18.03.1948
Neðri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

180. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég ætlaði aðeins að segja, að það er ástæðulaust að menn geri sig svo hátíðlega út af afbrigðum, því að það eru fjöldamörg fordæmi fyrir því, að neitað hafi verið um afbrigði, og kvað svo rammt að þessu um skeið, að gerð var þingskapabreyt. um frv. flutt eftir ósk stj., vegna þess að þetta var talsvert tíðkað.

Ég vil aðeins taka það fram út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að hér er um heimild að ræða, en ekki skyldu. Auk þess vil ég taka það fram út af því, sem hann áðan sagði, að ég lít þannig á, að þetta „jafnhliða skemmtanaskatti“ í frv. geri það að verkum, að þetta gjald verði ekki innheimt nema þar, sem skemmtanaskatturinn til ríkisins er innheimtur, og við það verða menn að miða sínar áætlanir. Þess vegna er ástæðulaust að tala um 1 millj., og finnst mér það undarleg álög á hv. 2. þm. Rang. í sambandi við þetta mál að flytja fyrst brtt., sem er tvímælalaust þannig vaxin, að frv. hefði ekki getað staðizt, ef hún hefði verið samþ., og flytja svo dagskrá, þar sem rangt er sagt frá staðreyndum.