08.03.1948
Efri deild: 76. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (2755)

62. mál, menntaskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. játaði í ræðu sinni, að hér væri um nokkurt vandamál að ræða og að menn væru á nokkuð mismunandi máli um það, hvar velja skyldi stað fyrir menntaskólabyggingu í Rvík. Þó virðist honum það ekki vera meiri vandi en svo, að hann telur mína skoðun í þessu máli bera þess ljósan vott, að ég sé andlega vanheill maður. Það er sumpart dálítið erfitt að rökræða við þm., sem notar slík rök sem ég drap á. Mál hv. þm. bar þess ljósan vott, að hann heldur, að ég standi einn undir því, sem gert er í þessu máli, en að öðru leyti var ræða hans skipuleg og skal ég ekki ræða við hann frekar um það, hvernig andlegri heilsu minni sé varið.

Einn var sá háttur í ræðu hv. 4. landsk., sem ég undraðist mjög, en það er, að hann gat ekki stillt sig um að kenna bæjarstjórn Rvíkur um það, að ekki var byrjað á byggingu menntaskólahúss í Rvík í ráðherratíð hv. þm. Það er staðreynd, að ef Reykjavíkurbær hefði reynt að þvælast eitthvað fyrir þessu máli, þá hefði hv. þm., ef hann hefði viljað ýta málinu áfram, ekki látið bæjarstjórninni haldast slíkt uppi, en hefði flutt frv. til l. á Alþ. um eignarnámsheimild fyrir lóðir undir menntaskólahús. Nei, það sanna í þessum ummælum hv. þm. er, að hann hefur búið þessa sögu til í dag, er hann varð flæktur í nokkurn vanda í umr. um málið. Þannig er þetta til komið. En hv. 4. landsk. ber sjálfur hér nokkra ábyrgð. Ekki vegna þess að hann sé ekki andlega heill og ekki af neinum illum vilja býst ég við en hann réð ekki við málið. Hann flaug og hoppaði holt af holti eins og kría, var óákveðinn og hafði ekki kjark í sér til þess að taka ákvörðun. Ég var borgarstjóri í Rvík, er hv. 4. landsk. gegndi starfi menntmrh., og ég reyndi af fremsta megni að verða við óskum hv. þm. um lóð undir menntaskólann og ég hafði þá skoðun, að ég sem borgarstjóri ætti ekki að hindra ríkisstj. í eðlilegum framkvæmdum vegna þessa máls. Ég talaði við þm. og reyndi sem ég gat til þess að fá hann til þess að ákveða eitthvað í þessu. En slíkt tókst ekki, það reyndist árangurslaust. Og svo geri ég það fáheyrða að leggja til, að ákveðið verði með l., hvar byggja skuli menntaskóla í Rvík og með því að reyna að losa um málið, svo að ekki verði hoppað til og frá, sem hv. þm. gerði, er hann hoppaði holt af holti.

Hv. 4. landsk. sagði, að ekki mætti samþykkja brtt. mína sökum þess, að það væri sama og vantraust á starfsbróður minn, hæstv. menntmrh. Ég veit nú varla, hve sárt hv. 4. landsk. fyndist það, þó að hæstv. menntmrh. fengi vantraust og stjórnarsamvinnunni yrði þar með lokið. Ég er hræddur um, að það yrði ekki neinn sorgardagur fyrir hv. 4. landsk. né flokksbræður hans. Ég býst frekast við því, að hann mundi halda hátíð, þar sem ekki yrði alllítið um dýrðir. Þess vegna er það aðeins uppgjöf hjá hv. þm., er hann ber slíkt fyrir sig sem þetta. Hér er ekki verið að leggja nein höft á hæstv. menntmrh., og hæstv. ráðh. hefur ekki færzt undan. að þessi breyt. yrði samþ., en því flyt ég þessa brtt., að ég vil binda endi á slíkt ráðdeildarleyst sem hv. 4. landsk. þm. sýndi í ráðherratíð sinni. Vegna ráðleysis hv. 4. landsk. mun hafa reynzt erfitt að hrinda nýrri menntaskólabyggingu af stað, og nú sýnist það vera allhæpið, að hafizt verði handa, fyrr en þá einhvern tíma á næsta ári. Varðandi það atriði, sem hv. þm. talaði svo mjög um, að vald ráðh. væri skert, ef skólanum yrði ákveðinn staður með lagasetningu, þá hefur nú annað eins skeð og það, að stjórnarskipti hafi átt sér stað og ákvarðanir fyrri ráðh. verið að engu gerðar.

Ég ætla ekki að fara að ræða um gerðir hinnar ágætu fyrrv. ríkisstj. En ég vil minna hv. 4. landsk. þm. á það, að ég studdi hann með ánægju sem menntmrh. í fyrrv. ríkisstj., en ég harma, hve hv. þm. hefur hlaupið hrikalega út undan sér í þessu máli. Í þessu máli kom hann illu einu til leiðar í ráðherratíð sinni, sem leiddi það af sér, að byggingarmál Menntaskóla Reykjavíkur eru í hinni mestu niðurníðslu. Er hv. þm. var ráðh., var hann samvizkusamur í störfum sínum og vildi á sinn máta láta gott eitt af sér leiða og ég held, að hann hafi lagt mikla alúð við störf sín yfirleitt, En í þessu máli lét hann illt eitt leiða af afskiptum sínum af því. Mannleg gæði stoða nú ekki að eilífu, og satt að segja furðar mig á því hversu hv. þm. hegðar sér í þessum umr. Hér í Rvík búa nú um 50 þús. manna, og hefur því mikið að segja, hvar skólinn er staðsettur í borginni, Alþ. hefur oft látið sig skipta máli sem minni þýðingu hafa haft en þetta. Svo kemur hv. þm. hér og lýsir yfir því, að það sé allt mér að kenna, hversu dregizt hefur að byggja nýtt menntaskólahús. Mér finnst hálfleitt að þurfa að segja frá þeirri sáru reynslu, að þrátt fyrir mikinn bægslagang hv. 4. landsk., er hann var ráðh., hafði það engar aðrar afleiðingar en að tefja málið. Það má nú minna á, hversu langt þm. hefur verið á veg kominn með skýjaborg sína, að ekki alls fyrir löngu skrifuðu tveir kennarar menntaskólans grein í Morgunblaðið, þeir Einar Magnússon og Sigurkarl Stefánsson, um staðarval fyrir menntaskólann. Það má rétt geta sér til, hversu langt málið hefur verið á veg komið, að kennarar menntaskólans höfðu ekki verið spurðir ráða né þeim neitt erindi um þetta sent til umsagnar. Málið er því ekkert nema á umræðustigi, og um engar raunhæfar framkvæmdir hefur verið að ræða. Það hefur aldrei komið til kasta kennara menntaskólans, og það eina, sem þeir vissu um, það var það, sem þeir höfðu lesið á skotspónum. Hv. 4. landsk. hefur víst ekki þótt taka því að taka tillit til kennara menntaskólans. Ég get ósköp vel sagt það, að ég er ekkert of góður til að læra af öðrum mönnum, það sem þeir hafa gott fram að leggja. Mér fannst grein þessara tveggja menntaskólakennara vera merkileg og get gert þeirra rök að mínum rökum. Og það á að vera auðsætt mál, að Alþ. hefur enga afsökun, ef það lætur þetta mál ekki til sín taka.