06.11.1947
Efri deild: 15. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2721)

62. mál, menntaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég get verið stuttorður. Það er sérstaklega hv. þm. Barð., sem hefur valdið misskilningi á því tvennu, annars vegar nauðsynlegri menntun fyrir menn af ýmsum stéttum þjóðfélagsins, hins vegar stúdentsmenntun. Það er æskilegt, að flestir borgarar, konur sem karlar, fái beztu menntun við sitt hæfi. Stúdentsmenntun er í raun og veru sérmenntun. Þó að það sé oft kallað almenn menntun, þá er í eðli sínu verið að búa menn undir ákveðið starf í þjóðfélaginu. Fyrir þá menn, sem ekki leggja stund á þau störf, er önnur menntun hagkvæmari. Það var það, sem fólst í orðum mínum. Það er ekki vafi á því, að sá maður. sem ætlar að verða bóndi, hefur betra af því að ganga í búnaðarskóla og eyða tíma sínum í það en að gerast stúdent. Sá, sem ætlar að verða stýrimaður, hefur betra af að fara í sjómannaskóla, vélstjóri í sinn skóla, húsmóðir í húsmæðraskóla. Það er rétt, að töluvert af fólki hefur horfið frá námi, þó að það væri stúdentar. En það er rétt, að það komi fram, að það hefur heldur verið litið niður á þá menn, sem horfið hafa frá námi og eingöngu orðið stúdentar. Og ætli það sé ekki beinlínis hugsunarhátturinn hjá þessu fólki, að almennt sé sú menntun til sérstaks náms? Það er ekki æskilegt, að svona sé litið á af þessu fólki, sem í þessu hefur verið, sem kemur eingöngu af því, sem ég segi, að þetta sé undirbúningsmenntun til sérstaks náms. Þeir, sem vilja leggja stund á annað, verja tímanum betur til þeirra starfa með því að stunda aðra skóla, sem býr þá betur undir það starf en það, sem menntaskólinn býr menn undir.

Það er rétt, sem hv. 1. landsk. sagði. að stúdentsmenntun sé til þess löguð og byggist á því með þeim tíma, sem til þess fer, að draga menn frá líkamlegri vinnu. Það er að vísu ekki æskilegt, en svona er þetta. Það er æskilegt, að þeir, sem ætla sér að fara út í önnur störf, eyði ekki tíma sínum í þá bókmenntun, sem fólgin er í stúdentsmenntun, heldur leggi meiri stund á aðra skóla, svo sem búnaðarskóla, sjómannaskóla, verzlunarskóla eða annað slíkt. Menn mega ekki rugla þessu saman, hvort menn vilja mennta sig eða hvort menn ætla sér að verða stúdentar. Það gat átt við þegar menntaskólinn eða hinn lærði skóli, sem þá var kallaður, var eini skólinn í landinu til að sjá fyrir menntun í óteljandi greinum, eftir því sem hverjum stúdent hentaði.

Ef það er rétt, að skipstjórar hafi sömu almenna menntun og stúdentar, þá vil ég segja það miklu hagkvæmara fyrir allan þorra manna, sem ekki halda áfram að læra, að verða skipstjórar. Þá geta þeir gripið til þess og haft not af fræðslu sinni. Ef menntunin er sú sama, er hagkvæmt að fara í stýrimannaskólann. Það er sannað mál, að allt þetta bóklega nám í fólki er ekki svo lítils virði. En það verður að játa þá staðreynd eins og er, að menn hafa misjafnt upplag til að læra. Ég vil upplýsa það, að spurningar, sem 8–9 ára barn fékk hér í Rvík, voru margar eins erfiðar og menn fengu við stúdents- og gagnfræðapróf. Þetta sýnir, að þessi fræðikennsla er öll komin inn á villigötur. Við eyðum tímanum í hluti, sem ekki skipta máli og þar með vitleysa að kenna þá, svo að ég held, að það sé rétt, að ekki sé ástæða til þess að ýta undir menn að gerast stúdentar. Það er ekki fyrir alla, nema þeir hafi til þess sérstaka eiginleika. Einn getur verið ágætur sjómaður, og þá á að beina honum að læra til þess. Annar hefur upplag til að læra bókleg fræði. Þá á að beina honum til þess og hann að verða stúdent. Þetta upplag, sem verið er að greina á milli. gerir manninn engu lakari síður en svo — heldur oft og tíðum miklu betri, þó að hann hafi ekki upplag til bóklegs náms.

Verzlunarskólinn er ekki heldur talinn með í frv., þar sem gert var ráð fyrir einum menntaskóla í Rvík. Þó að aðrir skólar verði settir á stofn, er ekki hægt með því að skjótast undan því, að Rvík fái menntaskóla á borð við aðra staði í landinu.