06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

62. mál, menntaskólar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég mun greiða atkv. með þessu frv. til 2. umr. og n.

Það, sem ég segi hér, er nánast upplýsingar. sem ég vil, að n. taki til athugunar við meðferð málsins, svo að það komi skýrt fram aðalatriðin í því, sem ég óska, að hún taki til athugunar. Það er svo um þetta mál, að það skaðar ekki, þó að það sé undirbyggt með þeim beztu rökum, sem hægt er að finna, og má vel vera, að aðrir hv. þm. geti beðið n. að athuga málið frá fleiri hliðum.

Í fyrsta lagi vil ég, að það komi fram og að þess sé getið í nál., hvað margir nemendur hafi verið í menntaskólunum báðum, og vil ég miða þetta við þriggja ára tíma, svo að það sjáist, hve ör vöxturinn hefur verið í nemendafjöldanum. Í öðru lagi: Hversu mörgum nemendum hefur verið neitað um skólavist þrjú síðustu ár? Í þriðja lagi : Hvaðan af landinu eru þeir nemendur, sem neitað hefur verið um skólavist? Í fjórða lagi: Hversu mikill fjöldi stúdenta stundar nú framhaldsnám í háskólum hér og erlendis, prósentvís? Í fimmta lagi : Hve mikill hluti stúdenta snýr sér að hinum ýmsu störfum við atvinnuvegi landsins? Í sjötta lagi: Hvað mikill hundraðshluti stúdenta á Norðurlöndum stundar háskólanám, miðað við svipaðan hundraðshluta hjá okkur?

Það mætti vel vera fleira, sem upplýsa þyrfti. Ég skýt þessu fram m. a. af því, að það eru möguleikar á því, að svo mikill hluti unglinga hugsi sér að stunda nám við menntaskóla og jafnvel enn þá æðri skóla, að það verði tiltölulega meiri fjöldi en hollt er fyrir atvinnulífið í landinu. Þetta er hugsanlegur möguleiki. Það er nú svo, og ég hygg, að sú reynsla sé almenn, að þeir sem ganga þessa leið menntabrautarinnar, snúi sér yfirleitt ekki aftur til hinna almennu starfa við atvinnuvegi landsins. Hins vegar verður að játa það, að öll menntun á að koma hverjum einstaklingi til góðs, að hvaða starfi sem hann snýr sér. En ég hygg, að það sé ekki rangmæli, að reynslan sé sú, að þau ungmenni, sem yfirleitt hugsa sér langskólanám, séu horfin úr atvinnulífi þjóðarinnar. Og þá er spurningin, hvað ein þjóð hefur ráð á að missa mikinn fjölda út á þessa braut.

Ég vil gjarnan. að n. gefi sér tíma til að athuga þetta, því að það má vel vera, að við slíka athugun komi í ljós, að við séum enn þá skemmra komnir með menntakerfi okkar en þær þjóðir, sem við teljum með meiri menningarþjóðum, eins og Norðurlandabúar, sem eru skyldir okkur á svo marga lund og hafa lagt svo mikla áherzlu á að skapa alþýðumenntun í æðri og lægri skólum. Ég er ekki með þessu á neinn hátt að draga úr, að frv. sem þetta megi öðlast fylgi hér á þingi. En ég hygg, ef almenningur fer að ræða um málið, að því sterkari verði rökin fyrir því, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, sem ég hef nú minnzt á, og jafnvel fleira, sem menn kynnu að óska.

Ég ætla ekki að fara út í ræðu hv. flm. Sumt, sem hann hélt fram, efast ég um, að sé alveg rétt. Hæstv. utanrrh. hefur svarað fyrir Rvík, en ég býst við, að innstreymið til Rvíkur, sem hann réttilega minntist á, stafi ekki mest af þessari orsök, sem hann nefndi, að það sé vegna barna, sem ætti að koma í skóla í Rvík. (Hv: Við vitum, hvaða fólk hefur farið frá okkur.) Við vitum líka, hvaða fólk hefur komið til okkar. Það er ekki þessi ástæða, sem er höfuðatriðið. Það kann að vera, að finna megi um það einstök dæmi, en það er svo lítill hluti af því, sem hingað hefur streymt, sem kemur af þessari ástæðu. Ef fram færi athugun á þessu, þá mundi mín skoðun áreiðanlega staðfestast. Ég fer ekki út í rök hv. flm. fyrir þessu máli, en vil óska þess að n. sæi sér fært að afla þeirra upplýsinga, sem ég hef nú beðið um, svo að þær liggi ljósar fyrir okkur, sem eigum að fjalla um málið við 2. og 3. umr.