02.03.1948
Efri deild: 72. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2739)

62. mál, menntaskólar

Brynjólfur Bjarnason:

Það voru aðeins örfá orð vegna ræðu hv. 3. landsk. (HV). Ég býst við, að í þessu máli sé það alveg hið sama sem fyrir okkur vakir, svo að við ættum að geta rætt það alveg rólega. Við viljum báðir, að að því sé stefnt að skipa málum þannig, að sem allra mest jafnrétti yrði milli þegnanna og milli landshluta. Við erum þar á sama máli. En jafnframt þyrfti að vera tryggt, að námið yrði eins fullkomið og kostur er á og aðstaða leyfir í landi okkar.

Hv. þm. (HV) vildi ekki gera neitt úr því, að kennslukraftar nytust verr, þótt komið væri upp svona mörgum menntaskólum víðs vegar um landið. Ég færði rök að því, að svo hlyti að vera, þar sem um litla skóla væri að ræða. Það yrðu erfiðleikar á því, að úrvalskennslukraftar notuðust. Hv. þm. benti á, að þessir kennslukraftar gætu líka haft verkefni við gagnfræðaskólana. Þá er nú fyrst því til að svara, að oft er óheppilegt að blanda saman kennsluliði við menntaskóla og gagnfræðaskóla. Það er oft óheppilegt að nota þá krafta við menntaskóla, sem hægt er að nota við gagnfræðaskóla. Í öðru lagi efast ég um, að nægileg verkefni væru fyrir hendi í ýmsum námsgreinum. jafnvel þótt gagnfræðaskólar yrðu teknir með, og alveg sérstaklega kemur þetta til greina þar, sem gera verður ráð fyrir því, að menntaskólar séu tvískiptir, í máladeild og stærðfræðideild, því væri farið að byggja menntaskóla víðs vegar um landið, sem ekki væri hægt að skipta í máladeild og stærðfræðideild, teldi ég það illa farið, en það eru líkur til, að svo yrði þar, sem ekki er hægt að fullskipa bekkina. Nú býst ég ekki við, að þetta vaki fyrir hv. flm. En ég teldi það illa farið að koma upp mörgum menntaskólum og stærðfræðideildir yrðu aðeins á tveim stöðum. Ef þetta yrði, yrðu einir 3 menntaskólar, sem hefðu eingöngu máladeild, en það yrði til þess, að nemendur úti um land, sem þessa skóla sæktu, mundu fara í máladeild, því að þeir ættu ekki annars kost. Það mundi fara þannig, að þessir nemendur færu í máladeild, þótt þeir annars hefðu farið í stærðfræðideild, ef þeir ættu jafnan kost á því. Nú er það svo, að nám í stærðfræðideild er eitt af því allra nauðsynlegasta og það, sem mest vöntun er á í okkar þjóðfélagi. Það er nauðsynlegt fyrir verkfræðinga, náttúrufræðinga í ýmsum greinum, efnafræðinga o. s. frv., sem mikill skortur er á. Þótt ekki væri annað en þetta, teldi ég það mjög óheppilegt, enda er það svo, að það er mjög kostnaðarsamt að koma upp stærðfræði- og náttúrufræðideild með sæmilegri aðstöðu, ef slík deild á að vera eitthvað lík því, sem nauðsynlegt er, að hún sé.

Þá vildi hv. þm. ekki upp úr því leggja, að erfiðara væri að fá kennslukrafta út á land en hér í Rvík og benti á Akureyri. Það má segja, að sæmilega hafi gengið að fá kennslukrafta til Akureyrar, en þó kvartaði fyrrverandi skólameistari undan erfiðleikum, sem á því væru vegna samkeppninnar við Rvík (HV: En gengur ekki líka erfiðlega að fá kennslukrafta í Rvík?). Jú, en rektor menntaskólans í Rvík kvartar ekki undan samkeppni við Akureyri. Það er enginn vafi á því, að það er hægara að fá menn til þess að setjast að á Akureyri en á stöðum eins og Ísafirði og Eiðum og get ég vitnað í það, hve erfitt er að fá kennslukrafta fyrir gagnfræðaskólana úti um landið, því að það er svo erfitt, að því fer fjarri að þeir hafi þá kennslukrafta, sem krefjast verður af gagnfræðaskólum.

Þá spyr hv. þm., hvort dýrara sé að hafa marga skóla, og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki dýrara, en þegar hann var að ræða um þetta, varð mér ljóst, hvað í till. hans felst, hvað fyrir honum vakir. Það á ekki að byggja nýtt menntaskólahús í Rvík. Í stað þess eigum við að byggja skóla úti um landið. Það er þessi röð, sem hann vill hafa á framkvæmdunum. Þegar ég heyrði þetta, var ég enn þá sannfærðari en áður um það, að hér er verið að fara ranga leið. Ég er því nú enn þá meira á móti þessu frv. Mér varð af þessum kafla í ræðu hv. þm. ljóst, hversu skakkt það er, sem hann leggur til. Ég er sannfærður um, að þýðingarmesta verkefnið er að koma upp nýju menntaskólahúsi í Rvík. Þetta hús, sem kennt er í, er ófullnægjandi á alla lund. Húsakynni eru þar svo lítil og það er troðið svo í skólann, — og verður haldið áfram að troða í hann, — að það er alveg óforsvaranlegt. Og í staðinn fyrir það, að hv. 3. landsk. þm. (HV) telur hæfilegt að hafa 20–25 í bekk, eru þar, eftir því hvað stofurnar eru stórar, í bekk upp undir 40. Þessi þrengsli eru þó út af fyrir sig, en húsakynnin eru svo léleg, að það er alveg óviðunandi og háir kennslunni. — En svo er ekki bara um þetta að ræða. Hér eru engin skilyrði fyrir náttúrufræði- og stærðfræðikennslu, og því þarf að koma upp nýju húsi. Það þarf að koma upp skólastofum, sem geta gegnt sínu hlutverki fyrir eðlisfræði og efnafræði og til þess að geta gert tilraunir. Þetta er mjög aðkallandi. Og til þess að hægt sé að koma menntaskólamálinu í lag, þarf að koma upp menntaskólahúsi í Rvík. Það er höfuðröksemd mín gegn frv., að við eigum að einbeita okkur að því nauðsynlegasta á undan öðru.

Þá sagði hv. þm., þegar hann var að tala um kostnaðarhliðina, að það að byggja heimavist í Rvík mundi verða eins dýrt og að koma upp menntaskólum úti um landið. M. ö. o., hann álítur ekki brýna nauðsyn á því að koma upp heimavist í Rvík. Ég er alveg á öðru máli. Það þarf að koma upp heimavist og þótt þessir skólar yrðu úti um landið, þyrfti líka að koma upp heimavist. En ég er alveg sannfærður um það, að aðalmenntaskólanámið verður í Rvík, enda er það vafalaust heppilegasti staðurinn fyrir slíka hluti, m. a. vegna bókasafnanna.

Hv. 3. landsk. þm. minntist á það í lok ræðu sinnar, eða lok þess hluta ræðunnar, er hann beindi til mfn. að ég hefði talið, að til mála gæti komið að stofna menntaskóla í sveit síðar meir, og að þá hefði ég ekki talað um nein kennaravandræði. Það er rétt, að ég minntist ekki á kennaravandræði í sambandi við það, vegna þess að ég álít, að við þurfum að kosta kapps um að auka kennaralið okkar á næstu árum, því að það er nauðsynlegt til þess að geta haldið uppi kennslu fyrir þann fjölda nemenda, sem ætla að stunda menntaskólanám, á hvern hátt sem þessi mál verða leyst, hvort sem þessir skólar verða fleiri eða færri. Og ég gerði ráð fyrir, að jafnvel þó að byggt yrði hús hér í Rvík og skapaðar aðstæður til þess að hafa hér skóla með 500 nemendum eða fleiri og svo hafður annar skóli slíkur á Akureyri, þá mundi það, þegar stundir líða og það fljótlega. ekki fullnægja þörfinni fyrir slíka skóla. Og það þýðir, að ef komið er upp fleiri nýjum skólum, þarf að fá til þeirra aukið kennaralið. Það er auðvitað ekki það, sem okkur greinir á um, að auka þurfi kennsluna og bæta við kennslukröftum í menntaskólum, ef þarf að sjá fleiri og fleiri nemendum fyrir þeirri kennslu, heldur en ágreiningur um það, hvaða leiðir eigi að fara og í hvaða röð verkefnin skuli vera tekin.