnum víðs vegar úr hinum dreifðu byggðum, sem eiga þess lítinn kost heima fyrir að afla sér skemmtana með svipuðum hætti. Og ég tel engan veginn útilokað. að innheimtu þessu skatts yrði hagað þannig, ef þetta yrði samþ., að reynt yrði í þessu efni að teygja klærnar til umferðakvikmyndasýninga til þess að ná tekjum fyrir þessa symfóníuhljómsveit. Þessir hv. þm., sem eru að reyna að seilast eftir þessum skatti utan úr dreifbýlinu, líta svo á, að það sé ekki stoð í neinu skemmtanalífi öðru heldur en því, sem fram fer í Reykjavík. því að ef þeir litu svo á, að það bæri að hlynna að slíkri starfsemi annars staðar á landinu og efla hana og gera hana sem allra sjálfstæðasta út af fyrir sig, þá mundu þeir ekki viðhafa þessa aðferð, sem þeir nú viðhafa í þessu sambandi. En eins og hér hefur verið lýst, þá er fjárhagsaðstaða til skemmtanahalds svo gerólík hér í Reykjavík annars vegar og annars staðar á landinu hins vegar, að því er ekkert saman að jafna. Og þess vegna býr fólkið úti um landið við allt aðra aðstöðu í þessu efni heldur en í Reykjavík og við miklu meiri erfiðleika í sambandi við að fullnægja skemmtanalöngun sinni og verður að leggja miklu meira á sig úti á landsbyggðinni til þess heldur en hér í Reykjavík, þar sem hin mikla mannmergð er og hin mikla peningaveita til þess að standa undir þessu skemmtanalífi. Það, sem fram hefur komið hér, er þess vegna yfirlýsing þeirra manna, sem skattleggja vilja dreifbýlið til þess að Reykvíkingar geti skemmt sér, um það, að skemmtanalífið og þátttaka manna í því úti um landsbyggðina sé svo lítilfjörlegt við hliðina á slíkri starfsemi hér í höfuðstaðnum, að það eigi að veikja og skerða þá aðstöðumöguleika, sem til þessa eru fyrir hendi úti um landið, til þess að halda uppi skemmtanalífi í Reykjavík — til þess að hlaða undir slíka starfsemi hér í Reykjavík. Þannig líta þeir á. Og það var við þetta, sem ég miðaði, þegar ég beindi því áðan til hæstv. menntmrh., að honum hefði förlazt nokkuð sýn að því er snertir umhyggju fyrir þeim, sem búa úti um hinar dreifðu byggðir landsins og hafa miklu erfiðari aðstöðu til að halda uppi skemmtanalífi hjá sér og fullnægja þörfum og kröfum fólksins í því efni heldur en Reykvíkingar. Og það leiðir af sjálfu sér, að því erfiðara sem fólki er gert fyrir með að hafa þessa starfsemi úti um landið, en jafnframt meir hlúð að þessari starfsemi í Reykjavík, því sterkari og víðtækari er gerð sú keðja, sem dregur fólkið utan af landi til Reykjavíkur. Og er sú keðja orðin ærið sterk og umfangsmikil áður, þótt ekki sé verið að sjóða það stál frekar en orðið er né fjölga hlekkjum í þeirri keðju. En þannig hlyti þetta að verka, ef samþ. væru ákvæði þessa frv.

Ég hafði ekki fellt neinn dóm um starfsemi þessarar symfóníuhljómsveitar, sem hér er um að ræða. Ég er ekki fær um að fella þann dóm. Þess vegna gerði ég það ekki. En þrátt fyrir það að ég sé fákunnandi á þessu sviði, þá var mér það ljóst, hvílíkar öfgar voru fólgnar í þeim lýsingum, sem hv. 4. þm. Reykv. var að gefa á slíkum hlutum, þar sem allt annað virtist hverfa í skuggann fyrir þessu hjá honum og að hann sæi engin önnur verðmæti eða verðgildi í okkar þjóðfélagi heldur en hljómsveit og öll önnur menningarviðleitni væri í raun og veru ekki annað en blaktandi sinustrá, ef við ekki höndluðum þetta hnoss (!) Ég veit ekki, hvernig við höfum getað lifað menningarlífi öll þessi ár án þess að hafa symfóníuhljómsveit. (GÞG: Það hefur vantað þetta.) En við höfum þó skrimt. En þegar á svo að fara að stíga upp á hásætis-hátopp listarinnar hér í Reykjavík, þá finnst mér allt of langt gengið, ef það á ekki að vera hægt án þess að seilast út um allar byggðir landsins og sækja þaðan 25 aura af hverjum einasta bíómiða, sem fólk þar kaupir. Og það mundi þó ekki byggjast á efnaskorti manna hér í Reykjavík, ef svo væri að farið, heldur hinu, að fólkið hér í Reykjavík liti allt öðrum augum á þessa starfsemi heldur en hv. 4. þm. Reykv. gerir. Ef til þessa óyndisúrræðis þyrfti í raun og veru að grípa, hlyti það að stafa af því, að fólkið hér í Reykjavík mæti ekki hljómlist þessarar hljómsveitar til jafnmikils gildis eins og hv. 4. þm. Reykv. gerir, þ. e. ef það treystir sér ekki til að standa undir þessari skemmtanastarfsemi á annan hátt. — Hæstv. menntmrh. talaði um það, að hann ætlaði að láta fólkið úti um dreifbýlið fá nokkuð í staðinn. Jú, það átti að fá að heyra í hljómsveitinni í útvarpinu endrum og eins, — og máske mundi hún eyða sumarfríinu með því að fara út um landið sér til hressingar og upplyftingar, eins og Reykvíkingar gera. Hvað útvarpið snertir, þá get ég gengið inn á, að hún mundi koma þar kannske nokkrum sinnum fram. En ég verð að segja, að landsfólkið borgar fullt fyrir það, sem útvarpið ber á borð fyrir það, með því að borga 100 kr. skatt á hverju ári. Það má náttúrlega segja, að þar hallist ekki á, því að Reykvíkingar borgi þann skatt eins og aðrir sem útvarpið nota. En ég vil ekki bera það saman — og er ég þá kominn inn á hugsunargang hv. 4. þm. Reykv. um gildi þessarar symfóníuhljómsveitar, þó að ég sé ekki eins háspenntur eins og hann, þá er ég kominn inn á það, að þessi hljómsveit hafi náttúrlega þýðingu og gildi — en er það þá réttlátt að bera það saman, þegar maður leggur ríkisútvarpið eitt til grundvallar, að láta þá menn, sem búa utan Reykjavíkur úti á landsbyggðinni, borga jafnt til þess að halda uppi symfóníuhljómsveit eins og Reykvíkinga, sem njóta hennar allan árstímann? Ég álít það ekki réttlátt, heldur mjög fjarri því. Og hvað útvarpið snertir gagnvart þeim, sem úti á landi búa, þá ekki aðeins borga, heldur margborga menn það, sem þeir fá frá útvarpinu. — Nei. það er allt of langt seilzt og lágt lagzt og ósanngjarnlega að farið, ef á að fara að skattleggja þannig fyrir Reykjavík fólkið úti á landsbyggðinni. Það er ósanngjarnt út frá því sjónarmiði, hversu aðstaða fólksins utan Reykjavíkur, víðast hvar, er erfið til þess að halda uppi skemmtanalífi þar. Og það er alveg undravert, hvað því tekst í því efni.

Ég skal svo aðeins segja fáein orð út frá því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði í sambandi við þau orð, sem ég hafði sagt og einnig voru byggð á því, að það væri allt of langt seilzt með þessu. Þessi hv. þm. hélt hér langa ræðu, og þar var það grunntónninn — uppistaðan og fyrirvafið að eiginlega lifði allt landið á Reykjavík. (GÞG: Ekki sagði ég það. ) Hann talaði um, að hún bæri allt uppi í landinu. Ja. hvar værum við staddir, ef Reykjavík væri ekki? (Rödd af þingbekkjum: Dauðir úr hungri.) Já, það segir einn hv. þm. bak við mig, að þá værum við dauðir úr hungri. Þá væru víst mennirnir, sem leggja til allt kjötið í landinu og mjólkina, dauðir úr hungri, ef ekki væru svo margir munnar í Reykjavík til að taka á móti framleiðslu þeirra. (SigfS: Við höfum talsvert af fiski.) Togararnir leggja ekki upp afla sinn í Reykjavík, heldur selja hann fyrir erlendan gjaldeyri, sem er náttúrlega þýðingarmikil starfsemi. En fólkið, sem býr utan Reykjavíkur, framleiðir mikið af því, sem menn leggja sér til munns í landinu. — En hvernig hefur Reykjavík byggzt upp? Hefur ekki fólkið utan af landsbyggðinni flutzt til Reykjavíkur? Hefur ekki fólkið utan af landsbyggðinni flutt þau efni, sem það var búið að afla sér, hingað til Reykjavíkur? Og hvert er komið andvirði jarðanna. sem fólkið hefur yfirgefið í sveitunum? Er það ekki komið í byggingar hér í Reykjavík og aðrar framfarir hér? Og hvernig býr svo Alþ. og ríkisvaldið að Reykjavík í þessum efnum? Hvaða þýðingu hefur það fyrir Reykjavík, að þar eru allar stjórnarskrifstofurnar? Og hvaða þýðingu hefur það að hafa skólana hér í Reykjavík? Hvaða þýðingu hefur það, að meginhlutinn af öllum vörum, sem fluttar eru til landsins, er fyrst lagður á land í Reykjavík? Hvaða þýðingu hefur það fyrir Reykjavík, að allar einkasölur ríkisins, svo sem áfengisverzlunin, tóbakseinkasalan, viðtækjaverzlunin o. fl., eru hafðar hér í Reykjavík? Og af hverju er þetta? Er þetta ekki af því, að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið hefur hagað þessum málum þannig? Þó að hv. 4. þm. Reykv. vilji hér taka upp fjárl. og benda á það, að allmikið af fé því, sem varið er t. d. til verklegra framkvæmda, rennur til byggðanna utan Reykjavíkur, þá er það ekki nema örlítið brot af útgjöldum fjárl., sem fer út um hinar dreifðu byggðir landsins, og það er ekki nema örlítil brotgreiðsla af þeim skattálögum, sem Reykjavík tekur af landsmönnum sem afleiðing af þeim stjórnarráðstöfunum, sem við búum hér við. — En ef við förum svo og athugum tölur á fjárl. í sambandi við launagreiðslur og annað slíkt, hvaða staður á landinu fær þar stærstan hlut? Það væri gott, að hagfræðingurinn, hv. 4. þm. Reykv., stingi niður penna og færi að reikna það út. Ég vil þess vegna taka undir það með hv. 2. þm. S-M., að okkur er alveg óhætt, að hv. 4. þm. Reykv. settist niður og reiknaði út eftir sinni hagfræðiþekkingu og kunnáttu skiptinguna þar. (GÞG: Ég skal gera það við tækifæri. — HB: Er þetta ádeila á Reykjavík eingöngu orðin?). Ég var að svara hv. 4. þm. Reykv. Og ef maður snýr sér að stórkaupmönnunum og öllu því liði hér, þá taka þeir sinn skerf af verðmætum fólksins.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál. En ég hef verið neyddur til að svara hv. 4. þm. Reykv., því að mér virðist, að þeir ættu ekki að kasta grjóti, sem sjálfir búa í glerhúsi. En það er ekkert óeðlilegt út af fyrir sig, þó að í sambandi við þetta mál, sem fyrir liggur, sé nokkuð minnzt á aðstöðu Reykjavíkur til að gera upp þessar sakir. En þar kemur náttúrlega margt til greina. Og ef á að fara langt út í það, þá verður að gera það á miklu umfangsmeiri hátt heldur en á þá leið, sem umr. hafa farið nú á milli okkar hv. 4. þm. Reykv. og mín.

Ég vænti þess svo, að þessi brtt. verði samþ. Ég held, að það sé öllum bezt, sem að þessu standa, og líka langsamlega eðlilegust afgreiðsla í sambandi við þetta mál. Og það má segja, að með því að afgreiða þetta mál þannig, að tekjur handa þessari hljómsveit komi héðan úr Reykjavík, þá feli það í sér miklu meiri viðurkenningu á þýðingu og gildi þessarar hljómsveitar, því að það sýnir þá, að skilningur þeirra manna á gildi þessarar starfsemi, sem fyrst og fremst njóta hennar, er sá, að því fólki þykir svara kostnaði, að slíkri hljómsveit verði haldið uppi, og að það vilji eitthvað á sig leggja til þess.