06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

62. mál, menntaskólar

Páll Zóphóníasson:

Ég skal ekki verða langorður. En ég vil í sambandi við það, sem hér hefur verið sagt, mælast til þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi um leið, hvort ekki væri rétt að ákveða í lögunum stað fyrir Menntaskólann í Reykjavík.

Viðvíkjandi spurningu hv. 1. landsk. um, hve mikil prósenttala Íslendinga séu stúdentar, vil ég benda honum á það. að með slíkar samanburðartölur hér og í öðrum löndum er lítið að gera. Öll íslenzka þjóðin er ekki fjölmennari en ein gata í stórborg, hún lifir í öllu landinu enn og þarf því miklu fleiri embættismenn en aðrar þéttbýlli þjóðir.

Viðvíkjandi því, sem hann sagði að fáir stúdentar fari út í atvinnulífið, þá vil ég bara segja það, að það er miklu meira um það hér, að tiltölu, að íslenzkir stúdentar fari út í atvinnulífið en í öðrum löndum.