06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

62. mál, menntaskólar

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi, en kom þá svo seint fram, að það hlaut ekki afgreiðslu, þótt séð væri að það mundi, eins og vænta mátti, fá góðar undirtektir, því að menntmn. og þessi d. afgreiddu málið frá sér einróma og mæltu með samþykkt þess.

Samkvæmt núgildandi l. um menntaskóla er þar ákveðið. að menntaskólar skuli vera tveir, annar í Rvík og hinn á Akureyri. Auk þess skal stofna menntaskóla í sveit í Sunnlendingafjórðungi, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Þá er það kunnugt, að auk þess hefur Verzlunarskóli Íslands rétt til þess að útskrifa stúdenta, og eru menntaskólar því raunverulega tveir í Rvík. Síðan þetta frv. var flutt í fyrra, hefur héraðsskólinn á Laugarvatni fengið rétt til þess að hafa lærdómsdeildarnám og hefur á þessum vetri byrjað að undirbúa nemendur undir stúdentspróf. Því gefur að skilja, að menntaskóli, sem stofnaður skal í sveit í Sunnlendingafjórðungi, verður menntaskólinn að Laugarvatni. Hins vegar er það svo að í Vestfirðingafjórðungi er enginn og í Austfirðingafjórðungi ekki heldur neinn menntaskóli. Á Ísafirði starfar nú gagnfræðaskóli með um 230 nemendum, og eru þannig að meðaltali um 80 nemendur í bekk í þeim skóla. Í Austfirðingafjórðungi er fjölmennur héraðsskóli. Gagnfræðaskóli er einnig í Neskaupstað og unglingaskóli í Seyðisfjarðarkaupstað. Þannig er í Austfirðingafjórðungi fjöldi nemenda, sem aðstöðu hafa til að ljúka menntaskólaprófi. En þeir, sem miðskólaprófi ljúka, eiga samkvæmt nýju löggjöfinni rétt til að stunda nám í menntaskóla eða kennaraskóla.

Auk gagnfræðaskólans á Ísafirði eru starfandi á Vestfjörðum tveir héraðsskólar, þ. e. héraðsskólinn á Núpi í Dýrafirði og héraðsskólinn á Reykjanesi. Unglingaskólar eru nú á þessu hausti að hefja starfið í flestum þorpum Vesturlands, að mér er kunnugt. Í Bolungavík, Flateyri, Þingeyri, Patreksfirði og víðar er í undirbúningi að hafa unglingaskólarekstur. Þeir, sem unglingaskólaprófi eða miðskólaprófi hafa lokið, eiga rétt til framhaldsnáms í kennaraskóla eða menntaskóla, eins og ég hef áður sagt. Nú er þannig, eins og kunnugt er, að menntaskólinn á Akureyri er yfirfullur og erfitt að koma nemendum að. Enn erfiðara verður það, þegar unglingaskólarnir rísa upp og nemendur koma frá gagnfræðaskólunum með próf sín og kalla til framhaldsnáms. Sökum heimavistarinnar í Akureyrarskóla hefur það löngum verið helzti skólinn fyrir nemendur af Austfjörðum og Vestfjörðum að leita til og fá þar heimavist, meðan á náminu stendur. Því er það torsótt fyrir nemendur utan af landi að stunda nám í Rvík, nema með miklum kostnaði. Talið er, að kostnaður við eins vetrar nám muni kosta 5–7 þús. kr. með ýtrustu sparsemi og ef vel er á haldið.

Undanfarin ár hafa verið miklar bollaleggingar um það, hvernig koma ætti fyrir málefnum menntaskóla í Rvík. Og enn þá vita menn ekki, hvernig þau mál munu verða leyst. Nýlega skrifuðu tveir menntaskólakennarar grein í Morgunblaðið um það mál. Gefur sú grein glögga hugmynd um það, hversu reikulir menn eru í ráði um lausn þessa máls. Fyrir ári síðan hefur verið í ráði að reisa nýtt skólahús í Laugarnesi fyrir 500–600 nemendur og leggja niður gamla skólann. Þetta hús átti að verða 130 metra langt og 3 hæðir og gangarnir í því 40% af rúmmáli þess og ½ km. af lengd þess. Þetta hús sem í ráði var að reisa, fordæma þessir kennarar báðir tveir og telja það ekki ná nokkurri átt að reisa slíkt skólabákn sem menntaskóla í borg. Þá skýra þeir frá því, að nú hafi komið fram síðan till. til lausnar á þessu máli á þá leið, að reisa beri 6 hæða hús á lóð frá Bankastræti að Bókhlöðustíg, og eigi gamla skólahúsið að víkja fyrir þessu bákni, sem þeir kalla á öðrum stað í grein sinni skýjakljúf. Orðrétt segja þessir kennarar um þessa hugmynd: „Okkur er sagt, að þessi till. sé borin fram í alvöru, en ekki gríni.“ Þess vegna er það ljóst, að þessum tveimur ágætis kennurum finnst hugmyndin vera fjarstæðukennd.

Um aðstöðu fyrir utanbæjarnemendur til að stunda nám hér í Rvík segja þessir menn á þá leið: „Reykjavíkurskólinn var ekki einu sinni byggður fyrir utanbæjarnemendur, enda utanbæjarnemendum svo til ókleift að stunda nám hér í Rvík fyrir húsnæðissakir og dýrtíðar.“ Ég er sammála þessum ágætu mönnum um, að mjög mannmargir skólar séu óheppilegir. Þeir lýsa sig andvíga því, að hér sé reist slíkt skólabákn, sem rúmi 600–700–800 nemendur eða fleiri, sem kemur til með að kosta tugi milljóna kr. Í fyrra kom það fram hér, að lóð ein undir menntaskólahús og þær byggingar aðrar, sem reisa þyrfti í sambandi við það á þeim stað, mun kosta 5–6 millj. kr. Mér er nær að halda, að þær skólabyggingar, sem þyrfti að reisa á Ísafirði og Eiðum fyrir slíka skóla á hvorum stað, mundu ekki fara langt fram úr þeirri upphæð einni. Ég hygg, að þegar tekið er tillit til þeirra mannvirkja, sem eru á hvorum staðnum, þurfi ekki annað en reisa skólahús með 4–5 stofum og svo rektorsíbúð. Íþróttahús er á báðum stöðum og sundlaug og ágætt bókasafn á Ísafirði og eru þannig veruleg verðmæti til, sem nota mætti ekki aðeins í þjónustu þeirra skóla, sem fyrir eru, heldur einnig menntaskóla í viðbót.

Ég mun ekki ráða fram úr því. hvernig hagað verður stækkun á húsrými menntaskólans í Rvík. En ég hygg, að það verði ekki um það að ræða, að nemendur af Vestfjörðum og Austfjörðum eigi greiðan aðgang að skólanámi hér í borg. Hitt hef ég sýnt fram á, að menntaskólinn á Akureyri mun naumast geta tekið þá aðsókn, sem að þeim skóla verður úr Norðlendingafjórðungi einum, þegar nýja skólakerfið er komið í gang. Ég hef sýnt fram á, að nemendafjöldi er nógur á Austfjörðum og Vestfjörðum til menntaskólanáms.

Það er hverju orði sannara, að það er ekki hverjum nemanda fært að fara í langskólanám, enda ekki æskilegt. Þessu er ekki til að dreifa, þegar bekkjasókn á ári er orðin um 80–90 nemendur í hverjum bekk. Og segjum, að 15 haldi áfram bóklegu námi í menntaskóla, þá er þar um að ræða gott úrval um bóklega námshæfni miðað við nemendur eins og ég þekki til í mínum skóla og yfirleitt þar, sem ég hef kynni af.

Ég held að við flm. getum fullyrt, að það er ekki gengið á rétt neins með flutningi frv. eins og þessa. En frv. er í þá átt að gera aðstöðu ungs fólks á Austur- og Vesturlandi til framhaldsnáms nokkru — jafnari en verið hefur og sýnilegt er, að verður, ef ekki verður úr bætt. Því að ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að að nokkrum árum liðnum mundi fara svo, ef þetta frv. næði ekki samþykki á Alþ., að þá yrði lítt möguleikar fyrir ungt fólk úr þessum tveimur fjórðungum að halda áfram námi nema með því móti, að fjölskyldur nemenda yrðu að taka sig upp og flytja til Rvíkur til þess að, reyna á þann veg að geta aðstoðað börn sín til framhaldsnáms í skólum hér. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að slíkir fólksflutningar, þar sem oft á í hlut ágætis fólk, eru byggðarlögunum að austan og vestan hin mesta blóðtaka. Ég sé ekki að Rvíkurborg geti tekið við áframhaldandi fólksflutningi utan af landi eins og undanfarin ár.

Í raun og veru er engin furða, að til eru hér hverfi eins og Kleppsholt með 4–5 þús. manns, eða upp undir það eins og Akureyri, þar sem ekki er til neinn barnaskóli, varla nokkur leikvöllur, ljósmóðir né nokkur löggæzla, Rvík hefur vaxið ört vegna fólksflutninga utan af landi og hún hefur ekki kraft til þess að veita félags- og menningarlega aðstoð eins og þyrfti. Það eru stórir bæjarhlutar, sem hafa þotið hér upp á fáum árum. Ef þessi straumur heldur áfram og ekkert er gert til þess að skapa aukið jafnvægi í þjóðfélaginu fyrir fjöldann, þá hygg ég að þetta frv. hafi raunverulega almenna þjóðfélagslega þýðingu í jafnvægis átt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál á þessu stigi. Ég flutti hér ýtarlega ræðu fyrir málinu í fyrra, og er samþm. mínum málið nokkuð kunnugt. Ég hygg, að með þeirri grg., sem frv. fylgir, sé gerð nokkuð ýtarleg grein fyrir málinu í heild, og vil fastlega vænta þess, að þetta réttlætis- og sanngirnismál fái góðar undirtektir. Mér er ljóst, að þótt það verði afgr. sem 1. frá Alþ., kemur það ekki til framkvæmda á sömu stundu, heldur tekur framkvæmd þess allmörg ár. Vafalaust er það og, að ekki verða til byggingar strax, og má því byrja á þeim skólum, sem til eru á þessum stöðum, eins og á Laugarvatni og hefja kennslu í 1. bekk í húsi gagnfræðaskóla Ísafjarðar og héraðsskólanum á Eiðum. Ef til vill mætti koma þar fyrir 5. bekk síðar, þegar búið er að afla starfskrafta til að inna slíka kennslu af höndum. Þá yrðu nemendurnir frá þeim stöðum sendir til prófs að námi loknu, annaðhvort til menntaskóla Akureyrar eða Rvíkur.

Ég minnist þess, er ég var í gagnfræðaskóla Akureyrar fyrir 20 árum. Þá voru þar 90 nemendur, en á Ísafirði eru nú 300 nemendur. Þá var barátta Norðlendinga fyrir menntaskóla hjá sér langt komin og lauk nokkru síðar. Þá var það merkur menntaskólakennari, sem skrifaði um málið og sagði, að ef Norðlendingar fengju sinn menntaskóla, þá mundi ekki numið staðar fyrr en Vestfirðingar fengju sinn að nokkrum árum liðnum. Páll Sveinsson skrifaði grein í Skírni um, að nú hefðu Vestfirðingar ekki fylgt rétti sínum. Eftir liðin 20 ár er þetta nú vakið, og hygg ég, að ekki verði við því spornað. Með því mæla öll skynsamleg rök.